Iðnaður skapar 36% gjaldeyristekna

Gjaldeyristekjur fyrirtækja í iðnaði námu í fyrra 422 mö.kr. eða 36% af heildargjaldeyristekjum þjóðarbúsins af útflutningi vöru og þjónustu árið 2016. Tekjurnar eru af fjölþættri starfsemi iðnaðar á sviði framleiðslu-, hugverka- og byggingariðnaðar.

 

Gjaldeyristekjur-af-utflutningi-voru-og-thjonustu-2016

 

Vöruútflutningur er stærsti þáttur iðnaðarútflutnings þó gjaldeyristekjur þjónustuiðnaðar séu einnig umfangsmiklar. Ál, járnblendi og málmar eru umfangsmesti einstaki hluti í útflutningi iðnaðarvara með 18% gjaldeyristekna árið 2016 eða tæplega 208 ma.kr.  Af því var álútflutningurinn stærstur eða með um 191 ma.kr. Með nýjum verkefnum á þessu sviði hefur hluti stóriðju í gjaldeyristekjum farið vaxandi allt frá því að fyrstu skrefin voru tekin á þessum vettvangi 1969. Má segja að með fjárfestingum á þessu sviði hafi verið stigin stór skref í að auka fjölbreytileika í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins en fram að þeim tíma hafði sjávarútvegur skapað langstærstan hluta gjaldeyristekna þjóðarbúsins. 

Með sókn á öðrum vettvangi iðnaðarútflutings hefur verið aukið enn við fjölbreytileikann í gjaldeyrisöfluninni. Í fyrra voru gjaldeyristekjur af útflutningi iðnaðarvara án stóriðju ríflega 9% gjaldeyristekna eða ríflega 107 ma.kr. Um er að ræða iðnaðarvörur á borð við vélar og rafeindabúnað fyrir matvælaiðnað, lyf og lækningavörur og plastvöru. Þessu til viðbótar námu gjaldeyristekjur af útflutningi þjónustu á sviði iðnaðar 9% gjaldeyristekna í fyrra eða tæplega 107 ma.kr. Er þar um að ræða gjaldeyristekjur hugbúnaðar- og hugverkaiðnaðarins. 

Miklar breytingar á samsetningu gjaldeyristekna þjóðarbúsins

Miklar breytingar hafa átt sér stað í samsetningu gjaldeyristekna þjóðarbúsins á undanförnum árum. Tekjur af þjónustuútflutningi hafa vaxið hratt á sama tíma og vöxturinn í vöruútflutningi hefur verið fremur hægur. Hefur vöxturinn í þjónustuútflutningi síðustu fjögur ár verið að meðaltali tæplega 13% á ári en 3,1% að meðaltali í útflutningi vöru. Hefur þetta gert það að verkum að vægi þjónustu í gjaldeyristekjum þjóðarbúsins hefur aldrei verið hærra eða 55%.

Helsti þátturinn í vexti þjónustuútflutnings á síðustu árum hefur verið ferðaþjónustan. Með miklum vexti gjaldeyristekna vegna fjölgunar ferðamanna undanfarin ár er ferðaþjónustan nú orðin stærsta greinin í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins með ríflega 39% hlutdeild á síðasta ári.

Að baki hröðum vexti ferðaþjónustu undanfarin ár stendur iðnaðurinn að stórum hluta. Byggingariðnaðurinn er þar t.d. í lykilhlutverki varðandi uppbyggingu innviða á þessu sviði í hótelum, almennu gistirými og samgöngum svo eitthvað sé nefnt. Einnig er matvælaiðnaðurinn stór þáttur í þjónustu við ferðamenn. Þá má nefna að þáttur hugverkaiðnaðar er stór í því að laða hingað ferðamenn og þjónusta þá. Svipaða sögu má segja um sjávarútveg þar sem mörg íslensk iðnfyrirtæki standa að baki þeirri grein bæði á sviði mannvirkja, framleiðslu og hugverks. Meðal annars með þeim hætti eru hagsmunir þessara atvinnugreina samofnir. 

Aukin fjölbreytileiki í gjaldeyrisöflun er mikilvægt í efnahagslegu samhengi en einhæfni  var lengi vel rót mikilla hagsveiflna í íslensku efnahagslífi. Í þessu sambandi skiptir ekki einungis máli að fjöldi greina standi að baki gjaldeyrisöfluninni heldur einnig fjölbreytileiki innan hverrar greinar í útflutningi. Ætti fjölbreytileiki á þessu sviði að skila sér í stöðugra efnahagslífi þegar litið er til framtíðar. Góð almenn starfsskilyrði eru best til þess fallin að stuðla að slíkri samsetningu gjaldeyristekna. 

 

Gjaldeyristekjur-idnadar-2016