Prentiðnaður

Prentgeirinn rúmar mörg ólík störf en prentun, bókband og grafísk miðlun (prentsmíð) mynda undirstöðu hans. Prentfyrirtæki eru hátæknivædd þjónustufyrirtæki og hafa fáar starfsgreinar á undanförnum árum gengið í gegnum jafn stórstígar breytingar á tækni og prentiðnaðurinn.

Innan Samtaka iðnaðarins starfar starfsgreinahópur fyrirtækja í prent- og pappírsiðnaði en samtök atvinnurekenda í prenti voru meðal stofnenda SI fyrir rúmum tveimur áratugum. Starfsgreinahópurinn fundar að jafnaði tvisvar í mánuði að vetrinum til en sjaldnar á sumrin. Öllum félagsmönnum SI í prent- og pappírsiðnaði er velkomið að senda fulltrúa sinn á fundi starfsgreinahópsins en fulltrúi þeirra skal þó skipaður í samráði við forstöðumann greinarinnar innan SI. Fundargerðir frá fundum eru sendar reglulega til fyrirtækja SI í greininni.

Nánar

Samtök iðnaðarins vinna að hagsmunum fyrirtækjanna á öllum sviðum. Þau bæta almennt rekstrarumhverfi með því að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda og veita þeim stöðugt aðhald. Hlutverk SI er að fylgjast með alþjóðlegri þróun í atvinnurekstrinum og stuðla að hagkvæmni með því að innleiða nýjar og bættar aðferðir við stjórnun og rekstur fyrirtækja. Þá veita SI þjónustu og ráðgjöf og reyna af fremsta megni að gæta þess að farið sé að reglum á markaði. SI stuðla að samstarfi fyrirtækja í prenti, bæði innan greinarinnar og utan við önnur fyrirtæki m.a. með því að veita þjónustu tengda þverfaglegum málum á ýmsum sviðum. Þar mætti t.d. nefna gæðamál, launasamninga, lögfræði, markaðs- og kynningarmál, menntamál (t.d. Prenttæknistofnun), nýsköpun, staðlamál, stjórnun, umhverfismál, vinnumarkaðsmál og þannig mætti lengi telja.

Tengiliður hjá SI: Jóhanna Klara Stefánsdóttir, johanna@si.is

RGB myndvinnsluferli

Hvað er RGB myndvinnsluferli?

Hingað til hefur hið hefðbundna vinnsluferli í prentsmiðjum verið á þann veg að myndum sem ætlaðar eru til prentunar hefur verið snúið úr RGB litham í CMYK litham tiltölulega snemma. Margar prentsmiðjur hafa jafnvel gert þá kröfu til viðskiptavina sinna að þeir skili stafrænum myndum tilbúnum til prentunar í CMYK.

Fyrir utan þá staðreynd að þessi krafa gerir ósanngjarnar og óraunhæfar kröfur til viðskiptavina prentfyrirtækja, þá er þessi vinnutilhögun óæskileg að mörgu leiti. Í fyrsta lagi er með þessu móti litasvið mynda skert óþarflega snemma í ferlinu en það sem er kannski verra er að þegar myndskrám er breytt snemma í CMYK krefst það töluverðrar sérfræðikunnáttu að vinna við þær myndir, lagfæra kontrast, litjafnvægi og birtu svo eitthvað sé nefnt. RGB vinnsluflæði er að mörgu leiti mun einfaldara og skilvirkara til dæmis má nefna að grájafnvægi er mun auðveldara í RGB en CMYK.

Með bættri tækni er ICC litstýring í grafískum iðnaði orðin markviss og tiltölulega auðveld í framkvæmd og þar með rökréttara, þægilegra og skilvirkara að halda myndum í RGB litham eins lengi og mögulegt er, óháð því hvar þær enda að lokum. ICC vinnsluflæði gerir mögulegt vinna RGB myndir þar til þær eru orðnar eins góðar og þær geta orðið, vista þær sem RGB skrár og seinka umbreytingunni úr RGB í CMYK þar til komið er að því að búa til prentplötur. Rétt uppsett ICC litstýring gerir það mögulegt að birta RGB myndir á skjá og líkja eftir því hvernig þær muni koma út í prentun við tilteknar aðstæður. Þess vegna ættu RGB myndir sem unnar eru af natni, þar til þær líta vel út á skjánum, að skila sér vel þegar búið er að snúa þeim yfir í CMYK og prenta þær.

Með þessu móti er unnið með léttari skrár, allar leiðréttingar eru bundnar við eina grunnútgáfu af skránni og því þarf ekki að vinna sömu myndina sérstaklega fyrir mismunandi CMYK útgáfur af henni en síðast en ekki síst haldast meiri lit- og tónupplýsingar, lengur þar sem samþjöppun lita- og tónsviðsins sem er óhjákvæmileg þegar skrá er breytt úr RGB í CMYK verður ekki fyrr en kemur að því að senda skrána í rippingu. Auk þess er mun auðveldara og markvissara að lagfæra liti, grájafnvægi, kontrast og birtu í myndum sem eru í RGB litham, svo lengi sem skjárinn er rétt stilltur og myndvinnsluforritið rétt upp sett. Auðveldara og fljótlegra er að stilla myndir fyrir prentverk vegna þess að með forskoðun á skjá í gegnum réttan prentprófíl er auðvelt að sjá nokkurn vegin á skjánum hvernig myndin kemur til með að líta út í CMYK.

RGB myndir eru tilvaldar til geymslu, þar sem ekki hefur verið gerð á þeim nein samþjöppun tónsviðsins en slíkar lagfæringar geta þýtt að mjög mettaðir litir geta glatast. Þægilegt er að geyma RGB skrár sem nota þarf aftur og aftur við mismunandi prentaðstæður og síðan einfaldlega setja þær inn í þau skjöl sem á að prenta. Sama myndin er tiltæk til margra mismunandi útkeyrsla á mismunandi tækjum, ekkert þarf að eiga við RGB skrárnar eftir að þær hafa einu sinni verið lagfærðar þannig að hugsanlegir gallar í ljósmyndun eða óæskilegur litblær hafi verið fjarlægður. Það krefst ekki sérfræðiþekkingar á prentverki að vinna myndir í RGB litham, einungis heilbrigðar skynsemi, næmrar sjónar og rétt stilltra tækja.

Hvað er ICC litstýring?

Litur er mannleg skynjun sem verður til í flóknu samspili skynfæra okkar og þess ljóss sem endurkastast af hlutum og fyrirbrigðum í umhverfi okkar. Þegar við reynum að endurgera litina í umhverfinu, hvort sem er í prentun eða ljósmyndun, lendum við í tvennskonar vandræðum. Í fyrsta lagi geta ljósmyndir, hvort sem þær eru á filmu, pappír eða stafrænar aðeins sýnt lítinn hluta þeirra lita sem maðurinn skynjar. Tölvuskjáir geta sýnt enn færri liti og prentun fækkar svo litunum enn frekar.

Í öðru lagi túlkar og meðhöndlar hvert tæki sem notað er í litvinnslu litupplýsingar á sinn sérstaka máta, sem er ólíkur öllum öðrum og þegar litupplýsingar flytjast milli tækja brenglast þær og breytast. Þetta þýðir að séu sömu RGB eða CMYK tölur sendar til nokkurra tækja munu þau ekki mynda sömu litina. Til þess að fá tækin til að mynda sömu litina þarf að senda mismunandi RGB eða CMYK tölur tölur til þeirra. Þetta veldur því að það er ómögulegt er að segja til um hvaða lit einhverjar tilteknar RGB eða CMYK tölur eiga að framkalla.

ICC litstýring reynir að leysa þessi vandamál með því að ákvarða nákvæmlega hvaða liti ákveðnar RGB eða CMYK tölur eiga að merkja og endurgera liti á hinum ýmsu mismunandi tækjum af nákvæmni með því að breyta tölunum sem sendar eru til viðkomandi tækja.

ICC prófílar eru hornsteinar ICC litstýringar en prófílar eru tölvuskrár sem lýsa eiginleikum tiltekinna tækja og samhenginu milli RGB eða CMYK tölugilda sem ákveðið tæki getur numið eða myndað og hins skynjaða litar sem tölugildin eiga að tákna. Með því að hengja (Embedd) prófíla við tölvuskrár flytjast þær upplýsingarnar sem prófíllinn hefur að geyma um uppruna skráarinnar með myndskránni á milli tækja og forrita í vinnslukeðjunni og auðveldar þeim þar með að endurgera litina í skránni á þann hátt sem upphaflega var lagt upp með.

Það að hengja prófíl við mynd gerir það eitt að festa ákveðna þýðingu við RGB eða CMYK tölurnar í skránni, tölurnar sjálfar breytast ekki neitt. Ef skrá er vistuð og t.d ákveðinn skanna prófíll hengdur við hana er í raun aðeins verið að flytja þær upplýsingar með skránni að hún sé upprunin frá þessum tiltekna skanna og RGB tölurnar í henni þýði þá tilteknu liti sem þessi ákveðni skanni getur greint en ekki einhverja aðra liti. Það er góð regla að hengja alltaf prófíla við RGB skrár sem maður gerir en ekki ætti að hengja CMYK prófíla við CMYK skrár.

Litastillingar í Photoshop

Litastillinga valblaðið (ColorSettings) í Photoshop segir til um það hvernig forritið meðhöndlar litmyndir. Það er því mikilvægt að stilla valblaðið þannig að henti þeirri vinnslu sem fram fer hverju sinni. Samsvarandi stilli valblöð er að finna í öllum forritum CS pakkanna frá Adobe en þótt þau séu ekki eins útlits í öllum forritunum er tiltölulega auðvellt að átta sig á tilgangi einstakra stillinga í hverju forriti fyrir sig ef maður hefur sett upp litastillingar í einhverju þeirra. Það er því ráðlegt að fara hér í gegnum þessar stillingar í Photoshop, sem er eðli málsins samkvæmt mest notað til myndvinnsu af þessum forritum.

Stillingarnar er hægt að vista undir einhverju lýsandi nafni en þá er auðvellt að velja einfaldlega rétta stillingu í valglugganum efst á valblaðinu og því þarf ekki að fara í hvern einasta reit og velja þar viðkomandi stillingu í hvert sinn. Sömuleiðis er hægt að sækja tilbúnar stillingar eins og tilfellið er með þær stillingar sem henta RGB vinnsluferli því sem hér er til umræðu. Nánar verður vikið að því síðar hvernig þetta er gert. Við skulum fyrst skoða hvernig best er að setja litastillinga valblaðið í Photoshop upp fyrir RGB vinnsluferlið.

Það ætti alltaf að hafa hugfast að Photoshop notar alltaf litstýringu og það er ekki hægt að slökkva á henni. Ef notandinn vill ekkert af litstýringu vita og ætlar að slökkva á henni í forritinu gerist það eitt að forritið ályktar að sú stilling sem valin er á litastillinga valblaðinu sé sú sem notandinn vill nota. Þeir prófílar og þau vinnslulitrúm sem þar eru tilgreind eru því notuð sjálfvirkt við umbreytingu mynda án þess að notandinn fái nokkru um það ráðið. Oft er valblaðið stillt fyrir vinnslu fyrir netið (Web Graphics) þegar Photoshop er sett upp í fyrsta sinn. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að alls ekki má nota þessar stillingar fyrir prentvinnslu.

Það þarf því að fara yfir stillingarnar og gæta þess vel að þær séu í samræmi við þá vinnslu sem ætlunin er að framkvæma.

Litastillinga valblaðið er að finna undir Edit í Photoshop CS(X).Til að einfalda málið er best að nota lyklaborðsskipunina Command+Shift+K (Mac) eða Control+Shift+K (PC).

Þegar valblaðið opnast er rétt að haka í ferning sem merktur er “Advanced Mode” eða ” More options” í nýrri útgáfum en þá opnast fleiri stillimöguleikar.

Litastillingsa valblaðinu er skipt í fjögur svæði:

Working Spaces

Efsta svæðið á litastillinga valblaðinu í Photoshop er kallað “Working Spaces”. Á þessum hluta valblaðsins eru tilgreind þau vinnslulitrúm sem ætlunin er að nota við myndvinnslu í Photoshop. Það er eins og áður er sagt mikilvægt að velja vinnslulitrúm sem henta þeirri vinnslu sem fram fer í forritinu. Það eru engin fullkomin vinnslulitrúm sem henta alltaf en það eru litrúm sem henta betur til sumra verka en önnur.

RGB

Efst á „Working Spaces” svæðinu er að finna valglugga sem heitir RGB.

Ef smellt er með músinni á þennan glugga birtist felli valblað (Drop Menu) með nokkrum RGB vinnslulitrúms prófílum. Það skiptir miklu að velja þarna vinnslulitrúm sem hæfir þeim miðli sem verið er að vinna fyrir. Það er almennt samdóma álit þeirra sem að hönnun þessa nýja vinnsluferlis hafa komið að Adobe RGB (1998) sé besta RGB vinnslulitrúmið fyrir prentun og því er mælt með því hér að notendur velji það sem vinnslulitrúm á litastillinga valblaðinu. Adobe RGB (1998) er nokkuð stórt með D65 hvítpunkt og Gamma 2.2 og hentar því vel sem vinnslulitrúm fyrir prentun þar sem flestir prentanlegir litir rúmast innan þess.

CMYK

Næsti valgluggi heitir CMYK: og þarna þarf að velja þann prentprófíl sem best lýsir þeirri prentun sem verið er að vinna fyrir. Ef ætlunin er að vinna fyrir Morgunblaðið er að sjálfsögðu valinn prófíll sem þeir hafa gert og hægt er að nálgast á heimasíðu Landsprents en ef ætlunin er að vinna fyrir venjulega offset prentun er best að nota ISO Coated v2 300% (ECI). Það ber að hafa í huga að þegar Photoshop er sett upp í fyrsta skipti, fylgja því ýmsir CMYK prófílar, en þeir eru fæstir brúklegir. Það kann að vera freistandi fyrir suma að nýta sér þessa prófíla en það gefur betri raun að sækja ECI prófílana á Netið.

Sumar prentsmiðjur hafa reyndar gert sína eigin prentprófíla sem þá ættu að endurspegla nákvæmar þá prentun sem fer fram í viðkomandi prentsmiðju heldur en áðurnefndir ISO prófílar. Ef það er öruggt að viðkomandi verk verður prentað í einhverri ákveðinni prentsmiðju og sú prentsmiðja hefur sent frá sér prentprófíl ætti auðvitað að nota hann. ISO prófílarnir ættu samt í flestum tilfellum að skila ásættanlegri útkomu og eiga að vera nokkðu öruggt val. Það er rétt að geta þess hér að val á réttum CMYK prófíl skiptir ekki höfuð máli ef myndum er ekki breytt í CMYK í Adobe forritunum en það er einmitt einn tilgangurinn með því að koma á þessu nýja vinnsluferli að almennir notendur þurfi ekki að breyta RGB myndum í CMYK.

Ef menn vilja hins vegar sjá á skjánum sínum nokkurn vegin hvernig RGB myndirnar þeirra koma til með að prentast þarf að sjálfsögðu að velja réttan prófíl sem CMYK vinnslulitrúm.

Gray og Spot

Næstu tveir valgluggar heita Gray og Spot. Þessir valgluggar segja til um hvernig Photoshop meðhöndlar gráskalamyndir (Sv/Hv myndir) og sérliti.

Gráskalamyndir eru meðhöndlaðar á svipaðan hátt í Photoshop og litmyndir. Það er hægt að hlaða inn prófílum fyrir gráskalamyndir en þeir innihalda þó aðeins upplýsingar um tóngildi en hvorki hvítpunkt né svertu. Hægt er að velja nokkrar mismunandi tölur fyrir punktastækkun í Gray glugganum eða Gamma 1.8 eða 2.2. Það er hægt að stilla þessa valglugga á ýmsa lund en hér er mælt með því að halda þessu einföldu og velja Gamma 2.2 í Gray glugganum og 15% punktastækkunar prósentu í Spot valglugganum.

Color management policies

Næsti hluti litstillinga valblaðsins heitir „Color management policies” og þar velur notandinn það hvernig Photoshop bregst við myndskrám sem opnaðar eru eða hvernig forritð meðhöndlar skrár sem það býr til. Þetta svæði hefur þrjá valglugga: RGB, CMYK og Gray. Það er hægt að skrifa langt mál um það hvernig best sé að stilla þessa valglugga en hér er mælt með því að velja „Preserve embedded profiles” fyrir bæði RGB og CMYK valgluggana en hafa einfaldlega „Off” valið fyrir Gray.

„Preserve embedded profiles”þýðir einfaldlega að Photoshop virðir þá prófíla sem vistaðir eru með þeim skrám sem það opnar. Ef myndskrá er opnuð sem hefur t.d sRGB prófílinn viðhengdan (Embedded) en Adobe RGB (1998) er vinnslulirúms prófílinn á litastillingavalblaðinu, mun Photoshop ekki umbreyta skránni heldur halda henni í því litrúmi sem hún er þ.e. í þessu tilfelli sRGB.

Neðan við RGB, CMYK og Gray valgluggana á „Color management policies” hluta litastillinga valblaðsins eru þrír ferningar. Ekki er mælt með því hér að hakað sé í þessa ferninga. Ef hakað er í þá mun Photoshop sýna aðvörunarskilti í hver sinn sem skrá er opnuð sem hefur einhvern annan prófíl viðhangandi en þá sem eru skilgreindir sem vinnslulitrúms prófílar á litastillinga valblaðinu. Þeir sem tekið hafa saman þessar leiðbeining telja það óþarft að notendur séu að flækja málin um of með því að þurfa í sífellu að bregðast við einhverjum skiltum. Svo lengi sem leiðbeiningum þessum er fylgt er ekki í raun þörf á að láta Photoshop birta þessi skilti.

Hér að neðan má sjá skjámyndir af uppsetningu á litastillinga valblöðum Photoshop , Indesign, Illustrator sem æskilegt er að nota þegar unnið er fyrir prentverk. Sömuleiðis er hér mynd af stillingunum fyrir Acrobat.

Photoshop

CMM-Photoshop


Indesign

CMM-Indesign

 

Illustrator

CMM-Illustrator

Acrobat

CMM-Acrobat

Bridge

Í forritinu Bridge sem er hluti af CS pakkanum frá Adobe er hægt að setja upp stillingar fyrir öll ofantalin forrit, þannig að samræming sé á milli þeirra allra. Til þess að slíkt sé mögulegt þurfa að sjálfsögðu viðkomandi prófílar sem nota á, bæði RGB og CMYK prófílar að vera til staðar en sömuleiðis þarf að hafa svokallaða CSF skrá. Ef þessi skrá er notuð breytast allar stillingar í samræmi við þær upplýsingar sem skráin geymir en þannig þarf ekki breyta hverjum einasta lið á öllum stillivalblöðum allra forritanna.

Í Bridge er samsagt hægt að setja upp stillingar í öllum þessum CS forritum á einfaldan máta en á næstu mynd má sjá hvernig stillingarnar eru valdar í Bridge.

CMM-Bridge

CSF skráin sem setur sjálfkrafa upp þær stillingar sem hér hefur verið mælt með heitir SI_Prentun.csf  og hana ásamt ISO Coated v2 300% CMYK prófílnum er hægt að nálgast hér .

Adobe RGB (1998) prófíllinn fylgir Photoshop og er því til staðar á tölvunni eftir að forritið hefur verið sett upp. Til þess að prófílar séu auðveldlega tiltækir og þægilegt sé að nota þá er mikilvægt að vista þá á réttan stað í tölvunni. Þetta þarf að sjálfsögðu að gera við ISO Coated v2 300% þegar hann hefur verið sóttur. Slóðirnar fyrir prófílana eru sem hér segir:

Mac: /Library/Application\ Support/Adobe/Color/Profiles/Recommended/

pc: C:\Program Files\Common Files\Adobe\Color\Profiles\Recommended

CSF skrárnar þarf einnig að vista á réttum stöðum í tölvunni en það er gert sem hér segir:

Mac: / Library/Application\ Support/Adobe/Color/Settings/Recommended/

PC: C:\Program Files\Common Files\Adobe\Color\Settings\Recommended

Þegar PDF skjöl eru gerð út úr Adobe forritunum er mikilvægt að það sé gert með réttum stillingum, svo kölluðum „job options“. Með því að vista tilbúnar job option skrár á tölvunni og taka þær síðan inn í Indesign forritið er tryggt að PDF skjöl séu gerð samkvæmt forskrift þessara leiðbeininga.

Job Option skráin heitir SI_PDF_Prentun og hana má nálgast hér .

Þegar þessari skrá hefur verið hlaðið niður á tölvuna þarf að vista hana á eftirfarandi stað:

Mac: /Library/Application\ Support/Adobe/Adobe\ PDF/Settings/

PC: C:\Documents and Settings\All Users\Application Data\Adobe\Adobe PDF\Settings

mynd22

mynd4

Vinnsluferlið

Þegar búið er að setja forritin upp á þann hátt sem hér hefur verið lýst er ekkert því til fyrirstöðu að vinna eftir hinu nýja vinnsluferli. Kostirnir við slíkt vinnsluferli hafa þegar verið tíundaðir en skilyrði fyrir að slík vinnsla skili þeim árangri sem til er ætlast eru að sjálfsögðu rétt vinnubrögð. Það skal þó sérstaklega áréttað hér að þessar leiðbeiningar og hið nýja vinnsluferli sem hér er kynnt til sögunnar á einungis við stafrænar ljósmyndir (pixlamyndir eða bitmap) en ekki vektor teikningar sem gerðar eru í Indesign eða Illustrator.

Það er í sjálfu sér ekki neitt sem mælir gegn því að notendur sendi áfram frá sér CMYK myndir en það hlýtur þó að teljast flestum til hagsbóta að senda RGB myndir til prentunar, eins og þegar hefur verið lýst. Æskilegast er að vinna RGB myndirnar í Adobe RGB (1998) og senda þann prófíl með skránum, það er að segja hengja hann við skrárnar. Það er hins vegar ekki nauðsynlegt að vinna myndir í þessu litrúmi ef menn af einhverjum orsökum vilja ekki gera það. Notendur geta með öðrum orðum ráðið því hvaða RGB prófíl þeir nota við vinnslu mynda og hönnun skjala en það er þó mikilvægt að hafa í huga að RGB prófílar með stórt litasvið valda því oft að væntingar til útkomunnar í prentun verða óraunhæfar, þar sem ómögulegt er að prenta alla liti sem slíkir prófílar geta rúmað. Það er því yfirleitt best að vinna myndir fyrir prentverk í litrúmi sem er nægjanlega stórt fyrir prentun en þó ekki of stórt. Dæmi um slíkt litrúm er til dæmis Adobe RGB 1998. Það sem skiptir þó mestu máli er að hengja alltaf þá RGB prófíla sem notaðir eru sem vinnslulitrúms prófílar við skrárnar þegar þær eru vistaðar. Það er algjörlega frumskilyrði fyrir því að vinnsla samkvæmt þessu ferli gangi upp. Aðeins þannig er hægt að tryggja nákvæmlega rétta vörpun úr RGB í CMYK í prentsmiðjum. Ef enginn prófíll er hengdur við myndir gera vinnslukerfi prentsmiðjanna ráð fyrir að myndin hafi verið unnin í Adobe 1998 RGB og vörpunin yfir í CMYK mun vera framkvæmd samkvæmt því. Þetta á að skila viðunandi árangri í flestum tilfellum en þó er öruggast til þess að tryggja nákvæmni í umskráningu milli litrúma að hengja RGB vinnsluprófílinn sem notaður var við skrána þegar hún er vistuð. Það er rétt að benda á að yfirfærsluaðferðin sem notuð verður við þessar kringumstæður er Perceptual sem á að skila góðum árangri í flestum tilfellum.

Ef notendur kjósa að senda áfram frá sér CMYK myndir þurfa þeir nú ekki að velkjast lengur í vafa um hvaða CMYK prófíl er rétt að nota. ISO Coated v2 300% hentar í flestum tilfellum nema um sé að ræða prentun í dagblöð, eins og áður hefur verið vikið að. Það er mælt með því að notandinn setji ISO Coated v2 300% upp á tölvunni jafnvel þó hann sendi ekki frá sér neinar myndir í CMYK litham. CMYK prófíllinn hentar vel ef notendur vilja skoða í Photoshop hvernig myndir koma til með að líta út í prentun (soft proof).

Það ætti hins vegar að forðast að hengja CMYK prófíla við þær CMYK myndir sem sendar kunna að verða til prentunar.

Þegar PDF skjöl eru flutt út úr Photoshop og Indesign er mikilvægt, eins og áður er sagt, að réttar stillingar eða „job option“ séu valdar. Hér hefur verið minnst á hvaða stillingar er um að ræða og hvernig á að setja þær upp. Það er mikilvægt að hafa í huga að þegar PDF skrár eru gerðar á eingöngu að gera þær með því að flytja þær út úr Indesign(Export), aldrei ætti að prenta slíkar skrár út úr Illustrator. Ef þörf er á að breyta einhverri tiltekinni Illustrator skrá í PDF þarf að taka hana (.ai skrána)inn í Indesign (Place)og flytja hana síðan út úr Indesgin sem PDF (Export).

 

Breytingar á RGB myndvinnsluferli

Breytingar á upplýsingum um RGB- myndvinnsluferli

Nú stendur yfir vinna við að uppfæra leiðbeingingar varðandi RGB-myndvinnsluferlið sem hefur verið notað hér á landi undan farin ár. Helstu ástæður breytinganna eru uppfærslur Adobe forritanna og villur sem komið hafa á ljós síðustu mánuði í svokallaðri Joboption í InDesign á einstaka tölvum. Í upplýsingaglugganum undir Output eiga undir Profile Inclusion Police þessar upplýsingar að vera eins og eru skv. skjámyndinni hér að neðan að vera.


Skjámyndin hér að neðan sýnir hinsvegar hvernig þetta á EKKI að vera:

Eins og áður er getið stendur yfir vinna að uppfæra þessar leiðbeiningar og fleiri sem unnið er að vegna breyttra aðstæðna og verður reynt að koma þeim upplýsingum á framfæri fljótlega.


Vinnsla svart/hvítra mynda

Þegar um svart/hvítar myndir er að ræða er vanalega best að breyta myndunum í gráskalamyndir í Photoshop (grayscale) og hengja við þær prófílinn sem notaður er í litastillingum forritsins (15% dot gain). Þegar þetta er gert prentast myndirnar einungis með svarta prentfarfanum og engin hætta er á litaflökti, það er að segja að myndirnar taki á sig einhvern tiltekinn litblæ vegna mismunandi þekju eða punktastækkunnar á einstökum prenteiningum prentvélarinnar. Þess ber þó að geta að með þessari aðferð næst ekki mjög djúpur svartur litur þannig að ef það er aðalatriði, til dæmis í ljósmyndabókum eða öðrum slíkum verkum þar sem litáferð skiptir miklu, er skynsamlegra að notast við grátóna RGB myndir. Slíkar myndir rippast sem venjulegar RGB myndir og prentast því með öllum fjórum prentförfunum. Við slíkar myndir á að sjálfsögðu að hengja þann vinnsluprófíl sem notaður hefur verið, helst Adobe RGB (1998). Þegar þessar myndir eru prentaðar er vissulega sú hætta til staðar að myndirnar taki á sig tiltekinn litblæ ef til dæmis punktastækkun er meiri í einum lit en öðrum. Á hinn bóginn nást fram betri og dýpri svartir litir með fjórum prentlitum en einum.

Önnur lausn er reyndar að útbúa tvítónamyndir (Duo Tone) í Photoshop en þá munu myndirnar prentast með svörtum farfa og einhverjum aukalit (Pantone) sem henta þykir. Þessi tegund prentunar er væntanlega dýrari en hinar tvær en með þessu móti er hægt að komast hjá litaflökti en jafnframt ná fallegum og djúpum tónum í svörtum lit. Það er hins vegar nokkur kúnst að útbúa slíkar myndir og krefst kunnáttu og þjálfunnar.