Iðnaður skapar 29% landsframleiðslunnar

Íslenskur iðnaður er umfangsmikill í íslensku efnahagslífi. Innan iðnaðar er fjölbreytt flóra af fyrirtækjum sem eru samofin öllum sviðum efnahagslífsins. Iðnaðarstarfsemi hér á landi er því afar mikilvægur þáttur í gangverki hagkerfisins sem skapar margvísleg störf. Skapaði greinin ríflega 29% landsframleiðslunnar með beinum hætti á árinu 2016 eða 705 ma.kr. Ef með er tekið óbeint framlag greinarinnar til verðmætasköpunar hagkerfisins er umfang hennar umtalsvert meira.   


Hlutur-idnadar-lokautgafaAf einstökum greinum iðnaðar má nefna að byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð vó 6,8% af verðmætasköpun hagkerfisins í fyrra, starfsemi  rafmagns-, hita- og vatnsveitu 5,0% og framleiðsluiðnaður án fiskvinnslu 8,4%. Upplýsinga- og fjarskiptaiðnaðurinn skapaði síðan 5,1% landsframleiðslunnar í fyrra og fleiri þættir hugverkaiðnaðarins 3,8%. 

Iðnaður að baki a.m.k. þriðjungi hagvaxtarins

Hlutur iðnaðar í hagvaxtarþróun síðustu ára hefur verið umtalsverður. Um þriðjungur hagvaxtarins í núverandi efnahagsuppsveiflu má rekja til iðnaðar með beinum hætti. Óbein áhrif eru síðan umtalsverð þ.e. ef tekið er tillit til allra þeirrar starfsemi sem tengist verðmætasköpun iðnfyrirtækja. 

Hefur hlutur iðnaðar í verðmætasköpun hagkerfisins verið að aukast undanfarið sérstaklega vegna mikils vaxtar í þeim greinum iðnaðar sem eru að þjónusta innlenda eftirspurn. Iðnfyrirtæki sem eru í hvað mestri samkeppni við erlend hafa hins vegar liðið fyrir hátt gengi krónunnar. Það hefur þó verið vöxtur. 

Sambúð iðnaðar við efnahagssveiflur hér á landi hefur verið erfið. Hefur sveiflunum fylgt miklar breytingar í starfsskilyrðum iðnfyrirtækja. Eftirspurn, framboð framleiðsluþátta og verð þeirra ásamt  gengi krónunnar hafa þannig verið á mikilli hreyfingu með efnahagsframvindunni. Hefur þetta staðið í vegi fyrir uppbyggingu iðnaðar hér á landi, fjárfestingu greinarinnar og framleiðniþróun innan hennar. Koma sveiflurnar þannig niður á verðmætasköpun greinarinnar og hagkerfisins alls.