Nýsköpun eða stöðnun

13. nóv. 2017

Hugvit verður drifkraftur vaxtar á 21. öldinni rétt eins og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var drifkraftur framfara á þeirri 20. 

Hugvit verður drifkraftur vaxtar á 21. öldinni rétt eins og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var drifkraftur framfara á þeirri 20. Náttúruauðlindir eru takmarkaðar og staðbundnar en hugvitið er óþrjótandi og án landamæra. Því þarf að hvetja til nýsköpunar í allri sinni mynd auk þess sem starfsumhverfi þarf að vera samkeppnishæft við önnur lönd. Næsta ríkisstjórn hefur val um að bæta lífskjör til framtíðar litið með nýsköpun eða stöðnun. 

Mörg lönd hafa komið á einhvers konar hvatakerfi sem ýtir undir fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Hvatar til nýsköpunar felast m.a. í endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. Ákveðið hlutfall er endurgreitt og þak er á endurgreiðslum. Nýsköpun er að miklu leyti stunduð í stærri fyrirtækjum, þvert á það sem margir gætu haldið. Endurgreiðsluhlutfall skiptir máli fyrir öll fyrirtæki en fyrir stærri fyrirtæki skiptir þakið máli. Höfum í huga að stærri fyrirtæki eru betur í stakk búin til að setja upp starfsemi erlendis og þar með er Ísland í samkeppni við önnur lönd um nýsköpun. 

Hér á landi hafa orðið framfarir í þessum efnum á undanförnum árum og eiga stjórnmálamenn hrós skilið fyrir það sem vel er gert. Það er hins vegar staðreynd að Ísland er eftirbátur annarra ríkja hvað varðar rannsóknir og þróun. Þess vegna þarf að afnema þak af endurgreiðslum annars vegar og auka endurgreiðsluhlutfallið hins vegar. 

Á Tækni- og hugverkaþingi SI í október lýstu allir stjórnmálaflokkar yfir vilja til að styðja við nýsköpun og hugvit. Það er morgunljóst að þennan vilja verður að sýna í verki eigi framtíðarkynslóðir þessa lands að búa við sambærileg lífskjör og við þekkjum. Á opnum fundi okkar með fulltrúum flokkanna nokkrum dögum síðar kom hins vegar í ljós að ekki voru allir flokkar tilbúnir til þess að lofa aðgerðum á næstunni. 

Nú þegar efnahagslegri endurreisn Íslands er farsællega lokið er nauðsynlegt að horfa fram á veginn og hefja sókn um sjálfbæran vöxt til næstu áratuga. Næsta ríkisstjórn þarf að hafa kjark til þess að horfa langt fram í tímann, innleiða nýja hugsun í menntamálum og byggja undir vöxt á grundvelli nýsköpunar. Allir stjórnmálaflokkar töluðu á þessum nótum fyrir kosningar en nú kemur í ljós hverjir láta verkin tala. Vonandi sjást þess merki í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI

Morgunblaðið, 13. nóvember 2017.