Hönnun er iðnaður sem skapar aukið virði

17. nóv. 2017

 

Hugvit verður drifkraftur framfara á 21. öldinni á Íslandi líkt og hagkvæm nýting á náttúruauðlindum var drifkraftur framfara á 20. öldinni. 

 

 

Hugvit verður drifkraftur framfara á 21. öldinni á Íslandi líkt og hagkvæm nýting á náttúruauðlindum var drifkraftur framfara á 20. öldinni. Hönnun er sannarlega hugvit og því mikilvægur þáttur í þeirri nýsköpun sem þarf að eiga sér stað í öllum fyrirtækjum hér á landi. Samtök iðnaðarins hafa sett það markmið að Ísland verði í fremstu röð í heiminum þegar kemur að nýsköpun. Fjórða iðnbyltingin er hafin og framundan eru tækniframfarir sem munu hafa mikil áhrif á íslenskt atvinnulíf. Til að auka samkeppnishæfni Íslands þarf verðmætasköpun okkar í meira mæli að byggjast á hugviti því hugvit og hagvöxtur haldast í hendur. 

Í hönnun geta falist einstök tækifæri til þess að skapa aukið virði. Danir hafa náð miklum árangri á þessu sviði með markvissri uppbyggingu til áratuga. Danir láta ekkert tækifæri framhjá sér fara við að koma danskri hönnun og dönskum vörum á framfæri. Þess er gætt að dönsk hönnun sé sýnileg sem víðast og má þar nefna opinberar byggingar, veitingastaði, verslanir og í kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum. Raunar hafa Danir náð svo góðum árangri að hér á landi er dönsk hönnun áberandi hjá hinu opinbera, í fyrirtækjum og á heimilum landsmanna. 

Danska hönnunarmiðstöðin var stofnuð 1978 og hefur lagt áherslu á að kynna hönnun og verðmæti hönnunar fyrir danskan iðnað. Að henni koma danskt atvinnulíf, hið opinbera og hönnuðir. Fyrsta hönnunarstefna þeirra hafði það að markmiði að auka vitund um hönnun í litlum og meðalstórum fyrirtækjum og meðal opinberra aðila. Við næstu stefnumótun var áherslan á það hvernig hönnun gæti aukið samkeppnisforskot fyrirtækja. Síðar færðist áherslan á það hvernig hönnun væri hreyfiafl í nýsköpun og þróun í fyrirtækjum og samfélaginu. Allt þetta miðar að því að festa hönnunariðnaðinn í sessi þannig að hönnun veiti fyrirtækjum og stofnunum samkeppnisforskot á alþjóðlegum vettvangi.

Íslendingar gætu tekið þá sér til fyrirmyndar og unnið markvissar að því að gera íslenska hönnun og framleiðslu sýnilegri. Það þarf bæði vilja og áræði til. Það þarf að skapa skýra stefnu svo allir helstu hagsmunaaðilar verði samstiga í þeirri vegferð að gera íslenskri hönnun og framleiðslu hátt undir höfði. Draga þarf fram sérstöðu íslenskrar hönnunar og framleiðslu til að byggja upp orðspor og ímynd. Það tekur tíma og því er mikilvægt að hefjast handa sem fyrst. Samtök iðnaðarins munu taka þátt í endurskoðun á íslenskri hönnunarstefnu en verkefnið hefur þegar verið sett af stað í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið og Hönnunarmiðstöð Íslands. Fjölmörg fyrirtæki á sviði hönnunar eru félagsmenn í Samtökum iðnaðarins sem og fyrirtæki sem gera hugmyndir hönnuða að veruleika líkt og í mannvirkjagerð, húsgagna- og innréttingasmíði, járnsmíði, innviðum, matvælaframleiðslu og hugbúnaðargerð svo dæmi séu tekin. Við erum heppin að eiga hér á landi góða hönnuði og fjöldann allan af fyrirtækjum sem sinna hönnun og framleiðslu hennar vel. Þess vegna eigum við að leyfa fleirum að njóta íslenskrar hönnunar og framleiðslu, hvort sem við horfum til útflutnings eða til þess fjölda ferðamanna sem leggja leið sína til landsins. Þótt náttúra landsins sé helsta aðdráttaraflið vilja ferðamenn einnig upplifa allt það sem íslenskt er og þar skiptir hönnun lykilmáli. 

Höfum í huga að af hverjum 100 krónum sem eytt er í hagkerfinu eyðir hið opinbera 45 krónum. Hið opinbera á að ganga á undan með góðu fordæmi og prýða opinberar byggingar með íslenskum húsgögnum og innréttingum, ekki síst þær byggingar sem ferðamenn og aðrir gestir leggja leið sína um. Nefna má Bessastaði í þessu sambandi. Ef mörkuð væri opinber stefna í innkaupum þar sem áherslan væri á íslenska hönnun og framleiðslu myndi það ýta enn frekar undir vöxt á þessum sviðum og byggja upp blómlegan iðnað, jafnt í hönnun sem í framleiðslu.

 

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

ViðskiptaMoggi, 16. nóvember 2017