Fyrirlesarar Iðnþings 2000

Upplýsingatækni og þekkingariðnaður á Íslandi - Möguleikar við upphaf nýrrar aldar

Hreinn Jakobsson, forstjóri, Skýrr hf., Guðmundur Óskarsson, verkefnisstjóri., Hugvit hf., Friðrik Sigurðsson, forstjóri, TölvuMyndir hf., Gunnar Ingimundarson, framkvæmdastjóri, Hugur hf. / EJS hf., Ari Arnalds, forstjóri, Verk- og kerfisfræðistofan hf.,  Eysteinn Haraldsson, framkvæmdastjóri, Íslenskir aðalverktakar hf.,   Magnús Ingi Stefánsson forstöðumaður upplýsingasviðs, Mjólkursamsalan, Ásgeir Ásgeirsson, forstöðumaður upplýsingatæknideildar, Marel hf., Guðbrandur Magnússon, framleiðslustjóri, Morgunblaðið,  

Hreinn Jakobsson, forstjóri, Skýrr hf.
- Fjarskipti framtíðar

Hreinn Jakobsson fjallaði um nýjar lausnir í tölvusamskiptum og fjarskiptum þar sem hraði og öryggi í gagnaflutningum munu margfaldast frá því sem nú þekkist. Loftnet Skýrr er dæmi um slíka nýja lausn sem þegar er orðin aðgengileg fyrirtækjum.

Þá kynnti Hreinn nýja möguleika í tölvuvæðingu fyrirtækja í formi kerfisleigu sem færir fyrirtækjum nýja möguleika til að fylgjast stöðugt með nýjungum og hagnýta þær um leið og þær koma fram. Þetta gefi fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra nýja möguleika á aðgengi að upplýsingum fyrirtækisins óháð stað og stund.

Ljóst sé að þeir nýju möguleikar sem þessi tækni býður, boði byltingu í notkun Internetsins og í öllum tölvusamskiptum á Íslandi.

 

Guðmundur Óskarsson, verkefnisstjóri., Hugvit hf. 
- Nýjar leiðir í samskiptum við hið opinbera

Guðmundur Óskarsson ræddi um nýjar leiðir í samskiptum einstaklinga og fyrirtækja við hið opinbera þar sem þjónustan verður rafræn í vaxandi mæli og mun aðgengilegri en við þekkjum nú, óháð stað og tíma.

Markmið og stefna ríkisstjórnar Íslands sé að "Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar."

Guðmundur sagði margar ríkisstofnanir komnar vel á veg í þessari þróun en einkageirinn standi þó feti framar enn sem komið er. Samkeppni einkafyrirtækja hafi verið helsti drifkrafturinn en líkt sé þó á döfinni hjá flestum ríkisstofnunum og bæjarfélögum. Fyrirtæki og einstaklingar muni geta sótt um og fylgt eftir þjónustu/ eftirliti opinberra stofnana gegnum vefsvæði.

Guðmundur taldi að framundan væru mörg tækifæri til að gera betur á vettvangi hins opinbera. Opinberar stofnanir finni fyrir þrýstingi frá viðskiptavinum og hafi séð tækifærin en nokkuð skorti á að lagalegt umhverfi og nægilegt öryggi en það standi þó til bóta. Eitt af lykilatriðunum í þessu sambandi séu stafrænar undirskriftir. Skammt sé í lagalegar og tæknilegar lausnir í því sambandi og nokkrir möguleikar séu í athugun. Fullkomið öryggi verði þó aldrei í rafrænni þjónustu frekar en annarri . Menn þurfi hins vegar að leita lausna til að vernda þá sem verða fyrir misnotkun annarra.

Hann sagði dæmigert viðskiptakerfi byrja í einu kerfi og enda í öðru. Vandamálið liggi í samtengingu mismunandi kerfa. Nýtt þróunarverkefni (SERVEX) á vettvangi Evrópusambandsins miði að því að leiða fram lausnir á þessu sviði í nánustu framtíð.

 

Friðrik Sigurðsson, forstjóri, TölvuMyndir hf. 
- Samkeppnishæfni upplýsingakerfa

Friðrik ræddi um samkeppnishæfni tölvukerfa og lagði út af spurningunni: "Getum við orðið betri?" Hann sagði tölurnar segja sína sögu um velgengni í upplýsingatæknigreininni. Samanburður við önnur lönd segi hins vegar að við séum aðeins á hælunum á öðrum. Hver sé þá samkeppnistaða gagnvart öðrum. Í því sambandi nefndi hann m.a. innviðina, viðskiptaumhverfið og viðhorfin. Hann nefndi notkun okkar á kennitölum og vísitölu sem mjög sérstakt fyrirbæri sem við hefðum notið góðs af og væri í raun undirstöðuatriði sem við kynnum betur að hagnýta en flestar aðrar þjóðir. Þá taldi hann smæðina búa yfir styrk sem fæli í sér möguleika á betri yfirsýn. Hins vegar hamlaði smæðin sérhæfingunni. Tungan væri hins vegar erfið viðfangs og á margan hátt hamlandi. Það væri ekki lengur krafa að skrifa tölvukerfi á íslensku.

Friðrik sagði að mikil bylting hefði orðið í fjármögnunarumhverfi upplýsingatæknifyrirtækja og það væri lykillinn að þróun og þekkingaruppbyggingu. Mest kreppti að í sölumálum. Við kynnum ekki að sigra og töpuðum því miður allt of oft á öllum sviðum. Þessu hugarfari þyrfti að breyta.

Mikilvægasta umhverfið væru framsækin og metnaðarfull fyrirtæki sem væru reiðubúin til að taka áhættu og vinna ný lönd. Enn væru slík fyrirtæki of fá en við þyrftum ekki mörg til að ryðja brautina.

 

Gunnar Ingimundarson, framkvæmdastjóri, Hugur hf. / EJS hf.
- Þróun upplýsingatækninnar m.t.t. þarfa iðnaðarins

Gunnar talaði á Iðnþingi sem fulltrúi fyrirtækjanna Hugur hf. og EJS hf. sem keypti á síðasta ári öll hlutabréf í Hug hf. Velta EJS samstæðunnar var á síðasta ári um 3,5 milljarðar og starfmenn um 300, þar af 80% háskólamenntaðir.

Gunnar fjallaði í erindi sínu einkum um upplýsingakerfi í iðnaði, stöðu og næstu framtíð. Hann hélt því fram að þróun upplýsingakerfa væri í auknum mæli að skila sér í ávinningi fyrir notendur, m.a. í því formi að handavinna væri leyst af hólmi og framleiðni ykist. Aðgengi að gögnum væri aukið til að vinna upplýsingar fyrir stjórnendur sem þannig öðluðust meiri yfirsýn og betri forsendur til að taka ákvarðanir.

Það vandamál að tölvukerfi væru ekki samhæfð hefði frá upphafi tölvubyltingar verið eitt helsta vandamál notenda og falið í sér ómælda vinnu fyrir þá sem þróa lausnir. Aukin stöðlun væri vissulega til bóta en stöðugar nýjungar í tækni, bæði í vélbúnaði og hugbúnaði, leiddu til þess að samhæfingarvandinn fylgdi tölvutækninni um ókomna tíð.

Gunnar taldi þó að almennt hefðum við gengið til góðs götuna fram eftir veg en lausnirnar gerðu oft miklar kröfur og undirbúningi væri oft áfátt. Það ætti einkum við þarfagreiningu, skilgreiningu ferla og aðlögun að sérþörfum. Þá væri kennsla og þjálfun starfsmanna oft vanmetin auk þess sem þjónusta hugbúnaðarfyrirtækjanna hefði oft ekki staðið undir væntingum og áætlanir ekki staðist. Skortur á hæfum stjórnendum á öllum svið um væri oft rótin að mörgum þeim vanda sem við væri að glíma.

Gunnar sagði lausnina liggja í faglegri vinnubrögðum, betri tíma- og verkáætlunum, skilvirkari verkstjórn og formlegri eftirfylgni verkefna. Þá þyrfti að leggja áherslu á breiðari þjónustu, víðtækari ráðgjöf m.a. hvað varði ferla, auk þess sem seljendur tölvukerfa og þjónustu þyrftu helst að gjörþekkja þarfir viðskiptavina og sjá þær fyrir. Samstarf í þessu sambandi skipti miklu máli.

Framtíðina taldi Gunnar liggja í að nýta upplýsingakerfin til fulls. Þar lægju fyrir fjölmörg verkefni s.s. á sviði vörustjórnunar, rafrænna viðskipta, nýtingu vefjarins, sjálfvirkni í gagnaskráningu og söfnun ganga.

Kröfur til upplýsingakerfa morgundagsins fælust í meiri hraða í öllum viðskiptum, möguleika á meiri nálægð við viðskiptavini, greiðari aðgangi að upplýsingum, auknum kröfum til samkeppnishæfni fyrirtækja og að á næstu árum yrði hvert fyrirtæki orðið hluti af tiltekinni upplýsingavirðiskeðju þar sem upplýsingakerfi mundi gegna lykilhlutverki.

 

Notendur upplýsingatækninnar 
Hvernig nota iðnfyrirtækin upplýsingatæknina í sínu starfi?

Ari Arnalds, forstjóri, Verk- og kerfisfræðistofan hf. 
- Notkun upplýsingatækni við gæðastjórnun 

Ari Arnalds lýsti notkun upplýsingatækni við gæðastjórnun hjá VKS. Hann sagði að kerfið byggðist á hópvinnukerfi í Microsoft umhverfi. Gæðakerfið væri gert aðgengilegt öllum starfsmönnum. Eiginleikar upplýsingatækninnar væru notaðir til fulls á myndrænan hátt þannig að verkferlar fyrirtækisins væru mjög skýrir.

Ari lýsti á mjög einfaldan hátt innviðum gæðakerfisins sem hann hafði meðferðis á tölvutæku formi á geisladiski og leiddi fundarmenn inn í hina nýju ásýnd gæðastjórnunar fyrir tilverknað upplýsingatækninnar.

 

Eysteinn Haraldsson, framkvæmdastjóri, Íslenskir aðalverktakar hf. 
- Notkun upplýsingatækni við verkefnastjórnun og hönnun

Eysteinn Haraldsson fjallaði um mikilvægi upplýsingatækni við rekstur verktakafyrirtækja. Sóknarfærin á sviði byggingariðnaðar væru mikil. Íslendingar væru í þessu sem ýmsu öðru síst eftirbátar annarra.

Hann sagði að iðnaðurinn yrði að tæknivæðast og nýta sér bestu tækni á hverjum tíma til að standast samkeppni í framtíðinni og vera alltaf skrefi á undan keppinautum til að viðhalda forskoti.

Eysteinn nefndi nokkur dæmi um mikilvægi upplýsingatækni í stórum verkefnum hjá ÍAV hf. Fyrirtækið hefði um langt skeið haft mikil samskipti við bandaríska verkkaupa, birgja og hönnuði.

Við byggingu nýs álvers á Grundartanga hefðu teikningar tekið miklum breytingum á stuttum byggingartíma og ekki væri nokkur vafi á að byggingarhraðinn hefði m.a. reynst mögulegur vegna skilvirkrar upplýsingamiðlunar milli hönnuða og byggingaraðila. 
Bláa lónið væri dæmi um hönnun samhliða framkvæmd. Eins og Eysteinn orðaði það hefðu smiðirnir verið korter á undan arkitektunum.

Eysteinn sagði að samskipti við hönnuði og birgja, bæði innlenda og erlenda færu sífellt meira fram á Netinu. Við framkvæmdir fjarri höfuðstöðvum, inni í óbyggðum og upp til fjalla, hefðu kostir hinnar nýju tækni kristallast. Netið stytti vegalengdir og menn væru í beinu upplýsingasambandi.

Bæði við gerð Hágöngumiðlunar og Vatnsfellsvirkjunar hefði verið lögð sérstök áhersla á að tryggja örugg fjarskipti við undirbúning.

"Fjarlægðir" hefðu verið "styttar út" með Netinu. ÍAV hefðu þegar tekið nýjungar Netsins og fjarskiptatækninnar í notkun eins og best gerðist.

Möguleikarnir væru þó langt frá því fullnýttir. Til að færast á næsta stig hefði fyrirtækið hleypt af stokkunum verkefni til að efla verkefnastjórnun á öllum sviðum með tilliti til upplýsingatækninnar.

Framtíðarsýn ÍAV væri að með tilkomu upplýsingatækninnar og skynsamlegrar nýtingar hennar verði mörg sóknarfæri inn í nýja öld á sviði byggingariðnaðar.

Þar ætli ÍAV sér stórt hlutverk.

 

Magnús Ingi Stefánsson forstöðumaður upplýsingasviðs, Mjólkursamsalan
- Rafræn viðskipti og notkun upplýsingatækni við vörustjórnun

Magnús ræddi um notkun MS við rafræn viðskipti. Pantanir yfir Netið hefðu í för með sér mikinn tímasparnað auk þess sem ábyrgð og rekjanleiki yrði mun auðveldari með þeim hætti. Í stað þess að hafa fimm sölumenn til að slá inn pantanir væri hægt að tryggja að unnið væri með nýjar upplýsingar.

Magnús sýndi einfalt dæmi um hvernig litlir viðskiptavinir gætu hagnýtt sér Netið til pöntunar. Eldri pantanir geymast þannig að ekki þyrfti að endurtaka upplýsingar sem þegar lægu fyrir. Þróunin væri að verða sú að hver viðskiptavinur gæti farið beint inn í pantanakerfið. Innan skamms yrðu allir, sem málið varðaði, komnir inn í þetta kerfi.

Upplýsingatækni við vörustjórnun væri annað gott dæmi um notkun slíkrar tækni hjá MS. Í gegnum söluspá gætu viðskiptavinir fylgst með sinni vöru og pöntun gegnum ferlið. Hver og einn vissi þannig nákvæmlega hvar sérhver vara væri stödd og hvenær hún yrði komin á áfangastað.

Þriðja dæmið sem Magnús nefndi var upplýsingavinnsla um sölusögu t.d. síðasta árs eða síðasta tímabils. Þá hefði upplýsingatæknin gert meðhöndlun sérpantana mun auðveldari en áður var.

Að lokum nefndi Magnús þá hagræðingu sem fælist í því að ekki þyrfti að sinna vörutalningu eins og oft áður.

 

Ásgeir Ásgeirsson, forstöðumaður upplýsingatæknideildar, Marel hf.
- Notkun upplýsingatækni við vöruþróun og framleiðslustjórnun

Ásgeir fjallaði um nýtt tölvukerfi hjá Marel og notkun þess í tengslum við vöruþróun og framleiðslustjórnun hjá fyrirtækinu.

Hann sagði að rekstur Marels væri mjög háður upplýsingatækni og fyrirtækið liti á upplýsingatækni sem eitt helsta tækið í samkeppni. Marel nýtti upplýsingatækni til að laga sig hratt að breyttum aðstæðum en meiri tækni kallaði á aukna þjónustu. Þetta ylli auknum áhyggjum.

Upplýsingatæknin breyttist hratt og til að mæta þessu væru fyrirtæki eins og Marel í vaxandi mæli farin að greiða fyrir afnot af nýjustu tækni í stað þess að "eignast" og sitja uppi með úrelta tækni. Marel stefndi að því að færa í auknum mæli valda upplýsingatækni inn í reksturinn og halda UT-deild í lágmarki og í hlutverki þjónustu en ekki rekstrar.

Ásgeir sagði að Marel hefði verið að byggja upp nýtt framleiðsluskipulag sem byggist á svokölluðu "sellu skipulagi". Þetta skipulag yki kröfur til upplýsingakerfisins, m.a. þannig að nú væru allir alltaf í þráðlausu símasambandi. Meðaláhersla í nýju upplýsingakerfi væri samþættanlegt verkbókhald og framleiðslukerfi og tæknilega öflugt gagnagrunns- og Internetkerfi. Í uppbyggingu kerfisins hefði verið lögð áhersla á samstarf við innlendan aðila með þekkingu og reynslu á sambærilegum verkefnum og styrk til að takast á við verkefnið.

Ásgeir hélt því fram að framtíð Marels byggðist á hugbúnaði og nú þjónustaði fyrirtækið sín kerfi hjá viðskiptavinum með fjartengingum. Í framtíðinni hygðist Marel ganga lengra og reka kerfin fyrir viðskiptavininn. Í því sambandi þyrfti fyrirtækið að byggja upp tækni til að mæta nýjum kröfum um rekstrarform.

 

Guðbrandur Magnússon, framleiðslustjóri, Morgunblaðið
- Samhæfð upplýsingakerfi og tölvuvædd útgáfa

Erindi Guðbrands fjallaði einkum um upplýsingar og tækni.

Hann sagði m.a. að sjá mætti merki þess að fjölmiðlun á Internetinu væri orðin samofin viðskiptahagsmunum viðkomandi miðla og oft væru óljós skil milli raunverulegra hlutlægra upplýsinga annars vegar og markaðssetningar og auglýsinga hins vegar. Markaðssetning birtist oft í búningi frétta og hlutlægra upplýsinga og allir fjölmiðlar stæðu í raun frammi fyrir þessum vanda. Vandaðir fjölmiðlar gerðu sér grein fyrir vandanum og þyrftu að glíma við hann daglega.

Guðbrandur taldi bandvídd eða aukna flutningsgetu gagna trúlega ráða mestu um tækniþróun næstu ára og stóraukin flutningsgeta stafrænna gagna myndi opna fyrir flóðgáttir tækninýjunga. Gengi það eftir jafngilti það álíka byltingu í netmiðlun og orðið hefði í símamálum. Þá gætu notendur skoðað myndbönd og hlustað á tónlist án þess að þröng gagnagáttin takmarkaði notin en þráðlaus bandvídd gerði notendum kleift að nýta sér nettengingu hvar sem væri.

Guðbrandur gat þess einnig að ný tegund fjölmiðla, sem verða væntanlega allt annars eðlis en sjónvarp og dagblöð, væri í þann mund að koma fram á sjónarsviðið. Hin nýja tækni byggðist á öflugri gagnagrunnstækni og mundi trúlega ráða við mismunandi gagnasnið svo sem kvikmyndir, hljóð og texta. Guðbrandur sagði að hætt væri við að snúið yrði að ritstýra slíku efni og mörk auglýsinga og hlutlægra upplýsinga yrðu þokukennd.

Guðbrandur sagði að upplýsingaflæði mikilla bandvídda tryggði engan veginn menntun og þekkingu. Það yrði hinn nýi hvítigaldur framtíðar að búa til góða fjölmiðla á takmarkalausri bandvídd en þar yrði líka framinn svartigaldur sem aldrei fyrr í nafni tækniframfara.

Sjá allt erindi Guðbrands Magnússonar.