Fjórða stoðin og efling nýsköpunar

17. maí 2021

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, skrifar um nýsköpun í tímaritinu Vísbending. 

Fjórða stoðin í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins hefur myndast. Hugverkaiðnaður skapaði tæp 16% af útflutningstekjum árið 2020 sem þýddi meðal annars að afgangur var af þjónustuviðskiptum í fyrra þrátt fyrir hrun einnar stærstu útflutningsgreinarinnar, ferðaþjónustu. Hugverkaiðnaður, sem að miklu leyti er drifinn áfram af fjárfestingu í nýsköpun, hefur alla burði til að stækka frekar á komandi árum og verða burðarstoð í verðmætasköpun hér á landi. Alþjóðleg samkeppni um hugvit og þekkingu er hins vegar hörð. Ef Íslandi á að farnast vel í þeirri samkeppni þarf stöðugt að huga að samkeppnishæfni landsins, meðal annars með tilliti til þeirra skilyrða sem atvinnulífið býr við þegar kemur að fjárfestingu í nýsköpun. Þriðji áratugur þessarar aldar getur hæglega orðið áratugur nýsköpunar og hugverkaiðnaðar ef réttar ákvarðanir eru teknar núna en það má engan tíma missa. Þetta er stærsta efnahagsmálið og það öflugasta sem við getum gert til að rétta efnahag landsins við eftir heimsfaraldurinn.

Undanfarin ár hafa verið stigin stór skref í að efla hvata og skilyrði til nýsköpunar þannig að sáð hefur verið í frjóan jarðveg og tími uppskeru gæti verið framundan. Afrakstur þess er nú þegar farinn að líta dagsins ljós, en vöxtur hugverkaiðnaðar og aukin fjárfesting í rannsóknum og þróun á síðustu tveimur árum bera þess merki. Vísbendingar eru um að fjárfestingar í nýsköpun hafi aukist talsvert árið 2020 en með því eru fyrirtæki landsins og fjárfestar að fjárfesta í hagvexti framtíðar og styrkja hugverkaiðnað, fjórðu stoð útflutnings, enn frekar í sessi. Mörg ríki heims hafa sett sér markmið í þessum efnum og er þar gjarnan horft til fjárfestinga í rannsóknum og þróun (R&Þ) sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, enda er það skýr mælikvarði á stig nýsköpunar í hagkerfinu. Veruleg aukning varð á fjárfestingum í R&Þ á árinu 2019 samkvæmt nýlegum gögnum Hagstofunnar. Samtals námu fjárfestingar í R&Þ tæplega 71 milljarði króna sem var 2,35% af landsframleiðslu og hefur ekki mælst hærra. Þar af var um 70% frá fyrirtækjum, eða tæpir 49 milljarðar og ríflega 30% frá háskólum og opinberum stofnunum, eða um 22 milljarðar króna. Árið áður námu fjárfestingar í R&Þ tæplega 57 milljörðum króna eða 2% af landsframleiðslu. Margt bendir til að árið 2020 hafi fjárfestingin verið enn meiri.

Skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna

Stig fjárfestingar í rannsóknum og þróun í atvinnulífinu ræðst af mörgum þáttum. Fjárfesting í R&Þ leiðir til þess að nýjar vörur koma á markað, ný tækni verður til og verðmæti skapast. Árið 2009 voru sett lög hér á landi sem veita fyrirtækjum rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni, með öðrum orðum geta fyrirtæki sem hlotið hafa staðfestingu frá Rannís fengið tiltekinn frádrátt frá álögðum tekjuskatti af útlögðum kostnaði vegna rannsókna- og þróunarverkefna. Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti var fyrst um sinn 100 milljónir króna. Þakið hækkaði árið 2016 í 300 milljónir króna og tvöfaldaðist síðan árið 2019 í 600 milljónir króna á ársgrundvelli. Árið 2020 voru enn stærri skref stigin þegar þakið var hækkað í 1.100 milljónir króna. Á sama tíma hækkaði hlutfall endurgreiðslu úr 20% í 25% fyrir stór fyrirtæki og í 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Markmið laganna er að efla rannsókna- og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja hér á landi. Með lagasetningunni árið 2009 fetaði Ísland í fótspor flestra annarra landa en mikil samkeppni er á heimsvísu um að laða að erlenda fjárfestingu, stuðla að uppbyggingu þekkingarstarfa og auka tekjur af hugverkum (e. intellectual property). Öll ríki í efstu tíu sætum alþjóðlega nýsköpunarmælikvarðans (e. Global Innovation Index), sem gefinn er út af Alþjóðahugverkastofnuninni (e. World Intellectual Property Organization, WIPO), leggja áherslu á að byggja upp öflugt stuðningsumhverfi fyrir rannsóknir- og þróun.

Með lagabreytingunum 2020, hækkun á þaki og endurgreiðsluhlutfalli er staða Íslands orðin mjög sterk hvað varðar hvata til fjárfestinga í nýsköpun. Breytingar þessar hafa nú þegar haft jákvæð áhrif og fylgt aukin umsvif enda er um að ræða jákvæða efnahagslega hvata til fjárfestingar í nýsköpun á forsendum markaðarins. Fjölmörg dæmi eru um fyrirtæki í hugverkaiðnaði sem réðust strax í auknar fjárfestingar í rannsóknum og þróun í kjölfar hækkunar á endurgreiðslum. Hafði það í för með sér að ný, verðmæt störf urðu til en stærsti kostnaðarliður við rannsóknir og þróun er launakostnaður sérfræðinga. Þær breytingar sem hafa átt sér stað á hvötum til fjárfestinga í rannsóknum og þróun hafa haft og munu áfram hafa jákvæð áhrif á ákvarðanir íslenskra hugverka- og tæknifyrirtækja um hvar þau staðsetja og stækka rannsóknar- og þróunarverkefni og þar með stuðla að því að afrakstur nýsköpunar leiði til verðmætasköpunar hér á landi með tilheyrandi fjölgun starfa og útflutningstekjum. Breytingarnar á kerfinu 2020 voru þó tímabundnar til tveggja ára og nauðsynlegt að festa þær í sessi. Markmiðið með því er að skapa fyrirsjáanleika í rekstri fyrirtækja og gera þeim kleift að gera langtímaáætlanir um þróunarverkefni hér á landi enda myndi slíkt auka fjárfestingu í nýsköpun.

Fjárfestingar í vaxta- og sprotafyrirtækjum

Stuðningskerfi við nýsköpun á Íslandi hvílir í dag á tveimur meginstoðum. Annars vegar skattahvötum vegna rannsókna og þróunar og hins vegar styrkjum frá Tækniþróunarsjóði, en framlög ríkisins til sjóðsins hafa aukist undanfarin ár. Þess utan hefur verið til staðar skattahvatakerfi til handa englafjárfestum sem var innleitt með sérstökum nýsköpunarlögum 2016. Með fyrrnefndum lögum kom inn ákvæði sem heimilaði nýsköpunarfyrirtækjum að sækja um rétt til þess að heimila einstaklingsfjárfestum að lækka tekjuskattsstofn sinn um 50% af fjárfestingu vegna fjárfestingar í fyrirtækinu, sem í reynd þýddi um 10-23% afslátt af fjárfestingu eftir skattþrepi viðkomandi fjárfestis. Þessi réttur stendur til boða fyrirtækjum með 25 starfsmenn eða færri og minna en 650 m.kr. í veltu og/eða efnahagsreikning. Í byrjun voru töluverðar takmarkanir á þessu úrræði þar sem hvorki starfsmenn né stjórnarmenn viðkomandi fyrirtækis, né aðilar þeim tengdum, máttu nýta þetta úrræði, sem útilokaði líklegustu fjárfestana. Auk þess voru ákvæði í lögunum sem leiddu til þess að ef einstaklingur tók upp samband við fyrirtækið eftir að hafa fjárfest í því þurfti viðkomandi aðili að endurgreiða skattaafsláttinn með 15% álagi. Þessu til viðbótar þurfti viðkomandi fyrirtæki að halda sig innan stærðarmarka (25 starfsmenn og 650 m.kr. tekjur/efnahagsreikningur) og ekki lenda í fjárhagsvanda í þrjú eftir að fjárfesting átti sér stað. Ef þau skilyrði voru rofin þurftu fjárfestar að endurgreiða skattaafsláttinn með 15% álagi. Lítill skattaafsláttur og mikil áætta á því að fjárfestar þyrftu að endurgreiða skattaafsláttinn minnkaði hvata íslenskra nýsköpunarfyrirtækja og fjárfesta verulega til að nýta þetta úrræði. Frá setningu laganna hafa stjórnvöld sniðið helstu vankanta af lögunum. Í lok árs 2018 voru felld á brott ákvæðin um að starfsmenn og stjórnarmenn mættu ekki nýta skattaafsláttinn og að fyrirtæki mættu ekki lenda í fjárhagsvanda eða stækka of mikið næstu 3 ár eftir fjárfestingu. Á árinu 2020 var frádráttarréttur einstaklinga vegna fjárfestinga í nýsköpunarfélögum síðan hækkaður úr 50% í 75% af fjárfestingu, tímabundið sem hluti af aðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Í því felst að afsláttur af fjárfestingu hækkar úr 10% - 23% upp í 16,5% - 35%.

Eigi umræddir skattahvatar að verða að þriðju meginstoðinni í stuðningskerfi nýsköpunar er rétt að horfa til árangurs annarra ríkja sem hafa innleitt sambærileg kerfi. Breska skattahvatakerfið hefur hlotið hæstu einkunn í úttekt Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á slíkum kerfum í Evrópu en Bretland hefur verið að ná mjög góðum árangri í nýsköpun. Einn þriðji hluti af allri fjárfestingu í nýsköpun í Evrópu á sér stað í Bretlandi. Ef Ísland vill búa fjárfestum sambærileg skilyrði og í Bretlandi þyrfti að hækka hlutfall frádráttarréttar einstaklinga vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum úr 75% í 100%.

Önnur úrræði og aðgerðir stjórnvalda

Stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir aðgerðir til að örva nýsköpun á þessu kjörtímabili en betur má ef duga skal. Aðgangur að fjármagni er enn ein helsta hindrunin í vexti og uppbyggingu sprotafyrirtækja. Áðurnefndir skattahvatar til handa einstaklingum sem fjárfesta í sprotafyrirtækjum geta skipt sköpum og það mun Kría, nýr fjárfestingasjóður á vegum hins opinbera, einnig gera. Ríkið leggur Kríu til um 8 milljarða á næstu fimm árum samkvæmt fjármálaáætlun en sjóðurinn mun fjárfesta í vísísjóðum. Þannig er ríkið ekki beinn fjárfestir í einstökum fyrirtækjum. Markmiðið með Kríu er að byggja upp fjármögnunarumhverfið en vísísjóðaumhverfið á Íslandi er enn óþroskað. Um þessar mundir er unnið að stofnun sjóða sem fjárfesta munu í sprotafyrirtækjum. Ætla má að fimm sjóðir verði fullfjármagnaðir og hefji starfsemi á þessu ári. Umfang þessara sjóða gæti verið nálægt 40 milljörðum króna og eru lífeyrissjóðir stórir fjárfestar í þessum sjóðum og þannig þátttakendur í frekari vexti hugverkaiðnaðar á Íslandi. Áformin um stofnun Kríu hafa því þegar haft jákvæð áhrif og hvatt til stofnunar nýrra sjóða með aðkomu lífeyrissjóða.

Önnur megináskorun hugverka- og hátæknifyrirtækja hér á landi er skortur á sérfræðiþekkingu. Það þarf oftar en ekki að leita út fyrir landsteinana að fólki með þekkingu á sérhæfðum sviðum, svo sem í líftækni og hugbúnaðarþróun. Hlutfall útskrifaðra úr svokölluðum STEM greinum (e. Science, Technology, Engineering, Mathematics) hér á landi er einnig lágt í alþjóðlegum samanburði. Til þess að einfalda fyrirtækjum að ráða til sín erlenda sérfæðinga er mikilvægt að umgjörð og hvatar til þess séu með besta móti og að hindrunum sé rutt úr vegi, eins og kostur er og allt ferli einfaldað. Skattkerfinu má einnig, og ætti, að beita í þessa þágu. Í íslenskum lögum eru ákvæði um heimild til skattfrádráttar frá tekjum erlendra sérfræðinga. Þetta felur í sér að heimilt er að draga 25% frá tekjum, það er að segja að 75% tekna viðkomandi eru tekjuskattskyldar. Gildir þetta fyrstu þrjú árin í starfi. Ýmis skilyrði þurfa að vera uppfyllt og þarf vinnuveitandi meðal annars að skila greinargerð um að viðkomandi sérþekking eða reynsla sé ekki fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli. Einfalda þarf skilyrðin fyrir skattaívilnun og skilgreiningu á því hvaða sérfræðingar falla undir skilmálana. Til að mynda væri hægt að takmarka skilyrðin við það að fyrirtæki sýndu fram á að ekki væri um undirboð að ræða og að laun væru í samræmi við markaðslaun í greininni. Myndi þetta liðka fyrir þessu úrræði þannig að unnt væri að nýta það í meira mæli, í þágu þess að laða hingað til lands sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum sem mun hafa afleidd jákvæð áhrif á allt efnahagslífið.

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI

Vísbending, 18. tbl., maí 2021