Viðburðir
15.03.2018 kl. 17:15 Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhúsinu

HönnunarMars - endurunnið ál

Sýningin #ENDURVINNUMÁLIÐ verður hleypt af stokkunum fimmtudaginn 15. mars kl. 17.15 á opnun afmælishátíðar HönnunarMars í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi. Efnt var til söfnunarátaks á áli í sprittkertum yfir hátíðarnar til þess að efla vitund almennings um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu á því áli sem til fellur á heimilum. Hönnuðirnir Studio Portland, Ingibjörg Hanna, Olga Ósk Ellertsdóttir og Sigga Heimis hafa brugðið á leik í samstarfi við Málmsteypuna Hellu og unnið nytjahluti fyrir íslenskan veruleika þar sem innblástur er sóttur í daglegt líf. 

Málmsteypan Hella hefur frá upphafi endurunnið ál í sinni framleiðslu og hafa hönnuðirnir einbeitt sér að framleiðslumöguleikum þeirra. Álið er kjörið fyrir íslenskar aðstæður og það er hráefni sem við tengjum við, enda samofið íslensku atvinnulífi um árabil. Íslendingar hafa þurft að nýta hráefni úr heimabyggð frá örófi alda og eru ráðagóðir þegar á reynir. Það er því spennandi að sjá hvað verður til á skömmum tíma þegar hönnuðir takast á við þetta spennandi hráefni – sem er þeim kosti gætt að það má endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upphaflegum eiginleikum.

Svo vel tókst til með endurvinnsluátak áls í sprittkertum að ákveðið var að halda söfnun þess áfram og er það nú orðið varanlegur kostur í endurvinnsluflóru landsmanna. 

Samtök iðnaðarins eru meðal þeirra sem standa að átakinu ásamt Alur álvinnsla, Endurvinnslan, Fura, Gámaþjónustan, Grænir skátar, Hringrás endurvinnsla, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samál og Sorpa.