Fréttasafn
  • Helgi Magnússon

Vandræðalegur umhverfisráðherra

11.3.2010

Helgi Magnússon, formaður SI skrifaði grein í Morgunblaðið þann 8. mars sl. þar sem hann svarar gagnrýni Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra þess efnis að SI einblíni á virkjanir og stóriðju þegar kemur að uppbygginu efnahags- og atvinnulífs.

Greinina má lesa hér.

VANDRÆÐALEGUR UMHVERFISRÁÐHERRA

Eftir Helga Magnússon

Margháttaðar raunir virðast hrjá Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, þessa dagana. Hún sagði m.a. í sjónvarpsviðtali sl. föstudag: „Það er raunalegt að Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins einblíni á virkjanir og stóriðju.“ Þarna er hún að bregðast við ræðu minni frá Iðnþingi þann 4. mars sl. en lét þess jafnframt getið að málflutningur minn væri ekki svaraverður um leið og hún svaraði honum í sjónvarpinu og svo Morgunblaðinu daginn eftir! Í ræðunni sagði ég m.a.: „ Ástæða þess að svo illa gengur að endurreisa efnahag Íslendinga er einkum sú að það eru hér áhrifamikil öfl sem virðast vera á móti hagvexti og beita afli sínu gegn endurreisn atvinnulífsins vegna þess að þau telja að hag landsmanna verði betur borgið í framtíðinni án hagvaxtar.“

Svandís Svavarsdóttir virðist hafa umhverfst af reiði yfir þessum ummælum. En þeir taka til sín sem eiga.

STERK UNDIRALDA

En „einblínum“ við á virkjanir og stóriðju? Ég svara því með tilvísun í fyrrgreinda ræðu mína: „Til viðbótar við þau margháttuðu tækifæri sem orkuauðlindin gefur okkur er gríðarlega sterk undiralda í nýsköpun, hátækni, hönnun og sprotafyrirtækjum. Tækni-og hátæknifyrirtæki nýta nú aukið svigrúm og eiga betra með að laða til sín menntað og hæft fólk á öllum sviðum. Greinar sem féllu í skuggann af bönkunum á blómatíma þeirra eru nú að fá sitt tækifæri. Hátt menntunarstig þjóðarinnar mun ráða miklu um endurreisnina.

Í mótbyr hugsar fólk með öðrum hætti. Menn þurfa að bjarga sér og leggja sig meira fram. Við slíkar aðstæður verða til nýjar hugmyndir, nýjar lausnir. Ég leyfi mér að spá því að seiglan í eðli Íslendinga muni leiða af sér marga mikilvæga frumkvöðla sem spretta upp úr þeim einkennilega jarðvegi sem nú blasir við. Til verður fjöldi nýrra starfa með þeim hætti. En það tekur langan tíma og því þarf að blanda saman hefðbundnum lausnum og nýjum til að ná þeim háleitu markmiðum að skapa 35.000 störf á næstu 10 árum.“

Þó við hjá Samtökum iðnaðarins teljum mikilvægt að nýta þau tækifæri sem gefast hér á landi í orkufrekum iðnaði, bendir framangreind tilvitnun ekki til að við „einblínum“ á virkjanir og stóriðju.

Ennfremur kom fram í ræðu minni: „Tækifærin eru allt í kringum okkur. Gamlar og nýjar stoðir atvinnulífsins geta skilað okkur uppgangi að nýju. Við erum þrátt fyrir allt svo vel sett að eiga ómetanlegar auðlindir í orku, vatni, fiskimiðum, landinu sjálfu – og ekki síst vel menntaðri þjóð sem býr yfir þeim einkennum að vilja vinna, vilja bjarga verðmætum og vilja ná settu marki. Við verðum að leysa þessa krafta úr læðingi. Við verðum að rjúfa þá kyrrstöðu sem nú ríkir. Við verðum að rjúfa þann vítahring sem Íslendingar hafa komið sér í með allt of mörgum röngum ákvörðunum og ómarkvissri stefnu eftir þá örlagaríku atburði sem dundu hér yfir árið 2008.“

Svandís sagðist í fyrrnefndu sjónvarpsviðtali vera sammála mér um að þörf sé fyrir innspýtingu í hagkerfið. „Það þurfi að gera á forsendum umhverfisins og samfélagsins“, sagði hún orðrétt.

Í ræðu minni á Iðnþingi sagði ég m.a.: „Við teljum að unnt sé að endurreisa efnahag landsins býsna hratt ef nægur stuðningur ráðandi afla fæst við skynsamlega hagvaxtarstefnu sem hrint yrði í framkvæmd hið fyrsta án þess að gengið væri á svig við eðlilega náttúruverndarstefnu.“

Ég tel að það sé í þágu samfélagsins að vinna ötullega að því að skapa 35.000 ný störf á næstu 10 árum og ráðast gegn atvinnuleysisbölinu en þetta risaverkefni var megináhersluatriði Iðnþings. Ég tel að það sé einnig í þágu samfélagsins að breikka skattstofnana með aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu til þess að auka skatttekjur og gera ríki og sveitarfélögum þannig kleift að verja velferðar-og menntakerfi landsins. Ég tel hins vegar að hækkun skatthlutfalla á fallandi skattstofna dýpki kreppuna og minnki líkur á endurreisn efnahagslífsins – en það er því miður ríkjandi skattastefna núverandi stjórnvalda.

SAMHLJÓMUR MEÐ IÐNAÐARRÁÐHERRA

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, flutti yfirgripsmikla og vandaða ræðu á Iðnþingi sl. fimmtudag (sjá ræðuna hér). Málflutningur hennar mæltist vel fyrir á þinginu og þótti okkur prýðilegur samhljómur með áherslum hennar og Samtaka iðnaðarins. Ég hvet umhverfisráðherra til að kynna sér efni ræðu Katrínar og velta fyrir sér því góða jafnvægi sem þar er að finna.

Katrín Júlíusdóttir sagði m.a.: „Brýnasta viðfangsefnið um þessar mundir er að koma stórum verkum og smáum á skrið fyrir vorið til þess að bæta atvinnuástandið. Hvort sem það eru viðhaldsverkefni um land allt eða virkjanir. Ég tel að við eigum að leggja allt kapp á að ýta undir beina erlenda fjárfestingu í þau stórverkefni sem framundan eru enda búum við nú við löggjöf sem tryggir vatnsauðlindirnar og veiturnar hjá ríki og bæjarfélögum en heimilar einkafjármagn í orkuöflun og orkusölu. Ég geri ekki greinarmun á innlendri og erlendri fjárfestingu heldur aðeins á traustum fjárfestum og ótraustum. .............. Atvinnuleysi mun verða okkar helsta böl á Íslandi næstu misseri komi ekki til nýrra fjárfestinga. Góðu fréttirnar eru að það er rúm fyrir stórframkvæmdir í hagkerfinu á næstu misserum án þess að þær þurfi að ryðja burt sprotum og nýskapandi starfsemi. Hér er því lag sem við þurfum að hagnýta okkur.“

Að lokum vil ég nefna að Svandís Svavarsdóttir hvatti Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins til að fara í gegnum hugmyndafræðilega sjálfskoðun enda værum við á köflum „vandræðalega gamaldags“. Ástæða er til að þakka ráðherranum þessa vingjarnlegu ábendingu. Samtökin munu hins vegar ekki taka að sér að leiðbeina Vinstri grænum með neinum hætti um það hvernig þau ættu helst að haga vinnubrögðum sínum og stefnu – enda virðast þau vera alveg einfær um að ráða málum sínum af yfirvegun og heilindum.

Morgunblaðið 8. mars 2010