Efni tengt Iðnþingi 2008

Erindi formanns SI á Iðnþingi 2008

Alþingismenn, fundarstjórar, aðrir góðir fundarmenn!

Í lok ræðu minnar á Iðnþingi fyrir ári, hélt ég því fram að Íslendingar gætu vænst áframhaldandi velgengni næstu 10 til 15 árin en til þess þyrfti ýmislegt í umhverfi okkar að ganga upp með jákvæðum hætti. M.a. var nefnt

1) ..... að Íslendingar yrðu að búa við stöðugleika og frið á vinnumarkaði.

Ætla má að friður ríki á almennum vinnumarkaði eftir nýgerða – en dýra - heildarkjarasamninga.

2)     ..... að ekki kæmi til stjórnarkreppu og að festa ríkti í landsstjórninni.

Það tók skamman tíma að mynda ríkisstjórn eftir síðustu kosningar, stjórn sem hefur 2/3 þingheims á bak við sig og nýtur vinsælda skv. skoðanakönnunum. Við getum því vænst festu í landsstjórninni – enda veitir nú ekki af. Við hljótum einnig að gera þá kröfu til núverandi ríkisstjórnar að hún beiti sér af þunga til að koma í veg fyrir að hér verði langvinn atvinnu-og efnahagskreppa í kjölfar þeirra aðstæðna sem skapast hafa ógnarhratt á erlendum og innlendum fjármálamörkuðum.

3)     ..... að vaxtastig færi hratt niður.

Það hefur því miður ekki gengið eftir – þvert á móti hafa stýrivextir Seðlabanka hækkað stöðugt og eru komnir langt umfram það sem atvinnulífið og almenningur geta búið við. Vaxtastefna Seðlabankans er að okkar mati orðin sjálfstætt efnahagsvandamál sem flestir gagnrýna með gildum rökum en ekkert fæst ráðið við. Samtök atvinnurekenda hafa krafist að þessari stefnu verði breytt, að vinnubrögðum Seðlabanka verði breytt og að lögum um Seðlabankann verði breytt – annars er hætt við að hér geti orðið ofkólnun í efnahagslífinu með afleiðingum sem menn vilja helst ekki hugsa til enda. Ef raunveruleg verðmætasköpun í þjóðfélaginu skreppur saman, er lítið við því að gera en menn eiga ekki að sætta sig við sjálfskaparvíti í þeim efnum.

4)   ..... að viðunandi sátt næðist um stefnu Íslendinga í auðlindanýtingu og náttúruvernd.

Áfram verður tekist á um þetta stóra mál og víst er að ávallt verða skiptar skoðanir um stefnuna. Viðunandi niðurstaða verður þó að nást því að við viljum ekki spilla náttúruperlum en við verðum jafnframt að nýta auðlindirnar ef við ætlum að halda áfram að reka hér myndarlegt velferðarþjóðfélag sem miklar kröfur eru gerðar til. Verðmætasköpun er grundvöllur þess að hér sé unnt að standa undir öflugu heilbrigðiskerfi, menntakerfi og velferðarþjónustu eins og best gerist í hinum vestræna heimi.

5)      ..... að á næsta kjörtímabili næðist niðurstaða varðandi stefnu Íslendinga í Evrópumálum enda væri tími yfirvegaðra skoðanaskipta í þeim málum runninn upp.

Samtök iðnaðarins ætla einmitt hér í dag að efna til öflugra skoðanaskipta um Evrópumálin og leggja sitt af mörkum til þess að Íslendingar MÓTI SÍNA EIGIN FRAMTÍÐ varðandi þetta stóra mál. Á Iðnþingi fyrir ári voru nokkrar vikur til alþingiskosninga og ljóst að Evrópumálin voru ekki kosningamál á þeim tíma. Við höfðum því óvanalega fá orð um Evrópumálin en mátum það svo að næsta kjörtímabil yrði tími umræðna, undirbúnings og ákvarðana um framtíð okkar í þessum efnum. Við trúum því að senn dragi til tíðinda. Samtök iðnaðarins munu blanda sér í Evrópuumræðuna af fullum þunga. Við finnum taktinn herðast. Menn munu að lokum ekki standa gegn tímans þunga straumi.

6)     ..... Loks var minnt á að þrátt fyrir mikilvægi veraldlegrar velsældar og hagvaxtar væru peningar ekki allt. Talað var um að Íslendingar þyrftu að ná meira jafnvægi milli peningahyggju og velferðar til að auka sátt í samfélaginu og lýst var áhyggjum af ásælni.

Sú hvatning er enn í fullu gildi.

II

 

Góðir fundarmenn!

Almenn bjartsýni var ríkjandi fyrir einu ári og flest benti þá til þess að Íslendingar ættu fyrir höndum áfallalitla ferð inn í framtíðina. En veður skipast skjótt í lofti og nú blasir við okkur allt önnur mynd.

Ég mun staldra við horfur í atvinnulífi okkar og efnahagsmálum, áður en ég vík að viðhorfum Samtaka iðnaðarins til Evrópumálanna. Full ástæða hefði verið til að fjalla hér um innri málefni iðnaðarins í landinu en þar er af nógu að taka. Meðal annars má nefna tækniþróun í iðnaði, iðnmenntun, framleiðni í iðnaði, áhrif af erlendu vinnuafli, stuðning við hátækni-og sprotafyrirtæki og andstöðu sumra afla við stóriðju og skilningsleysi gagnvart því að fyrirtæki hafi næði til að sinna þeirri   verðmætasköpun sem verður að fara fram til að unnt sé að halda uppi grunnþjónustu velferðarsamfélagsins. Þá er ég m.a. að vísa til þess þegar kjósendur í Hafnarfirði felldu fyrirhugaða stækkun álversins í Straumsvík með naumum meirihluta í íbúakosningu sl. vor.

En umfjöllun um allt þetta og mörg önnur hagsmunamál iðnaðarins bíður betri tíma. Nú þarf að hyggja að þeirri efnahagsumgjörð sem okkur er búin. Hvað er að gerast – hvað er framundan?

Á örfáum vikum eða nokkrum mánuðum hafa horfur í atvinnulífi og efnahagsmálum Íslendinga gjörbreyst frá því að vera býsna góðar yfir í að vera dökkar.

Eftir langvinnt hagvaxtar-þenslu-og uppgangsskeið þar sem kaupmáttur hefur aukist og atvinnuleysi hefur varla mælst -  hraðkólnar nú hagkerfið. Það gerist að hluta til vegna erlendra áhrifa sem Íslendingar ráða ekkert við; hátt olíuverð, hátt hrávöruverð og tilvistarvanda á erlendum fjármálamörkuðum. Þetta hefur afleit áhrif hér á landi. Verðmæti hlutabréfa í Kauphöll Íslands hefur lækkað úr 3.600 milljörðum króna þegar mest var sl. sumar niður fyrir 2.000 milljarða eða um 45%.  Því hafa 1.600 milljarða verðmæti horfið út úr íslensku viðskiptalífi á   8 mánuðum og með þeim mest af því áhættufé sem ella hefði geta verið tiltækt atvinnulífi okkar.

Íslenskir bankar hafa ekki farið varhluta af ástandinu á erlendum fjármálamörkuðum. Þeir þurfa nú að búa við ofurhátt skuldatryggingarálag sem  fæstir höfðu heyrt minnst á fyrir hálfu ári. Nú eru sagðar fréttir af þessu fyrirbrigði í hverri viku eins og um náttúruhamfarir sé að ræða. Enda fara íslensku bankarnir að öllu með gát og halda útlánum til atvinnulífsins og almennings í lágmarki.

Kvartað er undan ofurvöxtum Seðlabanka Íslands. Fólk á erfitt með að skilja að stýrivextir þurfi að vera 13,75% á Íslandi á þegar þeir eru 3 til 5% í Bandaríkjunum, Englandi og í evrulöndum. Á sama tíma og vextir hafa lækkað í þessum löndum hafa þeir hækkað á Íslandi og vaxtamunurinn okkur í óhag fer stöðugt vaxandi. Svörin eru þau að Seðlabankinn hafi það hlutverk að halda niðri verðbólgu  og leggi verðbólgumarkmið til grundvallar. En verðbólga hefur nú verið hátt yfir verðbólgumarkmiði bankans samfellt í nærri fjögur ár. Bankanum hefur mistekist ætlunarverk sitt og þjóðin er föst í vítahring ofurvaxta. Það verður að brjótast út úr þeirri sjálfheldu. Eitt brýnasta verkefni efnahagsstjórnar á Íslandi er að rjúfa þennan vítahring með öllum tiltækum ráðum. Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað óskað eftir því við ríkisstjórnina að markmið Seðlabankans verði tekin til endurmats og að lögum um bankann verði breytt ef nauðsyn krefur.

Spyrja má hvort sé verra fyrir þjóðina tímabundin verðbólga – verðbólguskot – eða langvarandi ofurvextir sem smám saman sliga fólk og fyrirtæki og geta leitt til fjármálakreppu. Hvorugt er heppilegt. En alla kosti verður að skoða með opnum huga og leita allra ráða til að rjúfa þennan skelfilega vítahring ofurvaxtanna.

Í merkri grein sem Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, alþingismenn, birtu í síðustu viku, lýsa þeir svipuðum áhyggjum. Þeir segja að núverandi stýrivextir Seðlabankans séu „geipiháir, sama við hvaða þróað hagkerfi sé miðað.“ Þeir telja að vart sé hægt að halda þessum mikla vaxtamun milli Íslands og umheimsins lengur. Einnig segja þeir orðrétt: „Greinilegt er að seðlabankarnir hafa meiri áhyggjur af stöðu hagkerfanna og þá fyrst og fremst af stöðu fjármálageirans en þeir hafa af verðbólgu. Það er skiljanlegt þar sem afleiðingar fjármálakreppu eru mun alvarlegri og erfiðari viðfangs heldur en verðbólga.“ Máli sínu til stuðnings vísa þeir m.a. í nýlega ræðu Frederic Mishkin sem er í hópi helstu fræðimanna heims á sviði peningamála. Í þeirri ræðu færði Mishkin rök fyrir því að vaxtalækkunarstefna bandaríska seðlabankans væri skynsamleg.

Þrátt fyrir þessi sjónarmið gerir enginn lítið úr slæmum afleiðingum verðbólgu. Okkur langar ekki til að lifa gömlu verðbólgutímana að nýju. Í þessu sambandi skiptir miklu máli að nýgerðum kjarasamningum verði fylgt af festu. Megininntak þeirra var að bæta kjör hinna verst settu sem er gott og göfugt markmið. Það hefur oft verið reynt áður en því miður iðulega mistekist þar sem hækkanir, sem voru ætlaðir hinum lægst launuðu, ruku upp launastigann. Nú eru engar forsendur til þess að kjarabæturnar fari áfram upp launakerfið. Því er brýnt að framkvæmd samninganna fari ekki úr böndunum. Ef það gerist að þessu sinni, leiðir það til verðbólguþrýstings og þá verður þeim mun erfiðara að glíma við meginverkefnið sem er að ná vöxtunum niður.

Ástandið á fjármálamörkuðum leiðir til þess að það snarhægir á allri uppbyggingu í atvinnulífinu. Þenslan var mikil og hún mátti minnka að ósekju. En þær breytingar, sem nú eiga sér stað, eru hraðari og meiri en við gerum okkur auðveldlega grein fyrir. Skerðing aflaheimilda í sjávarútvegi er farin að segja til sín með þunga, erfið loðnuvertíð hjálpar ekki, olíuverð er í hæstu hæðum á heimsmarkaði og það veldur víða búsifjum. Öll hrávara fer hækkandi í heiminum. Snögg umskipti í efnahagslífi hér á landi og erlendis leiða til þess að við Íslendingar siglum nú væntanlega út úr góðu hagvaxtarskeiði og munum horfa fram á hraðversnandi atvinnuástand á næstunni ef ekki kemur til samræmdra aðgerða og stefnubreytingar.

En hvað er til ráða? Þurfum við að sætta okkur baráttulaust við að hverfa á tæpu ári frá bjartri framtíð yfir í mótbyr?

Eftirtaldar breytingar yrðu til bóta og gætu flýtt för okkar upp úr öldudalnum:

  1. Rjúfa þarf vítahring ofurvaxtanna.
  2. Atvinnulífið og stjórnvöld þurfa að taka höndum saman um að bæta orðspor Íslendinga erlendis. Það gengur ekki að ranghugmyndir um íslenskt efnahagslíf, banka og önnur fyrirtæki fái að vaða uppi í erlendum fjölmiðlum og valda ómældum skaða. Ýmsir virðast eiga Íslendingum grátt að gjalda vegna þess vaxtar og uppgangs sem einkennt hefur íslenskt atvinnulíf hin síðari ár. Enginn er annars bróðir í leik og við getum ekki vænst neinnar miskunnar. Fyrir tveimur árum gekk yfir hrina neikvæðrar umfjöllunar um land og þjóð. Þá var brugðist við með samræmdum og myndarlegum hætti. Það skilaði árangri. Nú þurfa stjórnvöld og atvinnulífið að taka höndum saman og beita vinnubrögðum af því tagi og það strax.
  3. Íslensku bankarnir þurfa að ná vopnum sínum og losna undan því háa og ósanngjarna skuldatryggingarálagi sem fyrr var nefnt. Þá fyrst getum við vænst þess að þjónusta bankanna komist í eðlilegt horf. Þjóðfélagið verður að geta reitt sig á öfluga útlánaþjónustu bankanna.
  4. Enn á ný er minnt á nauðsyn þess að ekkert lát verði á uppbyggingu atvinnufyrirtækja í landinu. Það þarf að skjóta fleiri stoðum undir verðmætasköpunina. Við þurfum að taka fagnandi öllum þeim sem vilja koma hér á fót arðbærri atvinnustarfsemi. Gildir þá einu hvort um er að ræða hátækni-eða sprotafyrirtæki, kísilverksmiðju, netþjónabú, álver eða eitthvað annað. Við þurfum að nýta náttúruauðlindirnar til lands og sjávar en án þess að ofgera þeim. Samtök iðnaðarins bjóða alla velkomna sem vilja efla atvinnulífið, standa hér fyrir verðmætasköpun og leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir efnahagslega stöðnun og afturkipp þar sem atvinnuleysi og enginn hagvöxtur yrðu hlutskipti Íslendinga.
  5. Enn á ný er einnig minnt á nauðsyn þess að opinber starfsemi þenjist ekki endalaust út. Það hefur ekki vakið mikla athygli að fjárlög ríkisins hækkuðu að raungildi um 14% milli ára við síðustu afgreiðslu fjárlaga og fjárhagur sveitarfélaga er einnig víða þaninn til hins ýtrasta. Við þurfum einnig að líta okkur nær. Í atvinnulífinu hefur þenslan verið mikil og víða áberandi eyðsla. Svokölluð „ofurlaun“ á ýmsum stöðum hafa farið úr böndum og hleypt illu blóði í fólk. Íslenskur veruleiki er einfaldlega of smár fyrir ýmislegt sem við höfum séð. Ég hygg að flestir viðurkenni það. Vonandi verður tækifærið nú nýtt til að innleiða að nýju aðhald og ráðdeildarsemi. Á sumum bæjum eru vorhreingerningar þegar hafnar eins og skýrt hefur komið fram í máli nýkjörins formanns stjórnar Glitnis banka. Ég hygg að margir muni feta svipaða leið og hann. Sú þróun er reyndar víða hafin af krafti.  Það þarf að komast aftur niður á jörðina í þeim efnum án þess að það dragi úr okkur viljann til að afla tekna og skapa verðmæti.

 

III

 

Góðir fundarmenn!

Samtök iðnaðarins hafa á annan áratug talað fyrir því að Ísland yrði fullgildur þátttakandi í samstarfi Evrópuþjóða. Samtökin studdu EES samninginn heilshugar á sínum tíma og telja að hann hafi reynst þjóðinni vel enda hefur gefist góður tími til að laga íslenska stjórnsýslu að vinnubrögðum ESB. Enda er nú svo komið að talið er að Íslendingar hafi tekið upp 75% af regluverki sambandsins en þessar upplýsingar koma fram í riti Samtaka iðnaðarins um Evrópumálin sem út kom í dag og liggur hér frammi. Með þessu fyrirkomulagi undirgangast Íslendingar allar ákvarðanir Evrópusambandsins á öllum mikilvægustu sviðum atvinnulífsins, þó ekki að fullu varðandi sjávarútveg og landbúnað.

En við látum okkur samt lynda að hafa mjög takmörkuð áhrif og eigum ekki neina talsmenn í  öllum þeim stofnunum hins evrópska samstarfs sem móta framtíð okkar. Ef við tækjum skrefið til fulls og fengjum aðild að Evrópusambandinu yrði stærsta breytingin sú að við gætum orðið aðilar að Myntbandalagi ESB og tekið upp evru, að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Samhliða því tækju Íslendingar þátt í að móta stefnu og taka ákvarðanir innan ESB.

Á iðnþingi árið 1998 var eftirfarandi samþykkt um Evrópumálin:

„Ísland verði fullgildur aðili að samstarfi Evrópuþjóða og íslenskur iðnaður njóti í öllu sambærilegra starfsskilyrða og keppinautar hans í Evrópu. Aðild að Evrópusambandinu verði skoðuð og metin út frá heildarhagsmunum Íslands. Á grundvelli ítarlegrar greiningar og skilgreiningar samningsmarkmiða Íslands verði látið reyna á með umsókn og samningaviðræðum hvort aðild Íslands að Evrópusambandinu sé raunhæfur og fýsilegur kostur.“

Nú 10 árum síðar er stefna Samtaka iðnaðarins óbreytt. En það sem hefur þó breyst er að æ fleiri gera sér grein fyrir kostum þess fyrir Íslendinga að taka skrefið og sækja um aðild að ESB – að loknum öllum þeim undirbúningi sem óhjákvæmilegur er.  Í ályktun Iðnþings frá í morgun segir:

 „Samtök iðnaðarins skora á ríkisstjórnina að taka aðild Íslands að ESB á dagskrá og fela hinni nýju Evrópunefnd sinni það hlutverk að móta samningsmarkmið, fara í saumana á samningaferlinu, undirbúa rök fyrir þeim sjónarmiðum sem við þurfum að halda á lofti vegna sérstöðu okkar og hefjast þegar handa við að finna lausnir sem við getum unað við.  Því betur undirbúin sem við göngum til þessa verks þeim mun betur mun okkur farnast.“

Enn á ný leggjum við til að fram fari vandaður undirbúningur að umsókn og inngöngu í Evrópusambandið þar sem heildarhagsmunir Íslands verði hafðir í fyrirrúmi. Við gerum okkur ljóst að hér er um nokkurra ára verkefni að ræða. Við gerum okkur einnig ljóst að ákvörðun um Evrópustefnu Íslendinga leysir ekki núverandi vanda í efnahagslífi þjóðarinnar.

En við teljum óviðunandi að málinu sé sífellt frestað vegna þess að það taki svo langan tíma að leiða það til lykta eða þá að aldrei sé rétti tíminn til að fjalla um það vegna ýmissa skammtímavandamála sem fyrst þurfi að greiða úr!  Slík svör duga ekki lengur og  engin þörf er á að blanda saman umfjöllun um skammtíma úrlausnarefni og langtíma stefnumörkun. Við erum að tala um langa ferð – og komumst aldrei á leiðarenda ef við leggjum ekki af stað.

Svo virðist sem umræða um þann möguleika að Íslendingar taki upp evru einhliða, án aðildar að ESB, hafi að nokkru marki flækt umræður um Evrópumálin og hleypt þeim út um víðan völl. Ljóst er að veik staða íslensku krónunnar hefur leitt til þess að æ fleiri hafa litið evruna hýru auga. En markvissar umræður á viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands í síðasta mánuði skáru, að flestra mati, endanlega úr um að við getum ekki tekið evru upp einhliða og getum hér eftir einbeitt okkur að því að ræða tvo kosti varðandi framtíðarskipan þessara mála: Að hafa óbreytt ástand þar sem landsmenn búa áfram við veikburða krónu, háa vexti og hátt verðlag nauðsynjavarnings – eða ganga í ESB og taka upp evru að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru fyrir aðgengi að evrópska myntbandalaginu og geta farið að njóta góðs af því að verða hluti af hinu stóra myntkerfi. Um þessa tvo kosti er að velja.

Afstaða Íslendinga til Evrópusambandsaðildar hefur verið mjög skipt á undanförnum árum. Umræða um Evrópumálin hefur víða verið feimnismál og fallið í vandræðalegan farveg. Nú er komið að því að hefja þessi skoðanaskipti upp úr því fari. Það er smám saman að gerast. Sífellt fleiri forystumenn fyrirtækja lýsa áhuga á að skoða af fullri alvöru þann möguleika að stíga skrefið til fulls. Þannig hafa talsmenn allra stærstu bankanna tjáð sig, svo og stjórnarformaður stærsta fyrirtækis landsins. Þetta er skiljanlegt því að þeir sem reka íslensk fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum finna ekki síst fyrir veikleika krónunnar. Íslensk fjármálafyrirtæki hafa vaxið svo hratt á undanförnum árum að íslenska myntkerfið er orðið of smátt fyrir þá og Seðlabankinn hefur vart nægilegt afl til að vera þeim nauðsynlegur bakhjarl. Íslenska krónan er minnsta myntkerfi í heimi og þessi örmynt mun að óbreyttu hamla frekari vexti fjármálakerfisins og annars atvinnurekstrar á Íslandi.

Stuðningur almennings við aðildarumsókn að Evrópusambandinu fer nú vaxandi. Skoðanakönnun Fréttablaðsins frá í síðustu viku sætir tíðindum. Spurt var. Á Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu?  55% sögðu já en 45% sögðu nei. Fyrir tveimur árum sögðu 34% já en 66% nei og fyrir ári var niðurstaðan svipuð. Glæný Gallup-könnun sem gerð var fyrir Samtök iðnaðarins sýnir enn meiri stuðning við ESB aðild en könnun Fréttablaðsins. Á skömmum tíma hafa orðið straumhvörf í afstöðu Íslendinga til Evrópusambandsaðildar. Það má eflaust rekja til meiri umræðu og upplýsingaflæðis um þessi mál auk þess sem sú niðurstaða flestra, að evra verði ekki tekin upp án aðildar, hefur einfaldað alla umræðuna og skýrt kostina. Þeir eru einungis tveir eins og fyrr var nefnt.

Þegar rýnt er í niðurstöður þessarar könnunar, vekur ekki síður athygli hvernig afstaða fólks skiptist eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Nú er svo komið að 40,3% sjálfstæðismanna vilja að Ísland sæki um aðild að ESB, helmingur kjósenda Frjálslynda flokksins og 55% vinstri grænna! Einhvern tíma hefði þetta þótt saga til næsta bæjar! Samkvæmt þessari könnun vilja um 57% stuðningsmanna ríkisstjórnarflokkanna að Íslendingar sæki um aðild að ESB.

Því hefur verið haldið fram að undirbúningur að aðildarumsókn verði ekki á dagskrá fyrr en tiltekinn meirihluti landsmanna vill það og að vilji sé fyrir því a.m.k. í núverandi stjórnarflokkum sem njóta stuðnings um 2/3 hluta þings og þjóðar. Einnig þurfi að koma til sæmileg sátt innan verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins. Ég segi sæmileg sátt vegna þess að skoðanir verða alltaf skiptar í stórum flokkum og hreyfingum um mál af þessu tagi. Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur til þessa lýst andstöðu við aðild að ESB. En aðstæður breytast hratt og endurspegli  fyrrnefndar skoðanakannanir veruleikann, hlýtur flokkurinn að taka það alvarlega ef hraðvaxandi hópur stuðningsmanna hans – nú 40% -  vill að Íslendingar sæki um aðild. Forysta á að leiða en ekki hrekjast undan og hlutverk hennar er að lesa í strauma og undiröldur á hverjum tíma. Ég leyfi mér að vera bjartsýnn á að forysta Sjálfstæðisflokksins opni brátt augun og  líti til aðildar að ESB. Þá kemst stóraukinn skriður á málin.

Því má ekki gleyma að Sjálfstæðisflokkurinn hefur jafnan farið fyrir helstu ákvörðunum Íslendinga þegar efnt hefur verið til samstarfs við alþjóðleg samtök og bandalög. Hann var í forystu þegar við gengum í NATO – og það var ekki átakalaust. Sama gildir um aðild Íslendinga að EFTA, EES og Shengen. Það gekk heldur ekki átakalaust fyrir sig að samþykkja aðild Íslands að EES – sem flestir keppast nú við að dásama. Þannig skiptust þingmenn Framsóknarflokksins í tvo hópa í afstöðu sinni til aðildar og fleyg eru orð Páls Péturssonar við umræður um málið á Alþingi þegar hann sagði að EES samningurinn ætti eftir að færa Íslendingum „ósjálfstæði, atvinnuleysi, fátækt og auðnuleysi.“

Reynslan hefur sannarlega orðið önnur og ætti að vera okkur hvatning til að taka næstu skref. En enginn þarf þó að búast við að stórar ákvarðanir af þessu tagi verði teknar átakalaust. Aðstæður  breytast hratt og ég trúi því að innan fárra ára muni helstu stjórnmálaöfl þjóðarinnar taka höndum saman um að leiða okkur inn í Evrópusambandið.

Í síðustu viku birti þýski bankinn Dresdner Kleinwort skýrslu þar sem sagði að vænlegast væri fyrir Íslendinga, þegar til lengri tíma væri litið, að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Í skýrslu bankans segir að sjálfkrafa evruvæðing sé þegar hafin hér á landi. Fyrirtæki vilji gera upp í evrum og skrá hlutafé í evrum. Launþegar geti fengið hluta launa greiddan í evrum og sífellt fleiri taki lán í erlendri mynt. Erfitt sé að snúa þessari þróun við og því brýnt að stjórnvöld móti trúverðuga og heildstæða stefnu til framtíðar. Að öðrum kosti væri efnahagslegum stöðugleika stefnt í voða og lánshæfismat gæti lækkað. Talsmenn Dresdner líta þannig á að með því að hefja strax aðildarviðræður mætti draga stórlega úr hættunni á fjármálakreppu vegna núverandi lausafjárskorts.

 

Góðir fundarmenn.

Hver yrði ávinningur Íslendinga af aðild að  Evrópusambandinu og hvað gæti tapast? Þetta eru auðvitað grundvallarspurningar málsins því að ekki förum við að sækjast eftir aðild nema að ávinningurinn fyrir þjóðina verði mun meiri en hugsanlegir ókostir.

Allt bendir til þess að neysluvöruverð á Íslandi geti stórlækkað við aðild. Í niðurstöðu samanburðarkönnunar sem gerðar voru árin 2005 og 2006 og skýrt var frá í fjölmiðlum í síðasta mánuði, kom fram að verðlag á Íslandi er 42% yfir verðlagi 36 annarra Evrópuríkja og 64% hærra þegar einungis er litið á mat og drykkjarvörur. Varla verður  dregið í efa að ESB aðild hefði í för með sér verulega lækkun neysluverðs á Íslandi. Áður hefur verið rætt um ofurvexti á Íslandi, 13.75% stýrivexti meðan þeir eru nú 4% á evrusvæðinu. Vextir á Íslandi hlytu að lækka og taka mið af evruvöxtum á einhverjum tíma. Auk þess sem afleiðingar óstöðugrar krónu hyrfu væntanlega. Eftir inngöngu í Efnahags- og myntbandalag Evrópu og upptöku evru hefðum við stuðning af hinum sterka bakhjarli, Seðlabanka Evrópu, og það hlyti að skipta sköpum fyrir fjármálafyrirtækin og eyða óvissu á borð við þá sem nú herjar á íslenska banka og dregur mjög úr umsvifum í þjóðfélaginu. Fjölmargt annað kæmi okkur til góða, m.a. á sviði mennta-og menningarmála.

Af hugsanlegum ókostum hefur einkum verið bent á ótta við að missa full yfirráð yfir sjávarauðlindunum og þar með að skaða hagsmuni sjávarútvegsins. Einnig eru talsmenn landbúnaðarins uggandi. Þá er gjarnan talað um flókið skrifræðisbákn og regluverk Evrópusambandsins og loks að smáþjóðir ráði engu í svo stóru bandalagi þannig að Íslendingar myndu afsala sér yfirráðum yfir eigin málum til bákns sem tæki takmarkað tillit til hagsmuna smáþjóðar. Lítum nánar á:

Íslendingar hafa þegar tekið upp 75% af regluverki Evrópusambandsins – án þess að njóta kostanna sem felast í áhrifum og mótun þeirra, þar sem við erum ekki aðilar að ESB.

Full ástæða er til að ætla að viðunandi lausn finnist í samningaviðræðum við Evrópusambandið um sjávarútvegs-og landbúnaðarmálin. Samningaviðræðurnar myndu ekki síst snúast um þessi mál og víst er að Íslendingar munu ekki ganga í ESB nema viðunandi lausn náist í því efni. Enginn leggur til að við hefjum þetta samstarf án þess að árangur náist á þessum sviðum. Það er einkum þarna sem þarf að vanda allan undirbúning og komast að því með skýrum og klárum hætti hver yrðu samningsmarkmið Íslendinga. Ef til inngöngu í ESB kæmi, þyrftu Íslendingar að tryggja sér í samningum sama hlutfall heildarafla á Íslandsmiðum og fyrir inngöngu enda er talið að það næðist á grundvelli sögulegra veiðiréttinda.

Eftirfarandi er haft eftir Ólafi Stephensen, stjórnmálafræðingi og ritstjóra 24 stunda: „Það er tómt rugl og búið að sýna fram á með gildum rökum að það er engin hætta á að íslensk fiskimið fyllist af útlendum togurum. Spurningin um sjávarútveginn er miklu frekar tilfinningaleg spurning um fullveldi en spurning um efnahagsmál. Það myndi í reynd mjög lítið breytast í sjávarútvegsmálum á Íslandi. Það sem myndi fyrst og fremst breytast er að lokaákvörðun um heildarafla á Íslandi yrði formlega tekin í ráðherraráði Evrópusambandsins.“

Það er rangt að smáríki innan ESB séu sniðgengin og ráði engu. Smærri aðildarríkjum innan ESB hefur vegnað vel enda er þeim mikilvægara en öðrum að vera hluti af innri markaði sambandsins.

Fyrir liggur að fjöldi smáríkja hefur tekið þátt í þessu samstarfi í lengri eða skemmri tíma og talið það henta hagsmunum sínum vel. Dæmi um það eru Lúxemborg, Kýpur, Írland, Danmörk og Finnland. Reynsla þeirra er ekki sú að stórveldin standi saman gegn þeim smærri heldur að hin ýmsu ríki myndi mismunandi bandalög sín á milli um tiltekna hagsmuni á hverjum tíma. Þannig sagði forsætisráðherra Luxemborgar í síðustu viku, en Luxemborg er eitt að stofnríkjum ESB og hefur m.a. átt forseta framkvæmdastjórnar sambandsins: „Ef Ísland gengi í sambandið myndi það hafa mikil áhrif. Það er ekki aðeins í orði, heldur líka oft í verki, sem við gerum ekki upp á milli stórra og lítilla aðildarríkja. Við tökum virkan þátt í stefnumótun ESB og höfum mikinn metnað.“

Í Lúxemborg búa einungis 470.000 manns. Er líklegt að sú smáþjóð hefði verið með í Evrópusambandinu allan tímann, ef henni hefði liðið bölvanlega í þessu bandalagi?

 

IV

 

 Góðir fundarmenn, að lokum þetta:

Það er ekki eftir neinu að bíða. Íslendingar eru tilbúnir, faglega séð. Þekking á Íslandi innan kerfisins í Brussel er talsverð vegna EES samningsins. Ísland er óumdeilt lýðræðisríki með stöðugt pólitískt kerfi, hefur notið efnahagslegrar velgengni og hefur þegar innleit ¾ hluta af regluverki ESB. Flest bendir til að efnahagslegum hagsmunum okkar sé betur borgið með aðild að sambandinu. Flest bendir einnig til þess að aðildarumsókn frá Íslandi yrði vel tekið og að samningaviðræður þyrftu ekki að taka langan tíma.

Við þurfum að gera stjórnarskrárbreytingu og það tekur tíma. Það þarf að skilgreina samningsmarkmiðin og Íslendingar þurfa að ganga til samninga fullir vissu um að ná fram þeim markmiðum sem við munum setja okkur. Við stígum ekki skrefið nema viðunandi árangur náist, einkum varðandi hagsmuni sjávarútvegs.

Enn þarf tíma fyrir stóra hópa Íslendinga til að komast yfir pólitíska og tilfinningalega þröskulda. Það er sanngjarnt að gefa tóm til þess.

En nýtum tímann engu að síður vel til undirbúnings og leggjum svo upp í þessa nokkurra ár langferð með markmiðin skýr og metnaðarfull gagnvart hagsmunum Íslands, staðráðin í að ná árangri sem skilar Íslendingum fram á veginn. Hrekjumst ekki inn í samstarf. Freistum þess að stýra ferðinni og leiða framvinduna.

Komum vel undirbúin til Brussel og knýjum þar dyra í öruggri vissu um hvað við viljum og staðráðin í að ná fram öllu því sem er Íslendingum fyrir bestu. Þannig skulum við móta okkar eigin framtíð!

 

Takk fyrir.