Iðnaður skapar 30% gjaldeyristekna

Gjaldeyristekjur fyrirtækja í iðnaði námu í fyrra 355 mö.kr. Tekjurnar eru af fjölbreyttri starfsemi iðnaðar á sviði framleiðslu-, hugverka- og byggingariðnaðar.

 

Gjaldeyristekjur af útflutningi iðnaðarvara námu 280 mö.kr. í fyrra. Ál, álafurðir og kísiljárn er umfangsmesti einstaki hluti í útflutningi iðnaðarvara með tæplega 220 ma.kr. gjaldeyristekjur í fyrra. Gjaldeyristekjur af útflutningi annarra iðnaðarvara námu rúmlega 60. mö.kr á árinu 2017. Gjaldeyristekjur af útflutningi þjónustu á sviði iðnaðar námu 76 mö.kr. í fyrra. Ber þar helst að nefna hugverkaiðnað en greinin hefur verið í talsverðum vexti undanfarin ár. Gjaldeyristekjur þeirrar greinar voru 66 ma.kr. í fyrra. Gjaldeyristekjur af erlendum verkefnum m.a. á sviði byggingastarfsemi og mannvirkjagerðar námu 9 mö. kr. í fyrra.

Gjaldeyristekjur

Fyrirtæki í iðnaði sköpuðu í fyrra um 30% heildargjaldeyristekna þjóðarbúsins af útflutningi vöru- og þjónustu. Þetta háa hlutfall endurspeglar mikilvægi greinarinnar fyrir efnahagslíf landsmanna.
Líkt og í mörgum öðrum smáríkjum er neysluvara og fjárfestingarvara að stórum hluta innflutt hér á landi. Innflutningur vöru- og þjónustu er fjármagnaður með sérhæfðum útflutningi sem byggir að stórum hluta á náttúruauðlindum landsins.

Í rannsókn á efnahagslegri stöðu smáríkja sem kom út fyrr á þessu ári á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að þessi mikla sérhæfing getur verið vandamál. Bent er þar á að efnahagssveiflurnar eru líklegri til að verða meiri eftir því sem sérhæfingin er meiri. Niðurstaða rannsóknarinnar er að með því að auka fjölbreytileika í gjaldeyrisöflun nái þessi ríki að draga úr efnahagssveiflum, hækka meðalhagvöxt og auka þannig efnahagsleg lífsgæði til langs tíma. 1

Gjaldeyristekjur2

Í þessu ljósi er mikilvægt að undirbyggja aukinn fjölbreytileika í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins litið til framtíðar og þannig skapa hagkerfinu meiri stöðugleika. Það er áleitin spurning hvernig þetta verði gert. Ljóst er að líklegast til árangurs er að ráðast í þá þætti sem gætu aukið samkeppnishæfni atvinnuveganna. Leggja þarf áherslu á stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi fyrirtækja, öfluga menntun, mikla nýsköpun og sterka innviði. Hafa Samtök iðnaðarins í því sambandi bent á aðgerðir sem gætu stuðlað að því að Ísland verði í fremstu röð þjóða þar sem fólk vill búa og reka atvinnustarfsemi. Núna er rétti tíminn til að ráðast í þessar aðgerðir.

Gjaldeyristekjur3

Miklar sveiflur í samkeppnisstöðunni draga úr velmegun

Miklar sveiflur í raungengi krónunnar hafa skapað fyrirtækjum óstöðugt starfsumhverfi og skaðað samkeppnishæfni útflutningsatvinnuvega. Hefur raungengi krónunnar sveiflast meira en raungengi nokkurs annars iðnríkis fyrir síðustu áratugi. Miklar sveiflur hafa komið niður á uppbyggingu og verðmætasköpun fyrirtækja hér á landi.
Mikilvægt er að huga að stöðugu, hagkvæmu og skilvirku starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja til frambúðar. Aukinn fjölbreytileiki í gjaldeyrisöflun er mikilvægur þáttur í því að auka stöðugleika hagkerfisins og treysta grunn efnahagslegrar velmegunar íslensku þjóðarinnar. Í þessu sambandi skiptir ekki einungis máli að fjöldi greina standi að baki gjaldeyrisöfluninni heldur einnig fjölbreytileiki innan hverrar greinar í útflutningi. Ætti fjölbreytileiki á þessu sviði að skila sér í stöðugra starfsumhverfi fyrirtækja þegar litið er til framtíðar.

Gjaldeyristekjur4

Samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna hefur versnað umtalsvert í þessari uppsveiflu. Laun í framleiðsluiðnaði hafa svo dæmi sé tekið hækkað um 140% frá árinu 2010 mælt í evrum en til samanburðar hækkuðu laun í þeim hluta iðnaðarins um 20% í ESB-ríkjunum á sama tíma. Hækkuðu laun hér á landi mælt í evrum langt umfram það sem gerst hefur í nokkru öðru iðnvæddu ríki á tímabilinu. Laun í greininni eru nú með því hæsta sem þekkist í samanburði við önnur lönd og samkeppnishæfni greinarinnar því skert á alþjóðlegum vettvangi. Kemur þetta verst niður á þeirri gjaldeyrisskapandi starfsemi þar sem vægi launakostnaðar er hár í heildarkostnaði.
Við þetta bætist síðan hár innlendur fjármagnskostnaður og óhagstætt skattaumhverfi. Þetta hefur komið niður á samkeppnisstöðu fyrirtækja í greininni gagnvart erlendum keppinautum, rýrt markaðshlutdeild og gjaldeyrissköpun þeirra. Svipaða sögu má segja af fyrirtækjum í öðrum greinum sem eru í erlendri samkeppni.

Iðnaður er samofinn velmegun þjóðarinnar

Lengi vel reiddu Íslendingar sig nær eingöngu á gjöful fiskimið við öflun gjaldeyristekna en það var ekki fyrr en eftir miðbik síðustu aldar sem telja má að íslenska iðnbyltingin hafi hafist. Ber þar helst að nefna stóriðju en með fjárfestingum á því sviði voru stigin stór skref í að auka fjölbreytileika í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Iðnaður varð ein meginstoð gjaldeyrisöflunar eftir 1969.

 

Gjaldeyristekjur5

Miklar breytingar hafa átt sér stað í samsetningu gjaldeyristekna þjóðarbúsins á undanförnum árum og áratugum. Vægi þjónustu í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins hefur aldrei verið hærra eða 56% en á móti hefur dregið úr vægi útfluttra vara.

1 Economic Benefits of Export Diversification in Small States, IMF Working Paper, apríl 2018