Iðnnám er nám

18. des. 2017

Fyrsta mál sem Alþingi afgreiðir á þessu þingi hlýtur að vera breytingar á útlendingalöggjöfinni þannig að iðnnám sé talið nám. 

Fyrsta mál sem Alþingi afgreiðir á þessu þingi hlýtur að vera breytingar á útlendingalöggjöfinni þannig að iðnnám sé talið nám. Einhverra hluta vegna var iðnnám ekki nám í skilningi laganna og þess vegna stendur til að vísa iðnnema úr landi. Það skýtur skökku við á sama tíma og skortur er á iðnmenntuðu starfsfólki. Frumvarp um málið er komið fram á Alþingi en afgreiða þarf málið hið snarasta. Þetta mál er áminning um það að virðingu fyrir iðnnámi þarf að efla, ekki síður en námið sjálft. 

Þó að það virðist sem allir séu sammála um að mistök hafi átt sér stað þegar lagabreytingin fór í gegnum þingið án þess að nokkur þingmaður hafi greitt atkvæði gegn þessari breytingu er þetta birtingarmynd þess hvernig litið er á iðnnám meðal ráðamanna. Það þarf viðhorfsbreytingu í samfélaginu gagnvart iðnnámi og vel færi á því að sú viðhorfsbreyting hæfist hjá ráðherrum og þingmönnum. 

Fyrirheit í stjórnarsáttmála um eflingu iðnnáms eru lofsverð en meira þarf til. Orð nýs menntamálaráðherra um eflingu iðn- og verknáms og þau áform að efnt verði til meira samstarfs við atvinnulífið þar sem mikill skortur er á ákveðinni menntun lofa góðu. Vekur það von um að raunverulegra breytinga sé að vænta. Það er þarft enda verður alltaf þörf fyrir iðnmenntað fólk þrátt fyrir tækniframfarir og breytingar í samfélaginu. Í því sambandi má nefna að maðurinn hefur unnið með málm og tré í þúsundir ára, gerir enn og mun áfram gera. 

Það voru gefin góð fyrirheit um að þessu yrði kippt í liðinn um leið og þingið kæmi saman. Nú er ekkert að vanbúnaði að breyta lögunum hið snarasta og standa við þau orð sem sögð voru. Það gengur ekki að nám í skilningi laganna sé eingöngu nám á háskólastigi. Auka þarf veg og virðingu iðnnáms og þessi breyting er liður í því.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið, 16. desember 2017.