Græn nýsköpun er lykill að kolefnishlutleysi

1. júl. 2021

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar um loftslagsvandann, í Morgunblaðinu.

Leiðin að minni losun gróðurhúsalofttegunda er eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans. Þegar hefur árangur náðst í þeirri baráttu hér á landi á síðustu áratugum, m.a. með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Betur má ef duga skal og hafa íslensk stjórnvöld sett það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Um er að ræða metnaðarfullt markmið sem næst aðeins ef allir taka þátt, jafnt stjórnvöld, almenningur og atvinnulíf. Hlutverk stjórnvalda er að ryðja hindrunum úr vegi svo markmiðinu verði náð. 

Atvinnulífið hefur ekki látið sitt eftir liggja í þeirri vegferð að lágmarka áhrif starfsemi sinnar á umhverfið. Vitundarvakning undanfarinna ára hefur skilað árangri og leitt til þróunar í grænni tækni, umhverfisvænni framleiðsluferlum og orkuskiptum. Þannig hefur atvinnulífið stutt þá viðleitni af ábyrgð og festu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Árangri í loftslagsmálum verður ekki náð án tækniþróunar, nýsköpunar, hönnunar og umhverfisvænna lausna. Ekkert af þessu nær flugi nema atvinnulífið hafi borð fyrir báru til grænna fjárfestinga og stjórnvöld stígi í takt og greiði leið grænna lausna með skattalegum ívilnunum, fjárfestingum, skilvirku styrkjaumhverfi og öðrum fjárhagslegum hvötum til að örva græna umbyltingu, samfélaginu öllu til heilla. 

Útgáfa á Loftslagsvegvísi atvinnulífsins markar ákveðin tímamót. Að gerð vegvísisins standa Grænvangur, Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samorka, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök verslunar og þjónustu og Bændasamtök Íslands. Vegvísirinn er fyrsta skrefið í sameiginlegri vegferð atvinnulífsins í loftslagsmálum og skapar vettvang til að fjalla nánar um markmiðasetningu, skilgreina sértækar aðgerðir og setja fram árangursmælikvarða – þannig verður leið atvinnulífsins vörðuð í átt að kolefnishlutleysi. Í vegvísinum eru lagðar til tillögur til úrbóta, bæði hvað varðar aðgerðir af hálfu atvinnulífs og áskorun til stjórnvalda að styðja við þær aðgerðir og stefnumótun. Dregið er fram hvernig atvinnulífið ætlar áfram að vera hluti af lausninni. Samstaða ólíkra atvinnugreina er ekki sjálfgefin en hún undirstrikar metnað og vilja atvinnulífsins til að ná árangri í loftslagsmálum og ekki síður ábyrgð atvinnulífsins í þeim efnum. 

Í Loftslagsvegvísi atvinnulífsins er umfjöllun um einstakar greinar iðnaðarins, líkt og málmframleiðslu, byggingariðnað, matvælaframleiðslu og meðhöndlun úrgangs. Fyrirtæki í þessum atvinnugreinum eru með hugann við loftslagsvandann og hafa þegar gripið til aðgerða til að lágmarka áhrif starfsemi sinnar á umhverfið með þróun á tæknilausnum í framleiðsluferlum, lágmörkun úrgangs og flokkun hans, bættri auðlindanýtingu og minni matarsóun svo dæmi séu tekin. Þá er mannvirkjagerð að aðlaga sig vistvænni kröfum og eru umhverfisvottanir sívaxandi hluti af starfsemi þessara aðila. Því hefur margt áunnist en mörg tækifæri eru til að gera enn betur. 

Metnaðarfull markmið á sviði umhverfis- og loftslagsmála verður áskorun fyrir samfélagið en að sama skapi verða til tækifæri til þess að þróa nýjar aðferðir til að gera hluti öðruvísi og betur. Nýsköpun og fjárfesting eru mikilvægar forsendur fyrir árangri á þessu sviði og eins og fram kemur í nýsköpunarstefnu fyrir Ísland verður að leggja áherslu á þróun grænna tæknilausna hér á landi í átt til aukinnar sjálfbærni í atvinnulífi og samfélagi. Til að svo verði þarf því að ýta undir slíka framþróun með jákvæðum hvötum í stað þess að einblína alfarið á boð og bönn. Mikilvægt er að tryggja að regluverk standi ekki í vegi fyrir framþróun á þessu sviði og þá þurfa kröfur, m.a. um kolefnishlutleysi, að vera skýrar og raunhæfar. Opinberar kröfur verða því að styðja við framþróun og umbuna þeim sem stýra starfsemi sinni í átt að umhverfisvænni ferlum og starfsháttum.

 Óumdeilt er að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verður ekki náð nema með nánu samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda. Lausnirnar verða til hjá atvinnulífinu en á sama tíma þurfa stjórnvöld að ryðja hindrunum úr vegi, hlúa að starfsskilyrðum og fjárhagslegum hvötum. Vandinn er þekktur og því er ekkert að vanbúnaði að hraða ferlinu til að ná þeim árangri í loftslagsmálum sem að er stefnt.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið, 1. júlí 2021.