Uppskeran verður ríkuleg

23. sep. 2020

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, skrifa um fjölgun starfa í Markaðnum.

Skapa þarf 60 þúsund ný störf hér á landi á næstu 30 árum. Um er að ræða 2 þúsund ný störf á ári. Þetta er sá fjöldi sem þarf til að ná atvinnuleysinu niður á viðunandi stig ásamt því að mæta fjölgun á vinnumarkaði á þessum tíma og viðhalda góðum lífskjörum hér á landi. Bráðavandinn er atvinnuleysið sem er nú í sögulegum hæðum og reiknað er með að verði um 10% um áramótin. Það þýðir að um 20 þúsund manns eru án atvinnu sem vilja og geta unnið. Verkefnið er ærið og það eru engar töfralausnir í boði. Ný störf verða ekki til nema með sköpun nýrra verðmæta. 

Fjölgun starfa á síðustu áratugum hefur að stórum hluta verið knúin áfram af aukinni auðlindanýtingu en nú þarf að skipta um kúrs. Ólíklegt er að við munum á næstu áratugum sækja hagvöxt með aukinni auðlindanýtingu. Framtíðin veltur á því hversu vel okkur tekst að skapa grundvöll fyrir fjölgun starfa en það þarf að gera með því að virkja hugvitið í ríkara mæli til verðmætasköpunar. Nýsköpun er þannig eina leiðin fram á við því með nýsköpun verða til aukin verðmæti úr takmörkuðum auðlindum og nýjar atvinnugreinar líta dagsins ljós. 

Það þarf þó ekki einungis að fjölga störfum, heldur skiptir einnig máli að hér á landi verði til verðmæt störf. Til lengri tíma byggir aukinn kaupmáttur á aukinni framleiðni. Í nýsköpun liggja ótal tækifæri til aukinnar framleiðni. Sagan kennir okkur að þær þjóðir sem eru framarlega á sviði nýsköpunar uppskera aukna verðmætasköpun og meiri lífsgæði. Nýsköpun er því leiðin til að skapa ný og jafnframt verðmæt störf. 

Sýn Samtaka iðnaðarins er skýr. Stórátak þarf í að efla umgjörð og hvata fyrir nýsköpun á öllum sviðum atvinnulífsins og byggja undir nýjar atvinnugreinar. Ísland getur sannarlega orðið nýsköpunarland, þar sem hagvöxtur er drifinn áfram af nýsköpun, stoðir útf lutnings styrkjast og gjaldeyristekjur aukast til framtíðar. 

Vegferðin er þegar hafin. Stór skref voru stigin á Alþingi í vor með breytingum á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, með hækkun á endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar, ásamt fleiri aðgerðum. Þessar breytingar voru tímabærar og það þarf að festa þær í sessi. Einnig þarf að huga að öðrum þáttum nýsköpunarumhverfisins og starfsumhverfi fyrirtækja heilt yfir. Liðka ætti enn frekar fyrir komu erlendra sérfræðinga og frumkvöðla hingað til lands og markaðssetja Ísland á breiðari grunni en verið hefur. Með því að laða hingað til lands mannauð með verðmæta sérfræðiþekkingu stuðlum við að enn frekari fjölgun starfa ásamt því að skapa dýrmæt tengsl við fjárfesta og alþjóðleg fyrirtæki sem geta skipt sköpum varðandi aðgengi að fjármagni og markaðssókn íslenskra fyrirtækja. 

Fjármögnunarumhverfi nýsköpunar hefur tekið jákvæðum breytingum og mun nýr fjárfestingarsjóður hins opinbera, Kría, stuðla að enn frekari fjárfestingum á þessu sviði. Lífeyrissjóðir verða að fylgja þessari sýn eftir enda verða umfangsmiklar breytingar á íslensku atvinnulífi ekki að veruleika án aðkomu þeirra. Setja þarf mun meira fjármagn í Tækniþróunarsjóð og auka úthlutunarhlutfall sjóðsins. Þannig sáum við fleiri fræjum og ný störf verða til. 

Nýsköpun er ein meginforsenda aukinnar framleiðni, verðmætasköpunar, samkeppnishæfni og gjaldeyrisöf lunar fyrirtækja og þjóða. Ísland hefur raunverulegt tækifæri til að verða nýsköpunarland en það mun ekki gerast af sjálfu sér. Nú þurfum við að nýta þetta tækifæri. Vinna þarf hratt að uppbyggingu og bættum skilyrðum fyrir nýsköpun. Hugarfarið skiptir einnig sköpum og þarf það að endurspeglast í forgangsröðun í ríkisfjármálum og sýn og stefnu stjórnvalda. Við gerum þetta ekki í einu skrefi eða á einni nóttu. Að byggja upp nýsköpunardrifið hagkerfi mun krefjast þolinmæði, þrautseigju og stöðugra umbóta. Ef vel tekst til verður uppskeran ríkuleg.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 23. september 2020.