Jólakveðja til félagsmanna

21. des. 2017

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, skrifar jólakveðju til félagsmanna Samtaka iðnaðarins.

Kæru félagar!

Þegar fer að halla undir lok árs vill hugurinn hvarfla til baka yfir farinn veg. Það er margs að minnast og á stóru heimili eins og hjá Samtökum iðnaðarins er í mörg horn að líta.  Árið 2017 hefur verið mikið umbreytingaár hjá samtökunum. Breytingar hafa verið gerðar til þess að efla samtökin, auka sýnileika, veita félagsmönnum enn betri þjónustu og gera þau að því hreyfiafli sem stærstu og öflugustu samtök atvinnurekenda á Íslandi eiga sannarlega að vera. Þessum markmiðum vinnum við að á hverjum degi og höfum þegar náð árangri. Nýir liðsmenn bættust í hóp öflugra starfsmanna samtakanna og vænti ég þess að þau muni setja sitt mark á Samtök iðnaðarins rétt eins og allir gera sem leggja á sig vinnu fyrir samtökin. Á árinu kvöddum við marga góða samstarfsfélaga og þökkum við þeim af heilum hug framlag þeirra til íslensks iðnaðar.

Starf SI hefur verið öflugt á árinu. Síðasta Iðnþing tókst með miklum ágætum þar sem við hófum umræðu um stöðu innviða á Íslandi sem við síðan fylgdum eftir með útgáfu skýrslu í október. Skýrslan varð gott innlegg í umræðuna í aðdraganda Alþingiskosninga. Í október var Tækni- og hugverkaþing SI haldið þar sem mörg áhugaverð erindi voru flutt, fulltrúar stjórnmálaflokkanna mættu og aðsókn fór fram úr björtustu vonum. Það sama átti við um fyrsta Framleiðsluþing SI sem haldið var fyrr í þessum mánuði. Þá stóðum við fyrir fundi fyrir kosningarnar þar sem fulltrúar stjórnmálaflokka sátu fyrir svörum.

Það er óhætt að segja að okkar öfluga starf á árinu hafi orðið til þess að mörg málefni sem við vildum vekja athygli á fengu verðskuldað umtal stjórnmálamanna sem og annarra í samfélaginu. Við erum einnig ánægð með að mörg áhersluatriði okkar rötuðu inn í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, ekki síst þau málefni sem varða samkeppnishæfni Íslands eins og uppbygging innviða, sókn í menntamálum og rík áhersla nýrrar ríkisstjórnar á nýsköpun. Af einstökum málum er ánægjulegt að sjá að afnema á þök á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar og áherslu ríkisstjórnarinnar á eflingu iðn-, verk- og tæknináms á Íslandi. Það gagnast ekki eingöngu félagsmönnum SI heldur samfélaginu í heild sinni.

Kæru félagar! Um leið og ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðiríkrar jólahátíðar þakka ég ykkur öllum fyrir ánægjuleg samskipti á árinu.

Ég lít björtum augum til ársins 2018.

Með jólakveðju frá Hveragerði,

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins