Stoðgögn

Hér má finna ýmis gögn sem geta verið gagnleg við innleiðingu gæðastjórnunar og önnur sem eru upplýsandi um þær kröfur sem gerðar eru til verktaka við verklegar framkvæmdir.

Gæðakerfi í iðnaði

Nánari skilgreiningar á gæðakerfi SI

Samtök iðnaðarins bjóða aðstoð við innleiðingu gæðastjórnunar
ásamt uppbyggingu og miðlægri vistun gæðakerfa í mánaðalegri áskrift.

Í rúman áratug hafa SI lagt áherslu á að hvetja og aðstoða félagsmenn sína til að tileinka sér aðferðafræði gæðastjórnunar. Samtökin gerðu á sínum tíma drög eða sýnishorn af gæðakerfi sem félagsmönnum hefur staðið til boða að laga að eigin rekstri. Kerfið hefur í tímans rás smám saman þróast yfir í vefræna útfærslu. Nú hefur skrefið verið tekið til fulls með því að bjóða félagsmönnum aðstoð við að innleiða og byggja upp gæðakerfi á miðlægum grunni.

Byltingarkennd þjónusta á ári nýsköpunar

Nú geta félagsmenn SI byggt upp eigið gæðakerfi og skráarvistun á vefnum. Með þeim hætti geta þeir nálgast eigið gæðakerfi og gögn sem tilheyra tilteknum verkum hvar sem þeir komast í netsamband. Starfsmaður SI gegnir að vissu leyti hlutverki sem gæðastjóri fyrirtækjanna þar sem hann aðstoðar þau við að byggja upp gæðakerfið og sem ráðgjafi og leiðbeinandi þegar á þarf að halda. Samhliða aðstoð við uppbyggingu gæðakerfisins stendur námskeið til boða þar sem kennt verður á gæðakerfið og fjallað um daglega notkun þess. Ennfremur verður fjallað um hugmyndafræði og þýðingu gæðastjórnunar með tilliti til krafna um gæðastjórnun í Mannvirkjalögum.

Aðgangsstýring og örugg afritunartaka

Sérhver notandi fær aðgangsorð til að komast inn í eigið gæðakerfi. Þar með öðlast viðkomandi aðgang að ótal dæmum um verklagsreglur og eyðublöð sem hann getur gert að sínum og vistað í eigin gæðakerfi. Þannig geta viðkomandi fyrirtæki vistað skrár og skjöl sem tilheyra tilteknu verki eins og krafist er í nýjum Mannvirkjalögum. Gæðakerfin og gögn, sem þeim fylgja, eru vistuð hjá Þekkingu – Tristan hf. sem tryggir reglubundna afritun af öllum gögnum.

Kröfur í mannvirkjalögum

Markmiðið með þessu framtaki SI er m.a. að auðvelda félagsmönnum að bregðast við kröfum um gæðastjórnun og gæðakerfi í nýjum Mannvirkjalögum. Opinberir verkkaupar hafa um árabil gert sambærilegar kröfur til verktaka og sú þróun byggist að miklu leyti á þeirri reynslu sem Samtökin hafa öðlast í gegnum árin við að aðstoða félagsmenn á þeim vettvangi. Það gerir fyrirtækjum í óskyldum rekstri ennfremur kleift að nýta sér þessa þjónustu til fulls.

Námskeið heima á skrifstofu

Nýrri áskrift að kerfinu fylgir aðgangur að námskeiði með nýju sniði. Þátttakendur sitja fyrir framan eigin tölvu þar sem þeir eru í netsambandi og fylgjast með fyrirlestrum, fá leiðbeiningar og vinna að eigin gæðakerfi undir stjórn verkefnisstjóra SI.

Verði stillt í hóf

Samtökin hafa lagt sig fram við að leita bestu kjara við hýsingu og þjónustu á nauðsynlegum hugbúnaði. Félagsmenn SI, sem gerast áskrifendur að gæðakerfinu, greiða vægt stofngjald þar sem námskeið og námskeiðsgögn eru innifalin en eftir það greiða þeir eingöngu fast mánaðargjald fyrir notkun gæðahandbókar og vistun gagna. Öll ráðgjöf, þjónusta og aðstoð umfram það, sem er innifalið í stofngjaldinu, er einnig innifalin í mánaðargjaldinu.

Fyrsta skrefið

Þeir sem óska eftir frekari kynningu eða vilja gerast áskrifendur að kerfinu hafi samband í gegnum netfangið mottaka@si.is.

Hljóðglærur, tölvukennsla og handbækur.

Hljóðglærur um framleiðslu- og byggingarstjórnun

19. Hljóglærur um framleiðni.

Þegar góðæri ríkir á vinnumarkaði er hætt við að áhersla stjórnenda sé um of lögð á að auka veltu og umsvif í stað þess að auka aðhald, aga og skipulag.   Hér eru þrjár vandaðar hljóðglærur sem ætlað er að vekja stjórnedur til umhugsunar, fá þá til að staldra við og íhuga hvort ekki megi bæta rekstur og stjórnun, nýta betur það sem er, í stað þess að horfa eingöngu á þann möguleika að auka umsvif.
- Sagan um verktakann sem gleymdi að skrifa reikninginn
Hvað kostar sluks og slök stjórnun
- Hvað kostar eftirvinnan

18.  Lögbundin samskipti og samningar eiganda mannvirkis, byggingarstjóra, verktaka og iðnmeistara

Þessi hljóðglæra fjallar um lögbundin samskipti og samninga sem eiganda mannvirkis, byggingarstjóra og iðnmeistara ber að viðhafa og gera samkvæmt Lögum um mannvirki. Auk þess er fjallað um æskileg samskipti og samninga verktaka við sömu aðila.

17.  Hvernig fullnægir GSI kröfum byggingareglugerðar

Þessari hljóðglæru er ætlað að sýna hvernig GSI (gæðakerfi Samtaka iðnaðarins) mætir þeim kröfum sem gerðar eru til iðnmeistara, byggingarstjóra og hönnuða.

16. Breytingar, aukaverk, viðbótarverk og frábrigði

Mikilvægt er að allir sem koma að verklegum framkvæmdum leggi sama skilning í mikilvæg hugtök sem varða samskipi og uppgjör milli verkkaup, verktaka og undirverktaka. 

Með  þessari hljóðglæru er reynt að útskýra hugtökin breytingar, aukaverk, viðbótarverk og frábrigði eins og þau eru skilgreind í IST-30 og gæðakerfi Samtaka iðnaðarins.

15. Hvað er gæðastjórnun?

Á  þessari hljóðglæru er reynt að útskýra með einföldum hætti helstu hugtök gæðastjórnunar við verklegar framkvæmdir. Fjallað er um hugtökin gæðastjórnun, gæðastjórnunarkerfi, gæðatrygging, gæðastýring og stjórnunarlegir verkferlar frá sjónarhorni verktakans.

14. Sagan um verktakann sem gleymdi að skrifa reikninginn!

Í  þessari hljóðglæru er fjallað um hvaða fjárhagslegar afleiðingar það hefur það að gleyma að rukka fyrir unnin tíma og notkun á hráefni, hvort heldur það er hluti af tilteknu verki eða vegna aukaverka og breytinga? Er það hugsanlega meira en þú hefur gert þér grein fyrir eða viljað viðurkenna!

13. Gerð hættumats, áhættugreiningar og öryggis- og heilbrigðisáætlunar  (1)  (2)

Í  hljóðglæru T01-1 er fjallað um verklagsreglu um gerð hættumats, áhættugreiningar og gerð öryggis- og heilbrigðisáætlunar. Í verklagsreglunni er lýst hvað þarf að gera til að framkvæma slíkt mat.

Í  hljóðglæru T01-2 er hinsvegar sýnt dæmi frá tilteknu verki þar sem hættumat og áhættugreining hefur verið framkvæmd.

12. Saga gæðastjórnunar við mannvirkjagerð á Íslandi

Í  þessari hljóðglæru er farið á léttum nótum yfir sögu gæðastjórnunar við mannvirkjagerð á Íslandi. Það er auðsjáanlegt að margir hafa á þessum árum haft trú á aðferðafræði gæðastjórnunar og talið að hún ætti brýnt erindi sem verkfæri við byggingu og rekstur mannvirkja.

Þessir aðilar hafa líklega ekki haft erindi sem erfiði með málflutningi sínum og framlagi til málstaðarins þar sem árangurinn hefur sannarlega látið á sér standa.

11. Skipurit og starfslýsingar

Þessi hljóðglæra fjallar um gerð og notkun skipurita og starfslýsinga í fyrirtækjum sem starfa í mannvirkjagerð. Skipurit og starfslýsingar er grunnstoðir góðrar stjórnunar.

10. Gæðastýring við verklegar framkvæmdir  (1)  (2)  (3)

Hér eru þrjár hljóðglærur sem fjalla um “eigið innra eftirlit“ sem er ein megin krafan varðandi ákvæði um gæðastjórnun nýrri byggingarreglugerð. Frá og með næstu áramótum eiga iðnmeistarar, byggingarstjóri og hönnuðir að hafa komið sé upp slíku eftirliti. Í hljóðglærunum er hugtakið gæðastýring og gæðastýringaráætlun notað í stað hugtaksins eigið innra eftirlit.

Í  hljóðglæru H03-3 er sýnt hvernig staðið er að rýni hönnunargagna, hvernig gátlistar eru notaðir við innra eftirlit og gerð gæðastýringaráætlunar. 

Kynningin er byggð á raunverulegum forsendum.

9. CE merkingar á byggingarvörum

Útskýring á tilgangi CE merkinga á byggingarvörum út frá hagsmunum eiganda mannvirkis, iðnmeistara  og verktaka. Sýnd dæmi um samræmis- og eiginleikalýsingu framleiðanda sem skapar forsendur fyrir þessa aðila að standa undir ábyrgð við val á byggingarvörum. 

8. Gæðahandbók fyrirtækis byggð á gæðakerfi Samtaka iðnaðarins

Kynning á gæðakerfi sem Samtök iðnaðarins hafa útbúið til aðstoðar við félagsmenn sína til að byggja upp eigin gæðahandbók. Sýnt er hvernig félagsmenn geta notið aðstoðar SI við uppbyggingu á eigin gæðahandbók og skráarvistun ínn í kerfinum. Kerfið uppfyllir þarfir allra hvort sem þeir ætla að fullnægja kröfum mannvirkjalaga, opinberra verkkaupa eða staðalsins ISO 9001:2008

7. Skjala- og skráarvistun

Hljóðglæran er leiðbeining um skjala- og skráarvistun sem er ein forsenda ábyrgs rekstrar enda sett í lög, kröfur um slíkt hvað varðar iðnmeistara, hönnuði og byggingarstjóra í nýjum lögum um mannvirki. Helstu hugtök eru útskýrð og sýnt dæmi um skjala- og skráarvistun í gæðakerfi SI.

6. Hlutverk og ábyrgð eiganda og byggingarstjóra samkvæmt lögum um mannvirki

Lýsing á hlutverki byggingarstjóra ásamt ábyrgð eiganda mannvirkis samkvæmt nýjum lögum um mannvirki. Dæmi um samninga byggingastjóra og eiganda ásamt samningum milli byggingastjóra og iðnmeistara. 

Leiðbeiningar og handbækur

5. Svona má byrja að byggja upp gæðastjórnun

Innleiðing nýrra aðferða við rekstur og stjórnun geta bæði verið tímakerfjandi og kostnaðarsamar. Það getur farið illa ef skynsemi og tengsl við núverandi rekstur og framleiðslustjórnun eru ekki til staðar. Ef haft er að markmiði að nýjar aðferðir eigi að bæta framleiðsluna og auka hagræðingu verður ekki skotið langt yfir markið.

Hér eru ágætar leiðbeiningar um hvað er vert að hafa í huga þegar fyrirtæki leggja í þá vegferð að tileinka sér aðferðafræði gæðastjórnunar.

4. Sjálfsmat og kennslubók um stjórnun og rekstur

Bækurnar „Hvar stöndum við?“ og „ Hvernig gera má betur“ eru til leiðbeininga fyrir þá sem hyggjast nýta sér  áfangavottun SI.

Báðum bókunum er skipt niður í fjóra kafla út frá áfangavottunum SI,  D-C-B og A. Bókin „Hvar stöndum við?“ er ætluð til að lesandinn geti borið saman kröfurnar á sérhverju vottunarstigi saman við eigin aðferðir við rekstur og stjórnun. Bókin „Hvernig gera má betur!“ er hinsvegar til leiðbeininga um ásættanleg og viðurkennd vinnubrögð við stjórnun og rekstur. 

Til þess að komast inn á svæðið þarf notendanafn og lykilorð sem má nálgast með því að senda tölvupóst á mottaka@si.is.

3. ELMERI og TR mælirinn.

TR mælirinn er einföld aðferðafræði og vinnulag til að fylgjast með öryggismálum við tímabundna mannvirkjagerð og ELMERI er sambærileg vinnulag til að fylgjast með öryggismálum á staðbundnum vinnustöðum.

 

Tölvukennsla og leiðbeiningar

3. Tölvukennsla

Stuttar hljóðglærur með leiðbeiningum í word og excel. 

Þessi hluti er eingöngu ætlaður félagsmönnum Samtaka iðnaðarins. Til þess að komast inn á svæðið þarf notendanafn og lykilorð sem má nálgast með því að senda tölvupóst á  ferdinand@si.is. Inni á síðunni er skráningarform fyrir þá sem vilja koma áleiðis óskum um fleiri leiðbeiningar.

1. Kostnaðarlíkanið TAXTI

Upplýsingar og ítarlegar leiðbeiningar um forritið TAXTI III sem er notað til að reikna útselda vinnu á starfsmönnum og vélum sem byggir á eigin kostnaði.

TAXTI er einfalt en öflugt kostnaðarlíkan sem félagsmenn geta fengið frítt með því að hafa samband í netfangið mottaka@si.is  en aðrir keypt hjá  IÐNÚ.

Greinar

Greinasafn um gæðastjórnun

Nr. Nafn greinar Höfundur
 27  CE merkingar og ábyrgð iðnmeistara  Ferdinand Hansen
26 CE merkingar á byggingarvörum ber að taka alvarlega Ferdinand Hansen
25 Erindi flutt á Steinsteypudeginum 2015 Ferdinand Hansen
24 Hefur ekkert breyst  í öll þessi ár?
Erindi á Byggingarmálaráðstefnu 1944
Þorlákur Ófeigsson  (þess virði að lesa)
23 Fúsk eða fagleg stjórnun Ferdinand Hansen
22 Rafrænt verkbókhald Ferdinand Hansen
21

Hver er hvað og hvur er hvers?

Ferdinand Hansen
20 Ábyrgð eiganda og byggingarstjóra, nýbygginga Ferdinand Hansen
19 Hlutverk og ábyrgð byggingarstjóra samkvæmt nýjum mannvirkjalögum! Ferdinand Hansen
18

Er byggingastjóratrygginging byggð á misskilningi?

Ferdinand Hansen
17 Átt þú hús eða ertu að byggja? Ferdinand Hansen
16 Samspil áætlana við mannvirkjagerð Ferdinand Hansen
15 Sjö skrefa samskiptastjórnun við mannvirkjagerð Ferdinand Hansen
14 Gæðastjórnun, eðli hennar og tilgangur Brynhildur Bergþórsdóttir
13 Nýjungar í beitingu ISO 9000:2000 staðlanna. Juhani Anttila
12 Af hverju ég en ekki þú? Ferdinand Hansen
11 Handverk og stjórnun. Ferdinand Hansen
10 Góð meðhöndlun kvartana er vopn í samkeppninni. Jón Freyr Jóhannsson
9 CE- merking byggingavara Eyjólfur Bjarnason og Ferdinand Hansen
8 Gæðastjórar hæddir og hunsaðir! Ferdinand Hansen
7 Er ráðning gæðastjóra rétta lausnin? Ferdinand Hansen
6 Gæðastjórnun og ÍST-30 Ferdinand Hansen
5 Gæðastjórnun - Öryggismál Ferdinand Hansen
4 Hver er gæðatrygging þín Ferdinand Hansen
3 Er gæðastýringu verktaka ábótavant Ferdinand Hansen
2 Hallæris góðæri Ferdinand Hansen
1 Hvað er gæðastjórnun? Ferdinand Hansen

Lokaritgerðir um gæðastjórnun

Nr. Nafn ritgerðar Höfundur
 8

Samanburður á framleiðni við mannvirkjagerð á Íslandi og Noregi.

Lokaverkefni til MS -gráðu í hagfræði
Glærur frá kynningu á ritgerðinni í Þjóðarspeglinum. 

 

Ævar Rafn Hafþórsson

7 Umhverfisstjórnunarkerfi.
60 eininga ritgerð sem er hluti af Magister Scientiarum gráðu í Iðnaðarverkfræði
 Áslaug Dagbjört Benónýsdóttir
6 Er samstarf lykill að árangri?
Lokaverkefni til M.Sc. gráðu í Stjórnun og stefnumótun
Guðrún Ingvarsdóttir
5

BIM (Building Information Modeling) á Íslandi. 
Lokaverkefni til B.Sc. gráðu í Viðskiptafræði. 

Benedikt E. Pálsson
4

Gæðastjórnun - fjárhagslegur ávinningur?
Lokaverkefni til B.Sc. gráðu í Viðskiptafræði. 

Laufey Sigurðardóttir
3

Áhrif gæðastjórnunar á mannvirkjagerð.
60 eininga ritgerð sem hluti af Magister Scientiarium gráðu í iðnaðarverkfræði. 

Anna Hulda Ólafsdóttir
2

Gæðastjórnun verktaka í mannvirkjagerð á Íslandi.
Lokaverkefni til M.A. gráðu í hagnýtum hagvísindum

Guðjóna Björk Sigurðardóttir
1

Verkefnastjórnun í byggingariðnaði.
Lokaverkefni til B.Sc. gráðu í Viðskiptafræði.

Garðar Örn Þorvarðarson


Kröfur verkkaupa

Dæmi um kröfur verkkaupa um gæðastjórnun við verklegar framkvæmdir

(1.) Markmiðið með kröfu um gæðakerfi er að allar aðgerðir séu kerfisbundnar, skjalfestar og auðraktar. Nokkrar grunndvallarkröfur, sem gerðar eru til gæðakerfa koma fram í eftirfarandi lýsingu.

Dæmi um kröfur um gæðastjórnun við verklegar framkvæmdir

(2.) Til að tryggja að gæði verksins séu í samræmi við kröfur verklýsingar skal verktaki útbúa sérstaka verkmöppu fyrir verkið með skipuriti, verklagsreglum, gátlistum og eyðublöðum sem varða verkið ásamt upplýsingum um alla þá þætti sem prófa skal, hvernig prófanir fara fram, hver innir þær af hendi og hvenær (verkmappa er samantekt á viðeigandi skjölum úr gæðahandbók verktakans).

(3.) Allar niðurstöður prófana skulu færðar í verkmöppuna eða sérstaka gæðaskrá sem tilgreind er í verklagsreglu varðandi vörslu skjala og skráa.

Hér er átt við prófanir og eftirlit á verkstað jafnt sem rannsóknastofu.

(4.) Verktaki getur lagt fram gæðahandbók sína til kynningar með tilskildum gögnum áður en samningur er undirritaður og ef þess er óskað.

Verktaki skal útbúa verkmöppu samkvæmt þessum gögnum og í samráði við verkkaupa eftir að samningur er undirritaður.

(5.) Verktaki skal gera a.m.k. allar þær prófanir sem tilgreindar eru í verklýsingum og annast nauðsynlegt eftirlit þeim tengt. Þá skal hann vinna verkið í samræmi við niðurstöður prófana þar sem þeirra er krafist og einnig skal hann styðjast við þær til að gera leiðréttingar í framkvæmd sinni við verkið, gerist þess þörf.

(6.) Verktaki skal framvísa fullgildum uppruna- og gæðavottorðum með öllu efni sem hann hyggst nota og staðfesta gæði þess með rannsóknaniðurstöðum eftir því sem krafist er í verklýsingum og eða byggingarreglugerð. skulu Þessi gögn skulu vera hluti af gæðaskrám (verkskrám) verksins.

(7.) Eftirlitsmaður verkkaupa skal hafa aðgang að verkmöppu og gæðaskrám og getur hvenær sem er óskað eftir afritum en verktaki skal afhenda honum niðurstöður allra mælinga, skráninga og prófana úr innra eftirliti í samræmi við samningsgögn.

(8.) Verkkaupi tryggir að eftirlitsmaður kynni sér vel innihald verkmöppu og að hann byggi samstarf sitt við verktaka á verklagsreglum verktakans sem hafa hlotið samþykki verkkaupa.

Verktaki fær eintak af starfslýsingu eftirlitmanns.

Verktaki fær ekki sérstaka greiðslu fyrir umræddar prófanir eða fyrir gerð verkmöppu, sem verður eign verkkaupa í verklok en allur kostnaður sem af þessu hlýst skal vera innifalinn í einingaverði verksins.

(9.) Gæðakerfi – innra eftirlit verktaka
Verkkaupi gerir þá kröfu til verktaka og undirverktaka/efnissala að þeir komi sér upp og sinni innra eftirliti.
Gæðakerfi verktaka þarf að tryggja að kröfum verklýsingar sé framfylgt.

Eftirfarandi lýsing á gæðakerfinu tekur til nokkurra grundvallarkrafna sem gerðar eru til kerfisins.

Verktaki og undirverktaki/efnissali skulu laga innra eftirlitskerfi sitt að kröfum útboðsgagna.

(10.)Grundvallaratriði gæðakerfis

Gæðakerfi verktaka skal taka a.m.k. til eftirtalinna atriða:

  1. skjalfestra verklagsreglna
  2. skýrrar ábyrgðarskiptingar stjórnenda
  3. skráningu niðurstaðna, prófana og innra eftirlits
  4. stýringu frábrigða og úrbóta

Númer við eftirfarandi texta er tilvísun í væntanleg námsgögn byggð á gæðahandbókum Samtaka iðnaðarins sem eru einungis dæmi.

(11.)Yfirlit gæðakerfis

Verktaki sem og undirverktaki/efnissali skulu leggja fram eftirtalin gögn.:

A. Lýsing á innra stjórnkerfi verktaka

sjá sýnishorn nr.  1-S03-0103 /  1-L03-0101 og fl.

Skilgreina skal hlutverk og ábyrgð einstakra stjórnenda verksins. Þetta er gert með skipuriti og formlegum starfslýsingum. Verkkaupi þarf að geta haft aðgang að vottorðum sem staðfesta faglega þekkingu, reynslu og menntun starfsmanna verksins.

B. Lýsing á framkvæmd verkþátta

sjá sýninshorn nr.  3-L13-0605 /  3-S13-0602

Verktaki skal skila inn tíma og mannaflaáætlun ásamt lýsingu á framkvæmd verkþátta og framleiðslu efnis til samþykktar verkkaupa.

C. Uppruna- og gæðavottorð
Verktaki skal framvísa fullgildum uppruna- og gæðavottorðum með öllu efni sem hann hyggst nota til samþykktar verkkaupa sé þess krafist.
Vottorðin skulu sýna fram á að varan fullnægi kröfum í útboðsgögnum og/eða kröfum í byggingarreglugerð.

D. Eftirlitsáætlun

sjá sýnishorn nr.  3-L15-0802 /  3-S15-0802

Verktaki þarf að gera áætlun þar sem tilgreind eru öll atriði sem falla undir innra eftirlit. Eftirlitsáætlunin er byggð á kröfum samningsgagna og hefðbundnu verklagi verktaka.
Verktaki skal gera sérstaka öryggis- og heilbrigðisáælun ( 5-G18-0102) byggða á kröfum í
IV. Viðauka ( 5-K18-0102) við,,Reglur um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarstöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð”. ( 3-K12-0508)

E. Nauðsynlegt er að skilgreina verklagsreglur fyrir a.m.k. eftirtalin atriði:

sjá sýnishorn nr.

· stýringu skjala og skráa þ.e. skjöl verktaka s.s. verklagsreglur fyrir einstaka verkþætti, úttektarblöð, vinnulýsingar, skýrslur, rannsóknir, mælingar o.s.frv.

3-L15-0800

· póst inn og póst út, þ.e. bréf, minnisblöð og símbréf

1-L05-0301

· móttöku, dreifingu og vistun nýrra teikninga og verklýsinga

3-L14-0701

· móttöku efna á vinnusvæði

4-L16-0402

· dagbókarhald

3-L13-0603

· meðhöndlun frábrigða/galla

3-L15-0803

· meðhöndlun breytinga á verkþáttum

6-L19-0201

· meðhöndlun aukaverka

6-L19-0202

· athugasemdir og ábendingar daglegs eftirlits

3-L13-0604

· uppgjör og meðhöndlun reikninga og nýrra greiðsluliða

1-L04-0202

· innra eftirlit með einstökum verkþáttum

3-L15-0802

· verkefnis- og verkþáttarýni

3-L11-0101

· öryggis- og heilbrigðisáætlun

5-L18-0101

F. Úttektarblöð, eyðublöð og gátlistar
Hér er átt við undirgögn fyrir verklagsreglur sem notuð eru við stýringu verkefnisins. Þessi blöð skulu hafa beina tilvísun til samningsgerðar og byggð á eftirlitsáætluninni svo að ljóst megi vera að gæðakröfum verksins sé fullnægt.

Nota skal a.m.k. eftirtalin gögn:

sjá sýnishorn nr.

· dagskýrsluform

3-S13-0603

· eyðublað fyrir skráningu, meðhöndlun úrbóta á frábrigðum og göllum

3-S15-0803

· eyðublað fyrir skráningu á viðbótarverkum

6-S19-0201

· eyðublað fyrir skráningu á aukaverkum

6-S19-0204

· magntölublað – safnblöð

6-S19-0207

· eyðublað fyrir athugasemdir, ábendingar daglegs eftirlits

3-S13-0604

· úttektarblöð fyrir innra eftirlit með verkþáttum samkvæmt eftirlitsáætlun

6-Y21-0000

· úttektarblöð fyrir allar prófanir, mælingar og úrvinnslu, tilgreindar í útboðsgögnum

 

· úttektarblöð fyrir eftirfylgni á öryggis- og heilbrigðisáætlun

5-G18-0102

Ábyrgð aðila

Ábyrgð aðila í öryggismálum við verklegar framkvæmdir

Ábyrgðir aðila í öryggismálum við verklegar framkvæmdir

Samkvæmt ,,Reglum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð” skal skipa samræmingaraðila öryggismála og gera öryggis- og heilbrigðisáætlun. Í þeim tilfellum þegar verkkaupi framselur ábyrgð sína til aðalverktaka í þessum efnum hefur ábyrgð þeirra sem hlut eiga að máli verið skilgreind eftirfarandi.

Ábyrgð verkaupa felst í að:

  1. tryggt sé að skipaðir séu samræmingaraðilar á undirbúnings- og framkvæmdarstigi
  2. vera sjálfir eða fela öðrum, t.d. aðalverktaka eða byggingarstjóra að vera samræmingaraðili og gera öryggis og heilbrigðisáætlun, á undirbúnings- og framkvæmdarstigi
  3. leggja mat á hvort áætlun frá samræmingaraðila á framkvæmdarstigi sé í samræmi (fullnægi kröfum) við ráðgjöf samræmingaraðila á undirbúningsstigi
  4. tryggja að Vinnueftirlitinu sé tilkynnt um framkvæmdir
  5. tryggja eftirlit með því að öryggis- og heilbrigðisáætluninni sé framfylgt
  6. skilgreina og kynna hlutverk umsjónarmanns verkkaupa (sjá skilgreiningu IST-30, 17.5.1) (í reglum vinnueftirlitsins nefnist sami aðili verkefnisstjóri)
  7. bregðast við ábendingum umsjónarmanns sé ekki farið eftir áætluninni eða hún ekki fullnægjandi  

Ábyrgð samræmingaraðila felst í að:

  1. gera öryggis- og heilbrigðisáætlun
  2. framfylgja áætluninni
  3. bæta við áætlunina, samhliða framgangi verksins  

Ábyrgð umsjónarmanns verkkaupa felst í að: (sjá skilgreiningu IST-30, 17.5.1)

  1. staðfesta að áætluninni sé framfylgt
  2. benda samræmingaraðilanum á ef áætluninni er ekki framfylgt
  3. aðvara verkkaupa ef ábendingar til samræmingaraðila eru hunsaðar  

Ábyrgð aðal- og undirverktaka felst í að:

  1. taka þátt í að gera öryggis- og heilbrigðisáætlun
  2. kynna öllum starfsmönnum áætlunina
  3. framfylgja áætluninni
  4. leggja til starfsmenn til að gera reglubundna úttekt