Kjósum betra líf

Leiðari

23. okt. 2017

Verðmætasköpun sem er byggð á öflugu, fjölbreyttu og samkeppnishæfu atvinnulífi er forsenda góðra lífskjara. Samkeppnishæfni íslensks iðnaðar ræðst að miklu leyti af þeirri umgjörð sem stjórnvöld skapa. 

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar grein í Morgunblaðinu í dag sem fer hér á eftir:

Verðmætasköpun sem er byggð á öflugu, fjölbreyttu og samkeppnishæfu atvinnulífi er forsenda góðra lífskjara. Samkeppnishæfni íslensks iðnaðar ræðst að miklu leyti af þeirri umgjörð sem stjórnvöld skapa. Menntun, nýsköpun, samkeppnishæft og stöðugt starfsumhverfi og öflugir innviðir eru grunnur fyrir framþróun lífskjara hér á landi enda mynda þau grunn að öflugu atvinnulífi og þar með blómlegu mannlífi. 

Ein stærsta áskorun nýrrar ríkisstjórnar er að finna leiðir til að auka stöðugleika og tryggja samkeppnishæft starfsumhverfi sem laðar til landsins fólk og fyrirtæki. Lækka þarf tryggingagjald án tafar og ljúka þarf endurskoðun peningastefnu með það að markmiði að tryggja betur stöðugleika við skilyrði lægri vaxta. 

Innviði landsins þarf að þróa og uppfæra í takt við þarfir samfélagsins og framtíð þess enda eru öflugir innviðir forsenda þess að atvinnulíf og mannlíf blómstri um land allt. Í nýlegri skýrslu um ástand innviða sem Samtök iðnaðarins gáfu út kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf nemi 372 milljörðum króna, mest í raforkuflutningum, vegakerfi, fráveitum og fasteignum hins opinbera. Nýta á slaka sem reiknað er með að myndist í hagkerfinu á næstu misserum til að byggja upp innviði. Fjárfesting í dag er hagvöxtur á morgun. Ný ríkisstjórn verður að setja uppbyggingu innviða í forgang og ljóst er að stórátak þarf til. 

Það verkefni bíður nýrrar ríkisstjórnar að marka skýra stefnu um það hvernig nemendur á Íslandi verða undirbúnir til að mæta kröfum framtíðarinnar. Að sama skapi þarf menntakerfið að mæta þörfum atvinnulífsins í meira mæli. Fjölga þarf iðn-, verk-, tækni- og raungreinamenntuðum á vinnumarkaði. Auka á áherslu á sköpun og hugmyndaauðgi í menntakerfinu. Gera á forritun að skyldufagi í grunn- og framhaldsskólum. 

Hugvit verður drifkraftur framfara á 21. öldinni. Fjórða iðnbyltingin er hafin og framundan eru tækniframfarir sem munu hafa áhrif á íslenskt samfélag. Ísland á að vera í fremstu röð í nýsköpun í heiminum enda er hugvit óþrjótandi auðlind. Hækka á endurgreiðsluhlutfall rannsókna- og þróunarkostnaðar fyrirtækja til að hvetja enn frekar til slíkra verkefna. Árangur þess hefur verið umtalsverður hingað til.

Með umbótum á þessum sviðum má áfram skipa Íslandi sæti í fremstu röð þeirra landa þar sem best er að búa. Kjósum betra líf þann 28. október.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI

Morgunblaðið, 23. október 2017