Breytingar á ytra umhverfi atvinnulífsins

- 16. mars 2001

Í ræðu sinni á Iðnþingi gerði Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, m.a. breytingar á ytra umhverfi atvinnulífsins að umtalsefni. Þær ættu rætur að rekja til örra framfara í vísindum og tækni sem Íslendingum hefði tekist að tileinka sér með undragóðum árangri, atvinnulífið hefði verið í fararbroddi þessara breytinga og yrði áfram.

Valgerður Sverrisdóttir á Iðnþingi 2001Í ræðu sinni á Iðnþingi gerði Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, m.a. breytingar á ytra umhverfi atvinnulífsins að umtalsefni. Þær ættu rætur að rekja til örra framfara í vísindum og tækni sem Íslendingum hefði tekist að tileinka sér með undragóðum árangri, atvinnulífið hefði verið í fararbroddi þessara breytinga og yrði áfram.

Þá segir Valgerður að í starfi sínu sem iðnaðarráðherra hafi hún haft það markmið að leiðarljósi að stjórnvöld eigi að búa atvinnulífinu þau starfsskilyrði að þau geti skilað sem bestum árangri og gerði einkum þrjú efnisatriði að megininntaki ræðu sinnar, fjármagnsmarkað og rafræn viðskipti, nýskipan orkumála og nýsköpun og atvinnuþróun.

FJÁRMAGNSMARKAÐURINN OG RAFRÆN VIÐSKIPI
Ráðherra segist vonast til að öllum meginbreytingum á fjármagnsmarkaði verði lokið á þessu kjörtímabili en sú veigamesta sé að nú hilli undir að ríkisbankarnir komist í hendur nýrra eigenda og að afskiptum ríkisins í almennri bankaþjónustu ljúki.

Þá vék ráðherra máli sínu að rafrænum viðskiptum og kvað kannanir hafa sýnt að þar skorti öryggi sem leitt hafi til þess að þau eru minna stunduð en ella. Til að tryggja öryggi í þessum efnum hafi hún lagt fram á Alþingi frumvarp um að innleidd verði dulritun slíkra sendinga enda séu þær taldar grundvöllur aukins trausts í rafrænum viðskiptum og fyrirsjáanlegt að þær verði mikið notaðar í viðskiptum og samskiptum milli borgara og stjórnsýslu og milli stjórnvalda innbyrðis, svo að dæmi séu tekin.

NÝSKIPAN RAFORKUMÁLA
Ráðherra segir mikilvæga breytingu boðaða í ytra umhverfi atavinnulífsins í nýju frumvarpi til raforkulaga sem nú er til umfjöllunar í ríkisstjórn en þar eru lagðar til grundvallarbreytingar á skipan raforkumála. Meginmarkmið þess er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda til raforkuvinnslu í því skyni að efla atvinnulíf og byggð í landinu. Þá er í frumvarpinu m.a. gert ráð fyrir að sömu fyrirtæki stundi ekki vinnslu og sölu annars vegar og flutning og dreifingu orku hins vegar. Með þessu sé stefnt að því að tryggja betur forsendur samkeppni og auðvelda eftirlit og lagt til að raforkusala verði gefin frjáls í áföngum.

NÝSKÖPUN OG ATVINNUÞRÓUN
Þá segir iðnaðarráðherra að veruleg breyting hafi orðið í umhverfi nýsköpunar á síðustu árum. Ný fræðasvið vísinda og tækni hafi litið dagsins ljós og náð fótfestu með undraverðum hætti og nefnir líftækni sem dæmi þar um. Líftæknihúsið í Keldnaholti hafi fengið nýtt hlutverk sem frumkvöðlasetur fyrir sprotafyrirtæki á sviði efna- og líftækni og þar með hafi verið stigið veigamikið skref í þróun á hlutverki opinberra rannsóknastofa. Með þátttöku í rekstri frumkvöðlasetra sé nálægðin eins mikil og unnt er en það gefi fjárfestingu í framsæknum nýsköpunarhugmyndum forskot.

Sjá alla ræðu iðnaðarráðherra