Efni tengt Iðnþingi 2008

Ályktun Iðnþings 2008

Öll iðnfyrirtæki þarfnast sama grundvallar til að vaxa, dafna og skila eigendum sínum og samfélaginu arði. Stöðug­leiki verður að ríkja í efnahagslífinu, vöxtur að vera jafn og öruggur og starfsskilyrði, sem eru í valdi stjórnvalda, eins hagfelld og kostur er. Undanfarin ár hafa íslenskur iðnaður og atvinnulíf tekið stakkaskiptum. Vöxtur hefur verið mikill og alþjóðavæðing atvinnulífsins verið hröð.

Þó að vel hafi gengið er langt í frá að tekist hafi að tryggja stöðugleika. Ekki þarf að fjölyrða um sveiflur í gengi krónunnar, óbæri­lega háa vexti, verðbólgu og viðskiptahalla. Verkefnið er síður en svo auðvelt og engar skyndilausnir tiltækar. Þess vegna er nauðsynlegt að marka stefnu til langs tíma og fækka áhættuþáttum. Búa þarf efnahagsstjórninni trúverðuga umgjörð og skapa henni nauðsynlegt aðhald. Reynslan sýnir að núverandi kerfi dugar okkur ekki og er á ýmsan hátt til trafala.  

Samtök iðnaðarins hafa um árabil beitt sér fyrir faglegri og málefnalegri umræðu um Evrópumálin. Í ályktun Iðnþings fyrir ári var lögð áhersla á að Íslendingar kæmust að niðurstöðu varðandi afstöðu til Evrópusambandsins á þessu kjörtímabili. Staða efnahagsmála hefur leitt til þess að innganga í Evrópusambandið og upptaka evru eru til meiri og alvarlegri umræðu í íslensku atvinnulífi en áður hefur verið. Flestir eru nú sammála um að einhliða upptaka evru komi ekki til greina og því sé ekki um aðra kosti að ræða en að ganga í Evrópusambandið eða halda óbreyttu fyrirkomulagi.

Samtök iðnaðarins skora á ríkisstjórnina að taka aðild Íslands að ESB á dagskrá og fela hinni nýju Evrópunefnd sinni það hlutverk að móta samningsmarkmið, fara í saumana á samningaferlinu, færa rök fyrir þeim sjónarmiðum sem við þurfum að halda á lofti vegna sérstöðu okkar og hefjast þegar handa við að finna lausnir sem við getum unað við. Því betur undirbúin sem við göngum til þessa verks þeim mun betur mun okkur farnast.