Ábyrgðarsjóður MSI

Stofa1

Aðilar innan Meistaradeildar SI (MSI) hafa gert með sér samkomulag um stofnun Ábyrgðasjóðs.

Í Meistaradeild SI eru Félag Skrúðgarðyrkjumeistara, Málarameistarafélagið, Meistarafélag Suðurlands, Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði, Meistarafélag byggingamanna á Norðurlandi, Meistarafélag húsasmiða, SART- samtök rafverktaka, Félag dúklagninga- og veggfóðrarameistara, Múrarameistarafélag ReykjavíkurMeistarafélag byggingamanna á Suðurnesjum og Félag blikksmiðjueigenda.

Um Ábyrgðasjóð Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins

Tilgangur Ábyrgðasjóðs MSI er að skapa traust milli viðskiptavina og félagsmanna MSI.

 • Að baki Ábyrgðasjóði MSI standa Samtök iðnaðarins og sex meistarafélög.
 • Ábyrgðasjóður MSI er ætlað að skapa traust milli verkkaupa og verktaka. 
 • Telji verkkaupi vinnubrögð verktaka ekki uppfylla væntingar getur hann skotið máli sínu til Úrskurðarnefndar MSI 
 • Allir félagsmenn Meistaradeildar SI eru löggiltir iðnmeistarar og eiga aðild að Ábyrgðasjóði MSI. 
 • Skriflegur verksamningur milli verkkaupa og verksala er skilyrði þess að verkkaupi geti vísað máli sínu til Úrskurðarnefndar MSI. Ágreiningi vegna reikningagerðar, verktíma og álíka atriða er ekki hægt að vísa til Úrskurðarnefndar MSI. Einungis er úrskurðað um meint ófagleg vinnubrögð. 
 • Sjóðurinn tekur ekki á málum vegna efnisgalla eða galla sem stafa af röngum upplýsingum framleiðenda. 
 • Einungis einstaklingar og húsfélög geta notið bóta úr Ábyrgðasjóði MSI. 
 • Úrskurðarnefnd MSI tekur ekki fyrir mál gagnvart fyrirtækjum. 
 • Hámarks bótafjárhæð er 2.000.000 kr. 
 • Úrskurðarnefnd MSI fjallar ekki um mál þar sem samningsupphæð er lægri en 100.000 kr. né hærri en 25.000.000 kr. með VSK. 
 • Málskotsgjald er 15.000 kr. Til þess getur komið að sá sem tapar máli greiði útlagðan kostnað að hámarki 100.000 kr.

Tilgangur ábyrgðarsjóðar MSI

Tilgangur með Ábyrgðasjóðnum er að skapa traust milli viðskiptavina og verktaka sem starfa innan Meistaradeildar byggingagreina Samtaka iðnaðarins og tryggja viðskiptavinum félagsmanna MSI eins og kostur er að vinna framkvæmd af félagsmönnum MSI sé í samræmi við skriflegt samkomulag um verkið og góð fagleg vinnubrögð.

Hvað er Úrskurðarnefnd?

Úrskurðarnefnd tekur til meðferðar og úrskurðar í ágreiningsmáli viðskiptamanns vegna faglegrar vinnu félagsmanns MSI.

Nefndin tekur ekki til umfjöllunar ágreining vegna útgáfu reikninga, efnisgalla né nokkurs annars.

Úrskurðarnefndin tekur ekki til meðferðar mál þar sem heildarupphæð samnings er lægri en 100.000 krónur og heldur ekki mál þar sem heildar samningsupphæðin er hærri 25.000.000 króna.

Kvartanir þurfa að berast úrskurðarnefndinni innan árs frá verklokum.

Einstaklingar sem eigendur, leigjendur eða búseturétthafar og húsfélög geta leitað til Úrskurðanefndar hafi þeir gert skriflegan samning við félagsmann MSI um ákveðið verk á íbúðarhúsi, frístundahúsi eða sameign.

Aðild að Úrskurðarnefnd eiga Meistaradeild byggingagreina innan Samtaka iðnaðarins, Neytendasamtökin og Húseigendafélagið.

Sjá nánar um Úrskurðarnefnd.

Í hverju felst trygging Ábyrgðasjóðs?

Standist vinna af einhverjum ástæðum ekki þær kröfur sem viðskiptavinur gerir til verksins getur hann lagt málið fyrir Úrskurðarefnd MSI með því að fylla út viðeigandi eyðublað frá SI og leggja fram skrifleg gögn kvörtuninni til stuðnings. Úrskurðarnefndin mun þá snúa sér í fyrstu til Meistarafélags viðkomandi félagsmanns sem hefur 14 daga til að leysa úr ágreiningi. Takist það ekki tekur Úrskurðarnefndin málið fyrir. Greiða þarf 15.000 kr. málskotsgjald við afhendingu kvörtunareyðublaðs og skila því inn á skrifstofu SI. Komi til þess að aðili tapi málinu getur hann þurft að greiða fyrir útlagðan kostnað að hámarki 100.000 kr.

Hér má nálgast kvörtunareyðublað.

Ef úrskurður nefndarinnar er á þá leið að verkinu sé ábótavant bætir Ábyrgðarsjóður tjónið með því að láta klára eða laga tiltekið verk.

Hámarksbótafjárhæð er 2.000.000 kr.

Skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins

Skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins er að skriflegur samningur um verkefnið hafi verið gerður milli viðskiptavinar og verktaka og að verktaki sé félagsmaður innan MSI.

Sjóðurinn bætir eingöngu úr vanefndum á því að verkið hafi verið rétt og faglega útfært. Sjóðurinn tekur þannig ekki á því að ljúka verki sem ekki hefur verið framkvæmt og bætir ekki fjárhagstjón.

Sjóðurinn bætir ekki efnisgalla eða galla sem kunna að stafa af röngum upplýsingum framleiðenda.

Sjóðurinn bætir aðeins galla á verki sem framkvæmt er á Íslandi.

Sjá nánar um Ábyrgðasjóð