Menntastefna

Menntun er forsenda bættra lífskjara. Við eflum menntun fyrir atvinnulífið með áherslu á iðn-, verk- og tækninám.

Menntamál brenna á fyrirtækjum í iðnaði enda er vel menntað starfsfólk á öllum sviðum forsenda aukinnar framleiðni og velferðar.

Það takmarkar afkastagetu margra fyrirtækja þegar skortir fagmenntað og sérhæft starfsfólk á öllum skólastigum. Nýliðun í ýmsum greinum verður framtíðarvandi atvinnurekenda.

Atvinnurekendur vilja axla ábyrgð og því er áhersla á umræðu um samfélagslegar skyldur fyrirtækja og mikilvægi þess að taka þátt í að mennta iðnnema. Þannig munu þekkingarfyrirtæki í iðnaði njóta bæði reynslu eldri og reyndari starfsmanna og nýrrar og frjórrar hugsunar nemanna.

 • SI leggur áherslu á menntamál til að stuðla að bættu aðgengi fyrirtækja að hæfum starfskrafti.
 • Að menntastefna sé í takt við atvinnustefnu - þ.e. greina framtíðarþarfir atvinnulífsins og samfélags fyrir hæfni og þekkingu fólks á vinnumarkaði.
 • Stuðla að virku samstarfi við ráðuneyti menntamála, skólastiganna allra og annarra hagsmunaaðila.
 • Auka hlutfall nemenda sem velja raunvísinda- og tæknigreinar (STEM) á háskólastigi.
 • Stuðla að öflugu framboði náms á fagháskólastigi sem tryggir fagmenntað fólk í alla þætti iðnaðarins.
 • Auka áhuga á iðn-, verk- og tæknigreinum þannig að 30% grunnskólanema velji starfsmenntun árið 2030.

Stefna SI í iðn- verk- og tæknimenntun

Markmið SI er að fjölga fagmenntuðu fólki og setjum við því skýr mælanleg markmið um að: 20% grunnskólanema velji starfsmenntun árið 2025 og 30% árið 2030.

Atvinnurekendur vilja axla ábyrgð og því er áhersla lögð á umræðu um samfélagslegar skyldur fyrirtækja og mikilvægi þess að taka þátt í að mennta iðnnema. Þannig verði byggð upp þekkingarfyrirtæki í iðnaði sem njóta bæði reynslu eldri og reyndari starfsmanna og nýrrar og frjórrar hugsunar nemanna.

Aðkoma atvinnulífs verði tryggð með formlegum hætti í stefnumótun, stýringu, gerð námsskráa og inntaki starfsnáms.

Mikilvægt er að mæta þeirri knýjandi þörf sem er á að fjölga ungu fólki sem velur að mennta sig innan ákveðinna löggiltra iðngreina og jafnframt að þetta verði skýr valmöguleiki fyrir fjölbreyttari hóp nemenda en nú er.

Því eru hér settir fram eftirfarandi áhersluþættir sem tengjast sérstaklega umræðu um hvítbók menntamálaráðherra.

Sveinsprófsstúdent – greið leið á háskólastigið

Að leiðin frá iðnnámi til brautskráningar á fyrstu háskólagráðu (Bakkalárgráðu) verði skýr og greið í huga grunnskólanemenda og foreldra. Framhaldsskólanámið verði þannig að nemendur sem ljúka sveins- og iðnmeistaranámi geti hafið nám á háskólastigi innan iðn- og tæknifræðigreina án þess að bæta við sig frumgreinanámi og iðnmeistaranámið nýtist betur í iðnfræðináminu.

Vinnustaðanám

Tryggja þarf að vinnustaðanámshlutinn auki gæði námsins og að bætt verði úr því sem að virkar hamlandi fyrir nemendur. Mikilvægt í þessum útfærslum er að það sé starfandi iðnmeistari í viðkomandi grein á vegum skólanna.

Fleiri vinnustaðanámsleiðir

 • Greinar með „langt“ vinnustaðanám geti boðið upp á tvær leiðir með lengri og styttri vinnustaðanámshluta og skólahlutinn breytist til móts við það.
 • Fyrirtækin taki einnig þátt í styttri leiðinni en endurskoða þarf hvernig það er útfært í samvinnu skóla og fyrirtækja.
 • Skólarnir geti, innan greina sem það þykir henta, boðið fyrri hluta vinnustaðanámsins í skólanum eða skipulagt samstarf við hóp fyrirtækja í atvinnulífinu.
 • Að fyrirtæki geti látið þjálfa upp og fengið viðurkenndan „iðnmentor“ í stað iðnmeistara og þannig séu tvær leiðir í boði fyrir fyrirtæki sem vilja taka þátt í að mennta nemendur á vinnustað.
 • Að ferilbækur, sem leiðarbók fyrir nemanda og kennara/meistara/leiðbeinanda yfir verkþætti sem nemandi á að geta sinnt að námi loknu, verði lögbundnar og þarf að vera lokið á fullnægjandi hátt fyrir töku sveinsprófs.

Utanumhald nemenda

Að framhaldsskólinn beri ábyrgð á nemanum í gegnum allt ferlið þannig að nemandinn standi aldrei einn (þ.e. sé hvorki hluti af skólasamfélaginu né með samning við fyrirtæki). Þetta krefst mikils samráðs milli framhaldsskóla og fyrirtækja. Það yrði hlutverk fræðslusetra eins og IÐUNNAR og Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins sem hafa þessa nánu tengingu sem þarf við atvinnulífið að móta þennan vettvang og vera samstarfsaðili framhaldsskólanna (sjá www.verknam.is ).

Sveigjanlegri vinnustaðanámssamningar

Samningar um verknám þurfa að vera sveigjanlegri þannig að nemandi geti farið á milli fyrirtækja og fyrirtækin beri ekki ábyrgð á öllu verknámi nemenda. Skoða þarf hvernig hægt er að taka upp frekara „víxlkerfi“.

Stýring – jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar

Að sett verði fjöldamörk fyrir nám á framhaldsskólastigi til að tryggja jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar  vinnuafls.