Stefnumótun - aðferðafræði

Verklag - aðferðafræði

Samtök iðnaðarins hafa frá upphafi lagt mikla áherslu á að móta sér skýra stefnu í nánu samráði við félagsmenn sína. Stefna, markmið og einstök verkefni hagsmunasamtaka, eins og Samtaka iðnaðarins, þurfa að vera í sífelldri endurskoðun og taka mið af síbreytilegum aðstæðum í rekstrarumhverfi iðnaðarins. Stefnumótunarstarf SI fylgir nokkuð föstu verklagi sem þó er stöðugt leitast við að bæta og gera aðgengilegra fyrir félagsmenn.

Í framhaldi af Iðnþingi ár hvert ákveður stjórn SI umfang og form stefnumótunar fyrir viðkomandi starfsár. Flokka má stefnumótunarstarfið eftir tímasviði og umfangi annars vegar í mótun framtíðarsýnar og greiningu forsendna til lengri tíma og hins vegar skilgreiningu tímabundinna verkefna og áherslusviða ásamt forgangsröðun þeirra til eins árs í senn.

Stjórn og framkvæmdastjóri skipa menn í stefnumótunarhópinn (ákveða samsetningu stefnumótunarhópsins eftir umfangi) hverju sinni. Sá hópur er þó jafnan a.m.k. skipaður stjórn SI, framkvæmdastjóra, aðstoðarframkvæmdastjóra og forstöðumanni þjónustu-, þróunar- og starfsgreina. Við umfangsmeiri stefnumótunarvinnu bætast í hópinn fulltrúar úr ráðgjafaráði og aðrir úr röðum félagsmanna eftir nánari ákvörðun stjórnar hverju sinni.

SI hafa þróað eigin aðferðafræði sem lögð er til grundvallar við mótun framtíðarsýnar, skilgreiningu forsendna og forgangsröðun verkefna. Aðferðafræði við stefnumótun er að öðru leyti ákveðin hverju sinni í samræmi við umfang, þróun og þarfir.

Í tengslum við umfangsmeiri stefnumótunarvinnu metur hópurinn einnig  hvort nauðsynlegt sé að endurskoða hlutverk og lög félagsins.

Framangreint verklag er einnig notað við stefnumótun starfsgreinahópa, félaga innan SI í samráði við stjórnir þeirra hópa.