Umfangsmikill tækni- og hugverkaiðnaður

13. okt. 2017

Tækni- og hugverkaiðnaður er umfangsmikill hér á landi en launþegar voru 13.000 í þeirri grein á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar. 

Tækni- og hugverkaiðnaður er umfangsmikill hér á landi en launþegar voru 13.000 í þeirri grein á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar. Um er að ræða 7,2% af heildarfjölda launþega í landinu og undirstrikar það mikilvægi greinarinnar fyrir hagkerfið allt. Hefur störfum í þessari grein iðnaðar fjölgað um 1.600 síðan hagkerfið byrjaði að taka við sér í núverandi efnahagsuppsveiflu. Um er að ræða 6,1% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á tímabilinu. Hefur fjölgunin haldið áfram á þessu ári en á fyrstu átta mánuðum ársins voru að jafnaði 1,4% fleiri starfandi í greininni en í fyrra. 

Launthegar-i-taekni--og-hugverkagreinum

Ríkuleg uppspretta gjaldeyristekna

Gjaldeyristekjur tækni- og hugverkaiðnaðar námu 104 mö.kr. á síðasa ári samanborið við ríflega 80 ma.kr. árið 2013. Vöxturinn er 24 ma.kr. eða tæplega 30%. Er vöxturinn enn meiri ef mælt er í erlendri mynt en krónan styrktist um 22% á tímabilinu. Skapaði greinin tæplega 9% af heildargjaldeyristekjum þjóðarbúsins á síðasta ári. Auk þessa hefur greinin skapað umtalsverðar gjaldeyristekjur óbeint. Þannig má t.d. rekja hluta þeirra gjaldeyristekna sem skapast hafa vegna komu erlendra ferðamanna til greinarinnar. Tækni- og hugverkaiðnaðurinn hefur þannig verið stór þáttur í þeirri auknu gjaldeyrissköpun sem knúið hefur hagvöxtinn hér á landi á síðustu árum.

Nýsköpunarlandið Ísland

Lykilatriði í harðri alþjóðlegri samkeppni er að Ísland marki sér stöðu og skilgreini markmið og stefnu sem getur byggt undir tækni- og hugverkaiðnaðinn hér á landi. Ef marka má umræðuna þá er skilningur fyrir mikilvægi þeirrar nýsköpunar sem er innan greinarinnar og ekki síst nú á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar. Þetta þarf hið opinbera að sýna í verki. Við þurfum að hafa hugrekki til að ákveða að Ísland sé nýsköpunarland.

Mikilvægi mannauðs og góðra innviða

Fjórða iðnbyltingin er drifin af tæknimenntuðu fólki og til að tæknifyrirtæki geti þrifist á Íslandi verður menntakerfið að bjóða upp á samkeppnishæfa menntun. Auðvelda þarf erlendum sérfræðingum að flytja til Íslands til að auka grósku í viðskiptaumhverfinu, bæta tengsl við umheiminn og koma með verðmæta reynslu inn í íslensk fyrirtæki.

Þrír gagnastrengir tengja Ísland við umheiminn. Til að gera Ísland samkeppnishæft á þeim markaði er nauðsynlegt að bæta við þeim fjórða. Ástæðurnar eru öryggi, hraði og samkeppni en mikilvægt er að fleiri en einn rekstraraðili selji gagnamagn. Einnig þarf að slípa umgjörð skattahvata við fjárfestingu í nýsköpun. Þá þarf að nýta Nýsköpunarsjóð til að hvetja til fjárfestinga erlendra og innlendra fagfjárfesta.

Rannsóknir og þróun lykilþáttur nýsköpunar

Rannsóknar- og þróunarstarf (R&Þ) er lykilþáttur í nýsköpun og starfsemi tækni- og hugverkaiðnaðar. Með R&Þ er fjárfest í tækni og hæfni sem elur af sér nýja vöru og þjónustu. R&Þ er grundvöllur framleiðnivaxtar og samkeppnishæfni einstakra fyrirtækja og atvinnulífsins alls. Með fjárfestingu í R&Þ er fjárfest í hagvexti framtíðarinnar til hagsbóta fyrir samfélagið. 


Utgjold-til-rannsoknar-og-throunar

Eftirbátur annarra þjóða

Ísland hefur á síðust árum verð eftirbátur annarra landa í R&Þ. Heildarútgjöld til R&Þ voru á síðasta ári 2,08% af landsframleiðslu sem er lægra hlutfall en sést í flestum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Svo dæmi sé tekið var hlutfallið 3,3% í Svíþjóð, 3,0% í Danmörk og 2,8% í Bandaríkjunum samkvæmt nýjustu gögnum þaðan.

Lækkaði á síðasta ári

Þróun framlags til R&Þ hefur undanfarið verið þvert á það sem æskilegt væri. Lækkuðu útgjöld til R&Þ sem hlutfall af landsframleiðslu á milli áranna 2015 og 2016 og fóru úr 2,17 í 2,08%. Hafði hlutfallið verið að hækka frá árinu 2013 þegar það mældist í sögulegu lágmarki þ.e. 1,8% af landsframleiðslu. Lækkun útgjalda til R&Þ á milli ára má rekja að mestu til fyrirtækja en útgjöld þeirra til R&Þ sem hlutfall af landsframleiðslu lækkuðu á milli ára úr 1,4% í 1,3%.

Fyrirtæki með stærstan hluta R&Þ

Heildarútgjöld til R&Þ á árinu 2016 voru 50,9 ma.kr. Af þeim voru útgjöld fyrirtækja 32,0 ma.kr., háskólastofnana 16,3 ma.kr. og annarra opinberra stofnana 2,5 ma.kr. Voru heildarútgjöld til R&Þ 48,5 ma.kr. 2015 en vöxturinn á milli ára er talsvert undir vexti landsframleiðslu og því lækkar ofangreint hlutfall R&Þ af landsframleiðslu.

Fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði leita út fyrir landsteinana

Íslensk fyrirtæki sem stunda mikið rannsóknar- og þróunarstarf eru í auknum mæli að fjárfesta í þessum hluta starfsemi sinnar erlendis frekar en hér á landi. Dæmi um slíkt eru innan íslensks tækni- og hugverkaiðnaðar. Að hluta er ástæðan fyrir þessari ákvörðun stjórnenda fyrirtækjanna að hér á landi er starfsumhverfi R&Þ lakara en víðast í nálægum ríkjum. Aðrar ástæður eru óstöðugt rekstrarumhverfi og sveiflur á gengi  krónunnar. Könnun á meðal fimm fyrirtækja í tækni- og hugverkaiðnaði leiddi í ljós að þau eru búin að færa eða byggja upp erlendis ríflega 130 störf nýlega vegna þessara þátta. 

Það þarf aukna hvatningu hins opinbera til R&Þ

Í ljósi mikilvægis R&Þ fyrir atvinnulífið og hagkerfið allt hafa flest öll lönd búið til einhvers konar hvatakerfi sem ýtir undir fjárfestingu fyrirtækja í rannsóknum og þróun. Ísland hefur verið eftirbátur annarra ríkja hvað þetta varðar. Til að tryggja viðunandi umfang R&Þ í íslensku efnahagslífi er mikilvægt að endurgreiðsluhlutfall rannsóknar- og þróunarstarfs verði hækkað. Einnig þarf að afnema þök á kostnaðarviðmið við rannsóknir og þróun til að hvetja til slíkra verkefna enda hefur það nú þegar borið árangur þó við stöndum öðrum löndum að baki í þessum efnum. 

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI

ingolfur@si.is, s. 8246105