Samtök íslenskra líftækni­fyrirtækja, SÍL

Öflugur starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins

Tilgangur SÍL er að vinna að margvíslegum hagsmuna- og stefnumálum þessarar tiltölulega ungu atvinnugreinar. Að gera starfsskilyrði hennar sem best og þar með vaxtarmöguleika hennar einnig

Stofnun SÍL er ávöxtur stefnumótunarvinnu sem Samtök iðnaðarins stóðu fyrir og öllum helstu fyrirtækjum á sviði líftækninnar og fleirum sem greininni tengjast var boðið til.

Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja (SÍL) voru stofnuð 27. maí 2004, sem starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins. Tilgangur SÍL er að vinna að margvíslegum hagsmuna- og stefnumálum þessarar tiltölulega ungu atvinnugreinar og gera starfsskilyrði hennar sem best og þar með vaxtarmöguleika hennar.Það er hlutverk SÍL að upplýsa og hjálpa stjórnvöldum að móta samkeppnishæft stoð- og rekstrarumhverfi fyrir þessa langhlaupara meðal hátæknifyrirtækja og sjá til þess að sem flest fyrirtæki hafi möguleika á að dafna og vaxa.

Öll fyrirtæki sem starfa á sviði líftækni eru velkomin í hópinn.

Tengiliður hjá SI: Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, sigridur@si.is   

Stjórn

Stjórn kosin á aðalfundi í nóvember 2014

 • Björn Örvar, ORF Líftækni, formaður
 • Hörður Kristinsson, Matís
 • Orri Björnsson, Algalíf

Fyrri stjórnir

Stjórn kosin á aðalfundi í nóvember 2013

 • Ágústa Guðmundsdóttir, Ensímtækni formaður
 • Ása Brynjólfsdóttir, Bláa lónið heilsuvörur
 • Hörður Kristinsson, Matís

Stjórn kosin á aðalfundi í október 2012

 • Ágústa Guðmundsdóttir, Ensímtækni formaður
 • Ása Brynjólfsdóttir, Bláa lónið heilsuvörur
 • Hörður Kristinsson, Matís

Stjórn kosin á aðalfundi 3. nóvember 2011

 • Jóhannes Gíslason, Genís, formaður
 • Ása Brynjólfsdóttir, Bláa Lónið heilsuvörur
 • Hörður G. Kristinsson, Matís

Stjórn kosin á aðalfundi 1. mars 2007

 • Einar Mäntylä, ORF Líftækni hf., formaður
 • Jakob K. Kristjánsson, Proaktin ehf., kjörinn til tveggja ára.
 • Snorri Þórisson, Rannsóknarþjónustunni Sýni ehf., kjörinn til eins árs.

 

Starfsreglur

1. grein

Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja – SÍL, starfa innan Samtaka iðnaðarins sem starfsgreinahópur í líftækni.

2. grein

Markmið SÍL er að vinna að hagsmuna- og stefnumálum íslenskra líftæknifyrirtækja.

3. grein

Aðild að starfsgreinahópnum geta aðeins átt fyrirtæki sem eru aðilar að Samtökum iðnaðarins.

4. grein

Stjórn SÍL skipa 3 menn, formaður og tveir meðstjórnendur. Formaður er kosinn sérstaklega til eins árs í senn, en annar meðstjórnenda árlega til tveggja ára í senn, þannig að aldrei gangi nema annar úr stjórn. Heimilt er að endurkjósa stjórnarmenn en þeir skulu þó ekki sitja lengur en sex ár samfleytt í stjórn.

5. grein

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda í samráði við tengilið hópsins innan Samtaka iðnaðarins svo oft sem þurfa þykir. Formaður skal þó boða stjórnarfund ef stjórnarmaður krefst þess.

6. grein

Starfsgreinahópsfundir skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en tvisvar á ári að meðtöldum aðalfundi. Boða skal félaga til fundar með bréfi eða tölvupósti.

7. grein

Aðalfundur skal haldinn árlega, fyrir lok október.  Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum starfsgreinahópsins. Til aðalfundar skal boða skriflega með bréfi eða tölvupósti, með minnst 15 daga fyrirvara. Aðeins þeir félagar sem senda fulltrúa á aðalfund hafi atkvæðisrétt.

Tillögur, sem óskað er eftir að teknar verði fyrir fundinn þurfa að hafa borist stjórn félagsins a.m.k. 7 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Þær skulu sendar félagsmönnum með ekki skemmri en 5 daga fyrirvara.

8. grein

Dagskrá aðalfundar:

1. Kosinn fundarstjóri
2. Kosinn ritari fundarins
3. Formaður flytur skýrslu stjórnar og flytur tillögur að verkefnaskrá næsta starfsárs
4. Breytingar starfsreglna, ef fyrir liggja

5. Kosning stjórnar:

     a) formaður til eins árs
     b) meðstjórnandi til tveggja ára

6. Lýst stjórnarkjöri
7. Önnur mál

9. grein

Einfaldur meirihluti ræður við atkvæðagreiðslu á aðalfundi. Allir fullgildir aðilar að starfsgreinahópnum hafa jafnan atkvæðisrétt á fundum félagsins, þ.e. hverju fyrirtæki fylgir eitt atkvæði.

10. grein

Til aukaaðalfundar er hægt að boða ef 2/3 félagsmanna fara fram á það við stjórn félagsins. Þá verði hann haldinn eigi síðar en 30 dögum eftir að stjórnin fær beiðni þess efnis. 

11. grein

Stjórnin skal skipta með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund sem haldinn er í síðasta lagi innan 14 daga. 

12. grein

Aðalfundur hefur heimild til að breyta starfsreglum þessum, að því tilskyldu að a.m.k. helmingur félagsmanna sé mættur og a.m.k. 2/3 greiði breytingunum atkvæði sitt. 

______________

Fyrst samþykkt þann 27. maí 2004.
Breytingar samþykktar þann 26. október 2005.