Að velja rétt og virkja færni í baráttunni við brotthvarf

13. mar. 2018

Umræðan um mikið brotthvarf í framhaldsskólum er ekki ný af nálinni og er illu heilli að verða gamalkunnugt stef í umræðunni um íslenska framhaldsskólastigið.

Umræðan um mikið brotthvarf í framhaldsskólum er ekki ný af nálinni og er illu heilli að verða gamalkunnugt stef í umræðunni um íslenska framhaldsskólastigið. Ætla má að brotthvarf í íslensku skólakerfi sé tæp 20% í samanburði við rúm 10% ef miðað er við meðaltal í löndum Evrópusambandsins. Finnar eru þeir nágrannar okkar sem hafa náð hvað bestum árangri í að draga úr brotthvarfi, en í Finnlandi er brotthvarfsprósentan 7-8%. Í umfjöllun um góðan árangur Finna á grunnskólastigi er áhugavert að skoða þá áherslu sem þeir leggja á að mæta hratt og örugglega öllum einstaklingum sem skilgreindir eru með einhverskonar námserfiðleika eða þörf fyrir aukna aðstoð. Hjá Finnum er þessi hópur talinn vera allt að 30% af nemendafjölda. 

Andleg líðan nemenda hefur mikið verið rædd í þessu sambandi og áhersla á aukna sálfræðiþjónustu í íslenskum framhaldsskólum hlýtur vissulega að vera afar brýnt verkefni. En fleira þarf til. Ástæður brotthvarfs eru fjölmargar og öll umræða um töfralausnir er varhugaverð. Það er hins vegar áhugavert að skoða þróun brotthvarfs með hliðsjón af þeim miklu breytingum sem eru óumflýjanlegar til að mæta þörfum atvinnulífs sem byggist í meira mæli á stafrænu hagkerfi. 

Að mati Samtaka iðnaðarins er tvennt sem gæti skipt sköpum þegar kemur að baráttunni við brotthvarf. Í fyrsta lagi þarf markvissa vinnu og kynningarstarf með grunnskólanemendum áður en þeir velja sér nám að loknum grunnskóla. Með aukinni kynningu og opinni umræðu um þau ólíku tækifæri sem bjóðast t.a.m. með iðn- og starfsmenntun má ætla að fleiri nemendur velji sér námsleið og skóla sem eru líklegri til að styðja við og virkja áhuga þeirra og hæfileika og draga þar með úr líkum á brotthvarfi. Alltof mörg dæmi eru um að nemendur velji sér nám til að þjóna vilja annarra í nærsamfélaginu eða í þeirri viðleitni að standa undir væntingum sem þeir telja að til þeirra séu gerðar. Slík dæmi sjást glöggt í fjölda þeirra nemenda sem innritast í bóknám en velja sér síðar á ferlinum iðnnám eða annað starfsnám. 

Í öðru lagi er mikilvægt að auka umræðu og áherslu á færni einstaklings og styrkleika fremur en undirbúning nemenda fyrir tiltekin störf. Rannsóknir og spár sýna að á næstu árum verður megináhersla á færni og þverfaglega þekkingu þar sem mestu máli skiptir aðlögunarhæfni, sköpun og rökræn, gagnrýnin og lausnamiðuð hugsun. Jafnvel hefur verið gengið svo langt að segja að starfstitlar verði aflagðir í þeirri mynd sem við þekkjum í dag. Það gæti reynst nemendum á framhaldsskólastigi auðveldara að finna sinn stað í íslensku menntakerfi ef áhersla í umræðunni og náminu sjálfu verður í auknum mæli á færni og styrkleika hvers einstaklings.

Við þurfum fordómalausa umræðu um mikilvægi þess að einstaklingar velji nám sem þeir telja eftirsóknarvert og fellur vel að styrkleikum þeirra og áhugasviði. Skilningur þeirra á því hvernig aukin færni getur nýst í verkefnum framtíðarinnar er grundvallaratriði þegar kemur að því að viðhalda áhuga, hvetja og stuðla að því að nemendur ljúki þeirri vegferð sem þeir leggja upp í þegar framhaldsskólanám hefst.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri reksturs mennta- og mannauðsmál SI

Morgunblaðið, 13. mars 2018.