Fréttasafn



20. mar. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Umfang innviða mun meira hér á landi en heimsmeðaltal

Umfang innviða hér á landi er mun meira hér á landi en heimsmeðaltalið sýnir. Það er helst í Noregi og Japan sem verðmæti innviða er meira en á Íslandi, mælt sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Á Íslandi er verðmæti innviða um 3.500 milljarðar króna og umfangið endurspeglar því mikilvægi þeirra fyrir hagkerfið. Virði innviða er 138% af vergri landsframleiðslu á Íslandi en heimsmeðaltalið er um 70%. Í Noregi er virði innviða hátt í 180% og nálægt 200% í Japan. Önnur lönd eru með innviði bundna í innviðum niður í allt að 50% af vergri landsframleiðslu. Þetta kom meðal annars fram í erindi Ingólfs Bender, aðalhagfræðings SI, sem hann hélt á ráðstefnu í tengslum við Verk og vit sýninguna 9. mars síðastliðinn. Yfirskrift ráðstefnunnar var Framtíð höfuðborgarsvæðisins - skipulag, innviðir og fjármögnun. Ráðstefnan var haldin í samstarfi við Landsbankann og Samtök iðnaðarins. 

Í máli Ingólfs kom einnig fram að innviðirnir væru misjafnir að umfangi þar sem endurstofnvirði er mest í orkuinnviðum og þjóðvegum. Hann sagði að fjárfestingar á ýmsum sviðum innviða hefðu verið litlar undanfarin ár en stækkun hagkerfisins kalli á nýjar fjárfestingar í innviðum. Þá sagði hann hluta innviða hér á landi vera í slæmu ástandi og þá sérstaklega þjóðvegi og fráveitur. Hann sýndi fram á að uppsöfnuð viðhaldsþörf í vegum og brúm væri 110-130 milljarðar króna og þrátt fyrir að umferð hafi stóraukist hafi lítið verið fjárfest í vegasamgöngum. Ingólfur sagði að nú væri rétti tíminn til að fara í innviðauppbyggingu þar sem hægt hefur á hagvexti. Slíkar framkvæmdir mundu draga úr niðursveiflunni og byggja jafnframt undir hagvöxt framtíðarinnar.

Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs á ráðstefnunni.

Á vef Verk og vit er hægt að nálgast glærur frummælenda á ráðstefnunni.

Hér er hægt að lesa frekar um innviði á Íslandi.