Kröftug viðspyrna með réttum ákvörðunum

25. mar. 2020

Fyrirtæki í öllum atvinnugreinum verða fyrir áhrifum veirunnar sem breitt hefur úr sér yfir alla heimsbyggðina. 

Fyrirtæki í öllum atvinnugreinum verða fyrir áhrifum veirunnar sem breitt hefur úr sér yfir alla heimsbyggðina. Áhrifanna gætir bæði á eftirspurnar- og framboðshlið með tilheyrandi tekjumissi. Samkomubann setur strik í reikninginn og óvíst er hvort hægt sé að nýta afkastagetu fyrirtækja til fulls. Þá er ekki hægt að ganga að því sem vísu að fá aðföng annars staðar frá. Heimurinn hefur stækkað talsvert eftir að skyggja tók á gullöld öryggis og alþjóðavæðingar. Einangrun verður meiri, ekki síst með lokun landamæra. Við slíkar aðstæður kemur sér vel að Ísland býr að fjölbreyttum og öf lugum iðnaði sem myndar viðspyrnu á erfiðum tímum og sér landsmönnum fyrir nauðsynjum. Eftir síðasta efnahagsáfall fyrir rúmum áratug tókst okkur að snúa vörn í sókn og styrkja undirliggjandi stoðir hagkerfisins og að því búum við nú. Með réttum ákvörðunum í dag, líkt og þá, getum við myndað kröftuga viðspyrnu og náð okkur aftur á strik auk þess að byggja undir hagvöxt framtíðar með skynsamlegum fjárfestingum. Þannig sækjum við fram á erfiðum tímum. 

Byggðum upp höfuðstól 

Alþjóðlega fjármálakrísan skall á af fullum þunga með miklum efnahagslegum af leiðingum á Íslandi. Vel tókst til við endurreisn efnahagslífsins í kjölfarið enda voru réttar ákvarðanir teknar við erfiðar aðstæður. Þess vegna er staða Íslands traust í dag og við vel í stakk búin að mæta áföllum. Neyðarlögin og stofnun nýju bankanna voru nokkurs konar fyrsta hjálp. Skuldir heimila voru endurskipulagðar þannig að staða þeirra er miklu sterkari nú en áður. Fyrirtæki skulda að sama skapi minna. Þetta voru nauðsynlegar aðgerðir sem skiluðu árangri. Réttar ákvarðanir við losun fjármagnshafta skiluðu ríkissjóði og Seðlabankanum um 600 milljörðum að meðtaldri virðisaukningu eigna. Hinn reyndi lögmaður og ráðgjafi íslenskra stjórnvalda, Lee C. Buchheit, sagði að slík ráðstöfun væri einstök í alþjóðlegri fjármálasögu. Andvirðið var meðal annars nýtt til að greiða niður skuldir ríkissjóðs þannig að hann stendur styrkum stoðum í dag. Þá gjörbreyttist erlend staða þjóðarbúsins og eru erlendar eignir um 22% af vergri landsframleiðslu umfram erlendar skuldir. Þetta skiptir sköpum fyrir getu okkar til að bregðast við stöðunni sem nú er uppi. 

Nýtt á gömlum grunni 

Áður en veiran fór að valda usla um allan heim voru óveðursský yfir íslensku efnahagslífi. Atvinnuleysi hafði aukist og samdráttar gætti í ýmsum greinum. Aðgerða var þá þegar þörf til að blása lífi í glæðurnar en ekki var hjá þeim komist eftir að veirufaraldurinn skall á af fullum þunga. Með því að veita kröftuga viðspyrnu strax samhliða því að bregðast við þeirri lausafjárkrísu sem við blasir geta fyrirtæki staðið af sér storminn og sótt fram þegar óvissu er aflétt. Þá eru tækifæri gripin núna til þess að örva eftirspurn enn frekar til að flýta fyrir batanum, meðal annars í útflutningi. Sérstaklega verður að horfa til verkefna sem geta skilað áhrifum fljótt og hafa jafnframt jákvæð langtímaáhrif. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru jákvætt og nauðsynlegt viðbragð í erfiðri stöðu. Við þessar aðstæður er betra að gera meira heldur en of lítið. Við höfum treyst of mikið á eina atvinnugrein í einu. Fjármálaþjónusta var vaxtargrein fyrsta áratugar þessarar aldar og svo tók ferðaþjónustan við á öðrum áratugnum. Nú þarf að búa þannig í haginn að hagkerfið nái sér fljótt og örugglega á strik þegar aðstæður leyfa en skapa um leið skilyrði fyrir nýjar atvinnugreinar til að vaxa og dafna svo við séum enn betur í stakk búin að mæta áföllum í framtíðinni.

Fréttablaðið/Markaðurinn / Frettabladid.is, 25. mars 2020.