• Jón Steindór Valdimarsson

21. nóv. 2007

Nýr framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins

Jón Steindór Valdimarsson tekur við af Sveini Hannessyni

Stjórn Samtaka iðnaðarins hefur ákveðið að ráða Jón Steindór Valdimarsson í stöðu framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Tekur hann við starfinu af Sveini Hannessyni frá og með næstu mánaðamótum.

Jón Steindór er fæddur og uppalinn á Akureyri og stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1978. Hann er lögfræðingur að mennt og útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 1985. Að loknu námi starfaði Jón um tíma í fjármálaráðuneytinu en síðan hjá Vinnumálasambandinu. Haustið 1988 hóf Jón Steindór störf hjá Félagi íslenskra iðnrekenda og síðan hjá Samtökum iðnaðarins frá stofnun þeirra haustið 1993, lengst af sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Hann hefur einkum sinnt verkefnum sem tengjast alþjóðasamvinnu, s.s. EFTA, EES, ESB og WTO. Jón Steindór hefur gengt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Samtök iðnaðarins og má þar nefna að hann er stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, situr í stjórn Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og á sæti í Ráðgjafanefnd EFTA.

Jón Steindór er kvæntur Gerði Bjarnadóttur, menntaskólakennara, og eiga þau þrjár dætur.

Sveinn Hannesson
Sveinn Hannesson

Sveinn Hannesson, sem nú lætur af störfum framkvæmdastjóra að eigin ósk, hefur verið framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og þar áður Félags íslenskra iðnrekenda frá ársbyrjun 1992 eða nærri 16 ár. Sveinn hefur gengt margs konar trúnaðarstörfum fyrir Samtök iðnaðarins og setið í stjórnum lífeyrissjóða, Samtaka atvinnulífsins og félaga sem tengjast starfsemi Samtaka iðnaðarins.

Sveinn tekur við starfi framkvæmdastjóra Gámaþjónustunnar hf. um næstu mánaðamót.