Mótum atvinnustefnu

19. mar. 2018

Við stöndum á tímamótum. Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið vonum framar og er raunar lokið. Nú þarf að byggja upp til framtíðar þar sem stærsta verkefnið er að móta atvinnustefnu.

Við stöndum á tímamótum. Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið vonum framar og er raunar lokið. Nú þarf að byggja upp til framtíðar þar sem stærsta verkefnið er að móta atvinnustefnu.

Samtök iðnaðarins beita sér sérstaklega fyrir umbótum í fjórum málaflokkum: menntun, nýsköpun, innviðum og starfsumhverfi. Með umbótum í þessum fjórum málaflokkum eflist samkeppnishæfni, verðmæti aukast og lífskjör batna.

Í flestum ríkjum heims vinna stjórnvöld að því með markvissri stefnumótun að bæta stöðu síns lands í samkeppni við önnur ríki. Skýr sýn, fumlaus framkvæmd og markviss eftirfylgni leiðir til raunverulegra umbóta og leggur grunn að auknum lífsgæðum. Ísland hefur að sumu leyti dregist aftur úr og verður því að sækja fram til að gera Ísland að enn eftirsóttari stað til atvinnureksturs og búsetu.

Áræðni, ný hugsun og djörf framtíðarsýn

Atvinnustefna er samhæfing aðgerða til þess að skapa aukin verðmæti, auka framleiðni og efla samkeppnishæfni. Þannig aukast lífsgæði á Íslandi.

Ríkisstjórnin hefur metnaðarfull áform og hvetja Samtök iðnaðarins hana til dáða. Í stjórnarsáttmálanum er snert á mikilvægum málum: Lögð er áhersla á uppbyggingu innviða, ekki síst samgönguinnviða og ný samgönguáætlun mun líta dagsins ljós í haust.

Boðuð er stórsókn í menntamálum og efla á iðn-, verk- og starfsnám auk þess að styrkja háskólastigið.

Orkustefna verður sett á kjörtímabilinu.

Byggðamál eiga sinn sess í sáttmálanum.

Á síðasta ári kom út skýrsla um framtíðarsýn stjórnvalda í utanríkisviðskiptum og hvernig standa skuli vörð um hagsmuni Íslands alþjóðlega.

Hugtakið „nýsköpun“ kemur 18 sinnum fyrir í stjórnarsáttmálanum, þar sem því er heitið að móta heildstæða nýsköpunarstefnu fyrir Ísland.

Starfsumhverfið á að vera stöðugt, skilvirkt og hagkvæmt.

Allt er þetta nefnt í stjórnarsáttmálanum og vinna við marga þessara þátta er þegar hafin.

Rauða þráðinn í þessa stefnumótun vantar en það er atvinnustefna. Þrátt fyrir mikilvægi einstakra málaflokka hér að framan er mótun atvinnustefnunnar sjálfrar stærsta verkefnið.

Atvinnustefna er skipulag

Hugmyndir um atvinnustefnu hafa breyst í tímans rás. Í eina tíð þótti eðlilegt að ríkið væri umsvifamikill þátttakandi í atvinnulífinu. Síðar tók ríkið sér það hlutverk að velja sigurvegara, hampa eða styðja við ákveðnar greinar. Eftir það tók við tímabil einkavæðingar. Nútímaleg atvinnustefna snýst um að samhæfa aðgerðir og nýta fjármagn sem best til markvissrar uppbyggingar á samfélaginu í heild sinni.

Aðrir skipuleggja sig

Önnur ríki hafa mótað atvinnustefnu, oftar en ekki í kjölfar áfalla eða annarra stórra breytinga. Í Suður Kóreu og Finnlandi var atvinnustefna mótuð á sínum tíma í kjölfar efnahagsáfalla. Bretar móta nú atvinnustefnu sem miðar að uppbyggingu menntakerfis, innviða, aukinnar nýsköpunar og einföldunar regluverks. Lögð er áherslu á þróun sem tengist fjórðu iðnbyltingunni. Nýlega kölluðu hin evrópsku samtök atvinnulífsins, Business Europe, eftir mótun atvinnustefnu í Evrópu til að standa betur að vígi í samkeppni við Asíu og Bandaríkin.

Skipuleggjum okkur

Samkeppnishæfni þarf að auka þannig að Ísland verði í fremstu röð.

Í nýlegri rannsókn á vegum Alþjóðabankans var bent á að þeir fjórir þættir sem helst ákvarða breytileika í framleiðni á milli landa séu efnislegir innviðir, menntun, nýsköpun og skilvirkni markaða ásamt stofnanainnviðum. Þetta undirstrikar mikilvægi þeirra fjögurra málefna sem Samtök iðnaðarins leggja áherslu á til að auka framleiðni og samkeppnishæfni landsins. Þannig eykst velsæld. Umbætur í þessum fjórum mikilvægu málaflokkum gagnast því ekki eingöngu iðnaði heldur samfélaginu í heild sinni.

Markmiðið er skýrt: að búa núverandi greinum betra umhverfi en um leið að skapa sem best skilyrði fyrir nýjar greinar að vaxa og dafna. Þannig fjölgum við stoðunum í íslensku efnahagslífi og drögum úr sveiflum sem eru meiri hér en í samanburðarlöndum.

Hugvit verður drifkraftur framfara á Íslandi á 21. öldinni rétt eins og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var grundvöllur vaxtar á 20. öldinni. Náttúruauðlindir eru takmarkaðar og staðbundnar en hugvitið er óþrjótandi og án landamæra. Til að raungera þessa sýn þarf samþætta stefnumótun í helstu málaflokkum – skýra atvinnustefnu – enda er fjölbreyttur iðnaður og atvinnulíf forsendan fyrir traustu hagkerfi.

Vinnum saman

Tíminn er núna. Við eigum að hefjast handa og leggja á næstu mánuðum grunninn að atvinnustefnu. Það þarf gott samstarf stjórnvalda, atvinnulífs og annarra til að ráðast í þetta mikilvæga verkefni sem mótun atvinnustefnu er og leiða það til lykta. Samtök iðnaðarins eru tilbúin til samstarfs við að byggja upp til framtíðar, efla samkeppnishæfni Íslands og gera landið að eftirsóttum stað til atvinnureksturs og búsetu þannig að Ísland verði í fremstu röð.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins

Morgunblaðið, 17. mars 2018.