Iðnaður skapar 30% gjaldeyristekna

Gjaldeyristekjur fyrirtækja í iðnaði af útflutningi vöru- og þjónustu námu 395 mö.kr. í fyrra. Tekjurnar eru af fjölbreyttri starfsemi iðnaðar á sviði framleiðslu-, hugverka- og byggingariðnaðar.

 

Gjaldeyristekjur af útflutningi iðnaðarvara námu 316 mö.kr. en þar af eru ál, álafurðir og kísiljárn umfangsmesti hlutinn með rúmlega 260 ma.kr. Gjaldeyristekjur af útflutningi annarra iðnaðarvara námu þá tæplega 55. mö.kr á árinu. Gjaldeyristekjur af útflutningi þjónustu á sviði iðnaðar námu um 80 mö.kr. í fyrra. Ber þar helst að nefna hugverkaiðnað með um 70 ma.kr. en greinin hefur verið í talsverðum vexti undanfarin ár. Gjaldeyristekjur af erlendum verkefnum m.a. á sviði byggingastarfsemi og mannvirkjagerðar námu þá 9 mö. kr. 

Gjaldeyristekjur-idnadar-arid-2018

Fyrirtæki í iðnaði sköpuðu í fyrra um 30% heildargjaldeyristekna þjóðarbúsins af útflutningi vöru- og þjónustu. Þetta háa hlutfall endurspeglar mikilvægi greinarinnar fyrir efnahagslíf landsmanna.

Einhæfni í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins hefur lengi verið uppruni efnahagssveiflna hér á landi og átt þannig þátt í að draga úr framleiðnivexti og innlendri verðmætasköpun. Með því að auka fjölbreytileika í gjaldeyrisöflun má draga úr efnahagssveiflum og auka þannig efnahagsleg lífsgæði til langs tíma.

Gjaldeyrisskopun-thjodarbusins

Velta í iðnaði 1.328 milljarðar króna á síðasta ári

Velta í iðnaði nam 1.328 mö.kr. á síðasta ári. Um er að ræða um 30% af allri veltu fyrirtækja í landinu. Veltan í iðnaði hefur aukist um 456 ma.kr. í þessari efnahagsuppsveiflu þ.e. síðan árið 2012. Er þetta um 34% af allri veltuaukningu í hagkerfinu á tímabilinu. Undirstrikar það vægi iðnaðar í hagvexti og fjölgun starfa í hagkerfinu. 

Velta-i-greinum-idnadar

Veltan jókst nokkuð milli áranna 2018 og 2017 eða um 9,5%. Mestu munaði um tekjuaukningu í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð og hugverkaiðnaði en 82% aukning var í starfsemi á sviði upplýsingaþjónustu og 18% aukning í fjarskiptum svo fáein dæmi séu nefnd.

Nokkuð hefur þó dregið úr tekjuvexti í iðnaði samanburði við fyrri ár en vöxturinn var aðeins um 2% fyrstu 8 mánuði ársins 2019 m.v. 2018. Örlítill samdráttur var í þeim hluta iðnaðar sem er í hvað mestri samkeppni við erlend fyrirtæki þ.e. í framleiðsluiðnaði en þar hefur hátt gengi krónunnar ásamt miklum innlendum kostnaðarverðshækkunum vegið að samkeppnisstöðunni og markaðshlutdeild iðnfyrirtækja. Ljóst er að grípa verður til aðgerða til að tryggja aukinn stöðugleika í starfsumhverfi iðnaðar til lengri tíma.