Vetnis- og rafeldsneytissamtökin - VOR

Tilgangur VOR er að mynda öflugan faghóp fyrirtækja í vetnis- og rafeldsneytisstarfsemi gagnvart stjórnvöldum sem hvetur til stuðnings við rannsóknir, þróun og framleiðslu á endurnýjanlegu eldsneyti.

VOR1Vetnis- og rafeldsneytissamtökin voru stofnuð 18. nóvember 2021 og starfa sem starfsgreinahópur innan SI. Innan samtakanna eru fyrirtæki sem vinna að þróun og markaðssetningu á grænni tækni með framleiðslu og/eða tækniþróun er viðkemur vetni og rafeldsneyti. Samtökin er vettvangur fyrir aðila í þessum geira til að vinna að framþróun þessara mála og læra hver af öðrum, byggja upp tengslanet og nýta sér tengslanet hvors annars um leið og mótuð er skýr ásýnd á græna eldsneytisframleiðslu hér á landi, hvort sem um er að ræða framleiðslu á innlenda notkun eða til útflutnings á eldsneyti eða hugviti á því sviði. Áherslurnar liggja á mörgum sviðum: markaðsmálum, mennta- og upplýsingamálum, fjármögnun og styrkjaumhverfi, þátttöku í alþjóðlegu starfi og að vera stjórnvöldum innan handar við stefnumótun. Að sama skapi eru samtökunum ætlað að veita stjórnvöldum aðhald þegar kemur að laga- og reglusetningu sem og innleiðingu á alþjóðlegum reglum og stöðlum á sviði eldsneytisframleiðslu.

Hér er hægt að nálgast fundargerð stofnfundar 18. nóvember 2021.

Tengiliður hjá SI:Tengiliður hjá SI: Guðný Hjaltadóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, gudnyh@si.is

Stjórn

Stjórn kosin á aðalfundi 2022

  • Auður Nanna Baldvinsdóttir, IðunnH2, formaður
  • Eyjólfur Lárusson, Carbon Iceland
  • Hallmar Halldórsson, Clara Artic Energy
  • Tryggvi Þór Herbertsson, Qair Iceland
  • Guðbjörg Rist Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Atmonia

Stjórn kosin á stofnfundi 2021

  • Auður Nanna Baldvinsdóttir, IðunnH2, formaður
  • Eyjólfur Lárusson, Carbon Iceland
  • Hallmar Halldórsson, Clara Artic Energy
  • Tryggvi Þór Herbertsson, Qair Iceland

Starfsreglur

Starfsreglur Vetnis- og rafeldsneytissamtakanna, VOR

1. gr.

Vetnis- og rafeldsneytissamtökin - VOR, starfa innan Samtaka iðnaðarins sem starfsgreinahópur um málefni greinarinnar.

2. gr.

Markmið VOR er að vinna að hagsmuna- og stefnumálum framleiðenda vetnis- og rafeldsneytis á Íslandi.

3. gr.

Aðild að VOR geta aðeins átt fyrirtæki sem eru aðilar að Samtökum iðnaðarins og starfa í vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu og tengdri þjónustu.

4. gr.

Stjórn VOR skipa 3-6 fulltrúar aðildarfyrirtækja, formaður og 2-5 meðstjórnendur auk tveggja varamanna ef þörf er á. Formaður er kosinn til tveggja ára í senn og tveir-þrír meðstjórnendur árlega til tveggja ára í senn, þannig að aldrei gangi fleiri en þrír úr stjórn. Varamenn eru kosnir til eins árs í senn. Heimilt er að endurkjósa stjórnar- og varamenn.

Kjörgengir í stjórn eru þeir einir sem sinna daglegum stjórnunarstörfum eða sitja í stjórn hjá félagsaðila Samtaka iðnaðarins, sem á jafnframt aðild að VOR.

5. gr.

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda í samráði við tengilið VOR innan Samtaka iðnaðarins svo oft sem þurfa þykir. Formaður skal þó boða stjórnarfund ef stjórnarmaður krefst þess.

6. gr.

Stjórnarfundir VOR skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en tvisvar á ári að meðtöldum aðalfundi. Boða skal stjórn til fundar með bréfi eða tölvupósti.

7. gr.

Aðalfundur skal haldinn árlega, fyrir lok nóvember. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum VOR. Til aðalfundar skal boða skriflega með bréfi eða tölvupósti, með minnst 14 daga fyrirvara. Aðeins þeir félagar, sem senda fulltrúa á aðalfund eða veita skriflegt umboð fyrir atkvæði sínu, hafa atkvæðisrétt.

8. gr.

Dagskrá aðalfundar:

1. Fundarstjóri kjörinn.

2. Ritari fundarins kjörinn.

3. Formaður flytur skýrslu stjórnar og flytur tillögur að verkefnaskrá næsta starfsárs.

4. Breytingar starfsreglna, ef fyrir liggja.

5. Kosning stjórnar:

a) formaður til tveggja ára

b) tveir til þrír meðstjórnendur og tveir til vara til eins árs ef þörf þykir

6. Önnur mál.

9. gr.

Við atkvæðagreiðslu á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti. Allir fullgildir aðilar að VOR hafa jafnan atkvæðisrétt á fundum félagsins, þ.e. hverju fyrirtæki fylgir eitt atkvæði.

10. gr.

Til aukaaðalfundar er hægt að boða ef 2/3 félagsmanna fara fram á það við stjórn félagsins. Þá verði hann haldinn eigi síðar en 30 dögum eftir að stjórnin fær beiðni þess efnis.

11. gr.

Stjórn skal skipta með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund.

12. gr.

Aðalfundur hefur heimild til að breyta starfsreglum þessum, að því tilskildu að löglega sé boðað til hans og a.m.k. 2/3 greiði breytingunum atkvæði sitt.

13. gr.

Samþykkt á stofnfundi VOR þann 18. nóvember 2021 og breytt á aðalfundi 24. nóvember 2022.