Skýrslur og rit

Þekkingarverðmæti - kennsluefni

09.12.2011

Samtök upplýsingatæknifyrirtækja hafa frá árinu 2002 unnið að því að kynna mikilvægi óáþreifanlegra verðmæta fyrir félagsmönnum sínum. Þetta er ekki hvað síst vegna þess að verðmæti fyrirtækja í þessari atvinnugrein eru einmitt þeirrar tegundar. Þessi vinna var hvað mest á árunum 2003 til 2006 þegar SUT var í forsvari fyrir verkefninu „Putting IC into practice” (PIP), sem var samstarfsverkefni samtaka upplýsingatæknifyrirtækja á Norðurlöndum. SUT hefur síðan kynnt afrakstur verkefnisins og vakið athygli á því að þetta efni hentar ekki síður fyrir aðrar starfsgreinar því óefnisleg verðmæti eru að verða sífellt stærri hluti af samkeppnishæfni fyrirtækja.

Þekkingarskýrslan er viðbót við hina árlegu ársskýrslu og lýsir óáþreifanlegum verðmætum fyrirtækisins. Saman gera þessar skýrslur mun betri grein fyrir raunverulegum eignum félagsins og gefa skýrari mynd af framtíðarmöguleikum þekkingarfyrirtækja til tekjumyndunar og vaxtar.

Ein af grunnforsendum PIP verkefnisins var gerð samræmdra norrænna mælikvarða til þess að skrá þekkingarverðmæti og gera samanburð milli fyrirtækja mögulegan.  Þá var einnig fjallað um hvernig þekkingarverðmæti eru notuð við stefnumótun, gerð stefnukorta og við innleiðingu viðurkenndra verkfæra við stjórnun fyrirtækja. Afraksturinn af verkefninu var viðamikil skýrsla auk leiðbeininga sem rúmlega 20 fyrirtæki frá öllum Norðurlandanna tóku þátt í að gera.

SUT kynnti niðurstöður þessa verkefnis hér á landi og var ákveðið í framhaldinu að sækja um styrk til Námsefnissjóðs SI til að gera íslenska og staðfærða útgáfu af þessu efni sem hægt væri að kynna og kenna þeim sem á því hefðu áhuga. Samhliða þessu var gert samkomulag við forráðamenn SPICE verkefni Evrópusambandsins (SPpecial Intellectual Capital Education) um að fá aðgang að og leyfi til að nota efni sem til varð í því verkefni.

SUT fékk í framhaldinu styrk úr Námsefnissjóði SI og hefur nú lokið við gerð á námsefni fyrir gerð þekkingarskýrslna. Verkefnið var í höndum dr. Eggerts Claessen fyrrum formanns stjórnar SUT en hann og Daði Friðriksson stjórnarmaður í SUT stýrðu verkinu. Fenginn var starfsmaður, Magnea Lilja Þorgeirdóttir, til að vinna að verkinu. 

Hægt er að nálgast kennsluefni í glæruformi hér. 

Hægt er að nálgast skýrslu á pdf formi hér.