Fréttasafn



29. nóv. 2016 Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Yfir 40 fulltrúar frá Íslandi á Slush í Helsinki

Yfir 40 frumkvöðlar, fjárfestar og fjölmiðlar frá Íslandi ætla að fara á Slush tækni- og sprotaráðstefnu sem haldin er í Helsinki í Finnlandi 30. nóvember til 1. desember. Icelandic Startups og Íslandsstofa, í samstarfi við Slush og íslenska sendiráðið í Helsinki standa fyrir ferðinni en um er að ræða eina stærstu tækni- og sprotaráðstefnu Evrópu. Gert er ráð fyrir að um 15.000 manns sæki ráðstefnuna. 

Það eru 17 íslensk sprotafyrirtæki sem taka þátt. Íslenska leikjafyrirtækið, Porcelain Fortress, hefur verið valið úr hópi fjölda umsækjenda og fær tækifæri til að kynna viðskiptahugmynd sína á sviði á ráðstefnunni ásamt 99 öðrum alþjóðlegum sprotafyrirtækjum. Sprotafyrirtækin RVX og Solid Clouds verða fulltrúar Íslands og kynna starfsemi sína á sérstöku Slush Nordic Showcase á ráðstefnunni. 

Á meðal þeirra sem taka þátt í dagskrá Slush ýmist með erindi eða umræðum eru Kári Stefánsson, stofnandi og forstjóri deCode Genetics, Davíð Helgason, stofnandi Unity Technologies og fjárfestasjóðsins Nordic Makers, Sigurður Ásgeir Árnason, stofnandi Drexler og Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups. 

Tilgangur ferðarinnar er að vekja athygli á fjölbreyttum og frambærilegum sprotafyrirtækjum og umhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi en jafnframt að auka tengsl á milli fjárfesta og þeirra aðila sem fóstra grasrót frumkvöðla á Norðurlöndunum segir í fréttatilkynningu frá Icelandic Startups. Heimsóknin til Helsinki hefst með morgunverði í boði Kristínar Árnadóttur, sendiherra Íslands í Helsinki. Þangað hefur verið boðið lykilaðilum í viðskiptalífi Finnlands, alþjóðlegum fjárfestum og fjölmiðlum ásamt íslensku sendinefndinni.