Saga Samtaka iðnaðarins

Samtök iðnaðarins voru stofnuð árið 1993 þegar sameinuð voru sex samtök.
Samtök iðnaðarins voru stofnuð 24. september 1993 þegar sameinuð voru sex helstu samtök iðnaðar: Félag íslenskra iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Félag íslenskra prentiðnaðarins, Verktakasamband Íslands, Samband málm- og skipasmiðja og Meistara- og verktakasamband byggingamanna. Samtök iðnaðarins tóku síðan formlega til starfa um áramótin 1993 til 1994.
Höfuðmarkmið hinna nýju samtaka var að auka áhrif iðnaðar í þjóðfélaginu, vinna að bættum starfsskilyrðum, hvetja til hagkvæmni í rekstri og leggja áherslu á markvissa vöruþróun, markaðsstarfsemi og menntamál.


Innan Samtaka iðnaðarins eru núna um 1.700 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda. Þau eru mjög ólík innbyrðis, hvort sem litið er til stærðar, framleiðslu eða markaða. Þessi mikla fjölbreytni gerir starfið í senn vandasamt og nauðsynlegt. Þess er gætt að leggja áherslu á það sem er sameiginlegt en um leið hlúa að því sértæka. Þetta hefur tekist með svo farsælum og árangursríkum hætti að Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi.

Stjórn SI er skipuð 10 einstaklingum sem kjörnir eru árlega í leynilegri kosningu. Áhersla er lögð á að hvetja aðila úr ólíkum greinum að bjóða sig fram til stjórnarsetu. Formaður Samtaka iðnaðarins er kosinn til tveggja ára í senn.


Skrifstofa Samtaka iðnaðarins er á 4. hæð í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, í Reykjavík.

Framkvæmdastjórar Samtaka iðnaðarins

  • Sigurður Hannesson 2017-
  • Almar Guðmundsson 2014-2017
  • Kristrún Heimisdóttir 2013-2014
  • Orri Hauksson 2010-2013
  • Jón Steindór Valdimarsson 2007-2010
  • Sveinn Hannesson 1992-2007

Formenn Samtaka iðnaðarins

  • Árni Sigurjónsson 2020-
  • Guðrún Hafsteinsdóttir 2014-2020
  • Svana Helen Björnsdóttir 2012-2013
  • Helgi Magnússon 2006-2011
  • Vilmundur Jósefsson 2000-2005
  • Haraldur Sumarliðason 1994-1999

Nánar um sögu samtakanna

Einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Samtaka iðnaðarins var Haraldur Sumarliðason, húsasmíðameistari, en hann hafði lengi verið í forystusveit Landssambands iðnaðarmanna og forseti þess um árabil. Í kjölfar sameiningarinnar var hann kjörinn fyrsti formaður SI og gegndi því starfi í 6 ár þar til hann lét af formennsku á Iðnþingi árið 2001. 

Hér er hægt að lesa viðtal við Harald sem tekið var í tilefni þess að 10 ár voru liðin frá stofnun samtakanna.