Hvað er í boði?

Lögfræðileg ráðgjöf og aðstoð

Samtök iðnaðarins veita félagsmönnum ráðgjöf og aðstoð í lögfræðilegum efnum. Hún getur snert iðnlöggjöf, vinnurétt, fyrirtækjalöggjöf, samkeppnislög, útboðslög, ábyrgðarmál og verksamninga. Í lögfræðilegri ráðgjöf felst að fyrirtækið getur leitað til lögfræðings SI um leið og áhyggjur kvikna. Þar er vandamálið greint og leyst ef unnt er, en að öðrum kosti gefin góð ráð um næstu skref, t.d. kærur fyrir stjórnsýslunefndum eða málsókn fyrir dómstólum.

Viðfangsefnin eru margbreytileg og varða jafnt löggiltar iðngreinar sem verksmiðjurekstur. Áralöng reynsla SI sýnir að fyrirtæki geta komist hjá verulegum skakkaföllum með því að kanna réttarstöðu sína í tíma. SI leggur áherslu á að fylgjast með löggjafarþróun bæði innanlands og á alþjóðlegum vettvangi og miðla upplýsingum til félagsmanna sinna.

Á sviði þekkingariðnaðar er þróunin einkar hröð og SI fylgist grannt með þeirri þróun. SI talar máli íslensks þekkingariðnaðar og bendir á leiðir til að bæta lagaleg starfsskilyrði hans svo hann geti mætt alþjóðlegri samkeppni.

Fyrsta hjálp

Aðildarfyrirtæki SI geta leitað til lögfræðings samtakanna á skrifstofutíma. Erindið er þá ýmist afgreitt gegnum síma eða fundur er ákveðinn. Veitt er ráðgjöf og liðsinni í málafylgju gagnvart opinberum aðilum og einkaðilum, svo fremi málsástæður gefi tilefni til þess. Ráðgjöf um kjarasamninga og samskipti við launþega veita lögfræðingar SA samkvæmt verkaskiptingu SA og aðildarfélaga þess. Kjarasamningavefur SA.


Félagsmenn í málarekstri

Þegar tilefni er til þess að höfða dómsmál gegn lögaðilum, annaðhvort opinberum aðilum eða einkaaðilum, og málsefnið hefur sérstaka almenna þýðingu fyrir viðkomandi iðngrein eða á viðkomandi markaði, tekur stjórn SI ákvörðun um aðild SI að málarekstrinum eða fjárhagsstuðning við þann sem í málarekstrinum á.