Áræðni til breytinga?

28. jún. 2018

Á hverjum einasta degi keppa ólík fyrirtæki frá flestum löndum heims sín á milli um hylli viðskiptavina. 

Á hverjum einasta degi keppa ólík fyrirtæki frá flestum löndum heims sín á milli um hylli viðskiptavina. Sú umgjörð sem stjórnvöld búa atvinnulífi á hverjum stað fyrir sig ræður miklu um það hversu vel fyrirtækjum gengur í samkeppni á mörkuðum heimsins. Stöðugt, skilvirkt og hagkvæmt starfsumhverfi hér á landi getur leitt til meiri verðmætasköpunar innlendra fyrirtækja, bætt samkeppnishæfni og aukið þar með velmegun í landinu. Því miður er starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi ekki stöðugt, skilvirkt eða hagkvæmt í samanburði við önnur ríki. Nú eru blikur á lofti í íslensku efnahagslífi og því mikilvægt að stjórnvöld grípi til viðeigandi aðgerða til að tryggja að starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja sé samkeppnishæft og standist alþjóðlegan samanburð.

Með stöðugleika má auka bæði framleiðni og verðmætasköpun. Óstöðugleiki í íslensku hagkerfi stafar ekki síst af því að vinnumarkaður, opinber fjármál og peningastefna hafa ekki gengið í takt. Til lengri tíma litið verður að bæta þar úr og styrkja umgjörð þessara þátta á komandi mánuðum. Efnahagssveiflur hér hafa verið miklar og mun meiri en í flestum öðrum iðnvæddum ríkjum, með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.

Með því að ganga lengra en þörf krefur við innleiðingu EES reglugerða er dregið úr skilvirkni og samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja skert. Íslensk fyrirtæki eru þá jafnvel að starfa eftir strangari reglum en samkeppnisaðilar þeirra innan Evrópusambandsins. Tíðar breytingar í laga- og reglugerðarumhverfi hafa einnig áhrif á fjárfestingu og uppbyggingu efnahagslífsins.

Starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja er ekki hagkvæmt í alþjóðlegum samanburði. Hátt raungengi krónu og há laun í alþjóðlegum samanburði draga verulega úr mætti íslenskra fyrirtækja til að keppa við erlend fyrirtæki sem starfa þar sem laun og vextir eru lægri. Við þetta bætist síðan háir vextir og háir skattar. Hefur þetta ekki síst komið niður á starfsemi íslenskra framleiðslufyrirtækja en nokkur þeirra hafa að undanförnu brugðist við stöðunni með því að draga úr eða hætta sinni starfsemi hér á landi. Það hlýtur að vekja upp spurningar um hvort við séum á réttri leið.

Það starfsumhverfi sem stjórnvöld búa íslenskum fyrirtækjum er því óstöðugt, óskilvirkt og óhagkvæmt. Þetta dregur verulega úr samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja, minni verðmæti verða til en ella og lífskjör í landinu ekki eins góð og þau gætu verið. Stjórnvöld hafa það í hendi sér að gera starfsumhverfi innlendra fyrirtækja samkeppnishæft við önnur ríki. Nú þegar hægir á  efnahagslífinu þarf verulegar umbætur í starfsumhverfi fyrirtækja svo við drögumst ekki aftur úr í samkeppni þjóða. Bæta þarf skilvirkni, auka hagkvæmni og tryggja stöðugleika. Án efa er vilji til að gera betur en nú reynir á hvort áræðni sé fyrir hendi til að breyta hlutunum. Það blasir við að hefjast þarf handa strax. Samkeppnishæfni Íslands er í húfi.  

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Morgunblaðið, 28. júní 2018.