Viðburðir
11.10.2018 kl. 8:30 - 10:00 Hylur, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35

Forstjóri Vegagerðarinnar á aðalfundi Mannvirkis

Aðalfundur Mannvirkis – félags verktaka verður haldinn fimmtudaginn 11. október næstkomandi kl. 8.30-10.30 í Hyl, 1. hæð í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35.

Áður en hefðbundin aðalfundarstörf hefjast mun Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, ásamt Magnúsi Vali Jóhannssyni, framkvæmdastjóra mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, eiga samtal við félagsmenn.

Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi í samræmi við 8. gr. starfsreglna starfsgreinahópsins:

1.   Kjör fundarstjóra.
2.   Kjör ritara fundarins.
3.   Formaður flytur skýrslu stjórnar.
4.   Reikningar félagsins lagðir fram.
5.   Ákvörðun árgjalds.
6.   Breytingar starfsreglna, ef fyrir liggja.
7.   Kjör stjórnar: a. Formaður til eins árs. b. Varaformaður til eins árs.
9.    Önnur mál.

Stjórn leggur til að 3. gr. og 1. málsl. 7. gr. starfsreglna starfsgreinahópsins verði breytt með eftirfarandi hætti:

                3. gr. starfsreglnanna er nú svohljóðandi:

Um aðild að félaginu geta aðeins sótt fyrirtæki sem eru aðilar að Samtökum iðnaðarins og starfa í jarðvinnu- og eða byggingaverktöku og velta amk. 200 millj. króna árlega í verktöku og eða fjöldi ársverka í starfsgreininni er amk. 20. Umsóknir nýrra fyrirtækja skulu lagðar fyrir félagsfund og þeirra skal getið í fundarboði.  Umsókn telst samþykkt ef meiri hluti greiðir því atkvæði.

                Lagt er til að 3. gr. verði svohljóðandi:             

Um aðild að félaginu geta aðeins sótt fyrirtæki sem eru aðilar að Samtökum iðnaðarins og starfa í jarðvinnu- og/eða byggingaverktöku og meðalvelta þeirra í verktöku síðastliðin tvö ár hafi verið a.m.k. 500 milljónir króna án VSK og fjöldi ársverka í starfsgreininni fyrir sama tímabil hafi verið hið minnsta 20. Umsóknir nýrra fyrirtækja skulu lagðar fyrir stjórn til samþykktar.

                1. málsl. 7. gr. starfsreglnanna er nú svohljóðandi:          

                Aðalfundur skal haldinn í október ár hvert.

                Lagt er til að 1. málsl. 7. gr. verði svohljóðandi:

                Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en í maí ár hvert.             

Auglýst er eftir framboðum til stjórnar félagsins en Sigþór Sigurðsson og Gylfi Gíslason hafa gefið kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Boðið verður upp á léttar veitingar frá kl. 8.15.

Bókunartímabil er frá 1 okt. 2018 til 11 okt. 2018