Iðnþing 2007

Ályktun Iðnþings 2007

Hagvöxtur á Íslandi verður í framtíðinni drifinn áfram af fyrirtækjum sem reiða sig á vel menntað starfsfólk, ekki síst á í iðn- og tæknigreinum. Efla verður raungreinakennslu á öllum skólastigum og bæta árangur nemenda.

 

Mannauð fyrirtækja þarf að efla með öllum ráðum, ekki síst gegnum menntakerfið sem er meginuppspretta þess auðs. Auka verður þátt atvinnulífsins í stjórnun skóla sem sinna þörfum þess fyrir menntaða starfsmenn. Í því felst sameiginlegur ávinningur stjórnvalda, atvinnulífs, skóla og nemenda og þess vegna koma Samtök iðnaðarins að rekstri skóla. Það er fagnaðarefni að menntamálaráðherra ætlar að leggja hönd á plóg við sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækni­skólans. Samtök iðnaðarins sýna vilja sinn í verki og hafa ákveðið að verja verulegum fjárhæðum til þessa málaflokks.

-----

Íslensk viðskiptabankaþjónusta einkennist af fákeppni. Vaxtamunur, há lántökugjöld og uppgreiðslugjöld eru skýr merki um það. Viðskiptavinir bankanna geta ekki óhindrað flutt viðskipti sín til þeirra sem bjóða bestu kjörin. Ein ástæða þess er stimpilgjaldið en það dregur verulega úr samkeppni.

Stimpilgjaldið hefur æ minna gildi sem tekjustofn fyrir ríkissjóð en skaðsemi gjaldsins fer vaxandi. Til að ýta undir heilbrigða samkeppni bankanna og tryggja betur samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs er nauðsynlegt að afnema stimpilgjaldið.

-----

Skapa verður sátt um skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og ná jafnvægi milli verndar og nýtingar.  Of langt er að bíða til ársins 2010 eftir nýtingar- og verndaráætlun, eyða þarf óvissu sem nú ríkir bæði um verndun landsvæða og stöðu þeirra sem hyggja á nýtingu auðlinda. Þær ber m.a. að nýta til þess að skapa störf og útflutnings­verðmæti. Gæta verður sanngirni gagnvart fyrirtækjum sem þegar eru starfandi.

Eðlilegt er að stjórnvöld setji reglur og ramma um nýtingu auðlinda en fyrirtæki í einkaeigu nýti en greiði fyrir.  Auðlinda­gjald renni í sjóð m.a. til eflingar rannsókna og nýsköpunar í atvinnu­lífinu.

----- 

Samtök iðnaðarins krefjast þess að Alþingi sem kjörið verður í vor og  næsta ríkisstjórn taki aðild Íslands að Evrópusambandinu til alvarlegrar skoðunar og komist að niður­stöðu á kjörtímabilinu. Ná þarf sem víðtækastri samstöðu meðal stjórn­mála­flokka, samtaka atvinnu­rekenda og launþega um stefnu þjóðarinnar í Evrópumálum.