31. jan. 2008

Virkjum kraft kvenna í iðnaði

Samtök iðnaðarins standa fyrir opnum fundi á Hótel Borg 12. febrúar næstkomandi um stöðu kvenna í iðnaði. Fundurinn ber yfirskriftina Virkjum kraft kvenna í iðnaði og hefst klukkan 8.00 með morgunverði í boði SI. Dagskráin hefst síðan klukkan 8.30 og lýkur klukkan 10.30.

Fundurinn er öllum opinn en sérstök áhersla lögð á að ná til kvenna í stjórnenda- og millistjórnendastöðum. Skráning fer fram á mottaka@si.is.

Fundurinn er liður í starfi SI við að skoða hlut kvenna í starfi og stjórn aðildarfyrirtækja sinna. Það vantar fólk í iðnfyrirtæki og gríðarlegan mannauð er að finna hjá konum sem fyrirtæki ættu að geta sótt í. En þegar hlutföll karla og kvenna meðal framkvæmdastjóra, fjármálastjóra og starfsmannastjóra í fyrirtækjum SI eru skoðuð kemur í ljós að karlmenn eru í miklum meirihluta í stjórnendastöðum, sérstaklega í stærstu fyrirtækjunum. Þess vegna viljum við velta upp spurningum á borð við: Af hverju sækja konur ekki í iðngreinar? Hvernig snýr umhverfi iðnfyrirtækja að konum? Hvað þarf til að konur sæki meira í iðnað?

Búið er að setja saman metnaðarfulla dagskrá. Á fundinum taka til máls Aðalheiður Héðinsdóttir í stjórn SI, Yrsa Sigurðardóttir, tæknistjóri VIJV, Gyða Margrét Pétursdóttir, félags- og kynjafræðingur og Auður Hallgrímsdóttir fjármálastjóri Járnsmiðju Óðins. Auk þeirra kemur fram Helga Braga Jónsdóttir leikkona.

Að loknum erindum verða pallborðsumræður með þátttöku Birnu Pálu Kristinsdóttur framkvæmdastjóra hjá Alcan, Karenar Kristjönu Ernstsdóttur verkfræðings hjá Ístaki og Aðalheiðar Héðinsdóttur, SI.

Fundarstjóri og spyrill er Erna Indriðadóttir.