Iðnlöggjöfin

Iðnaðarlögin hafa lítt eða ekki verið endurskoðuð frá árinu 1978. Enn er nokkuð um að SI berist kvartanir og ábendingar vegna brota á iðnlöggjöfinni ýmist þannig að réttindalausir sinni störfum sem iðnréttindi þarf til eða þannig að spurningar vakna um jaðartilvik, hvort tilteknir þættir í vinnu heyri undir iðnréttindaverndina eða ekki. Ljóst er að sífellt verður erfiðara að fylgja eftir refsivernd iðnlöggjafarinnar. Því ræður einfaldlega þróun lögfræðinnar og sífellt strangari kröfur sem gerðar eru til skýrleika brota og refsiheimilda. Breytingar á atvinnuháttum yfirleitt kalla líka á endurskoðun iðnlöggjafarinnar. Það gleymist oft í umræðu um iðnréttindin hversu mikilvægu hlutverki þau gegna sem stjórnfesta í menntamálum iðnaðarins. Endurskoðun námsskráa skilar sér í nýjum skilgreiningum til hvers konar verka menntaðir iðnaðarmenn njóta lögverndar.

Ef iðnlöggjöfin missir taktinn við tímann kemur það á endanum einnig niður á iðnmenntun í landinu, því að það grefur undan trausti á menntunina ef réttindin standa ekki undir þeim væntingum um réttarvernd sem nemendur og aðrir hafa. Í öllum Evrópuríkjum hafa starfsréttindi, þ.m.t. réttindakerfi sambærileg íslensku iðnréttindunum gengið gegnum endurskoðun á liðnum árum.

Iðnaðarlögin