Iðnþing

Si_idnthing_2024_a-4_1711357923551

Aðalfundur Samtaka iðnaðarins heitir Iðnþing og er haldinn ár hvert í byrjun mars. Hefðbundin aðalfundarstörf fara fram að morgni dags og eftir hádegi er málþing þar sem valin efni eru til umfjöllunar.

Iðnþing skal halda eigi síðar en 30. apríl ár hvert og skal boða til þess með minnst tveggja vikna fyrirvara með bréfi, símbréfi eða á annan sannanlegan og tryggilegan hátt.

Iðnþing hefur æðsta vald í öllum málefnum SI.

Iðnþing er lögmætt ef löglega hefur verið til þess boðað án tillits til fundarsóknar nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

Atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg ef 1/5 hluti fundarmanna krefst þess.

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í öllum málum, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

Á dagskrá Iðnþings skulu tekin fyrir þessi mál:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  2. Framkvæmdastjóri leggur fram til úrskurðar endurskoðaða ársreikninga Samtaka iðnaðarins fyrir liðið almanaksár, með athugasemdum endurskoðanda.
  3. Tillaga stjórnar um fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
  4. Lagabreytingar enda séu þær kynntar í fundarboði.
  5. Lýst kjöri formanns og meðstjórnenda.
  6. Kjör í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins.
  7. Kjörinn löggiltur endurskoðandi.
  8. Kosinn kjörstjóri og tveir aðstoðarmenn hans.
  9. Önnur mál.