1. nóv. 2002

Bjartari horfur í iðnaði

Samtök iðnaðarins gerðu könnun í október á stöðu og horfum í starfsemi 80 meðalstórra og stórra fyrirtækja. Taflan sýnir að velta í iðnaði í ár dregst saman um rúm tvö prósent. Að raunvirði (að frádregnum verðbreytingum) verður samdrátturinn mun meiri eða um sjö prósent. Mestur hefur samdrátturinn orðið í byggingastarfsemi, jarðvinnu og upplýsingatækni en nokkur uppsveifla í matvæla- og drykkjaiðnaði. Á árinu er áætlað að fjárfesting iðnfyrirtækja dragist saman um tíu prósent, sem er nær 15 prósent að raunvirði. Nú er ljóst að samdráttur í iðnaði hefur verið verulegur í ár.

Fjöldi starfsfólks hjá þessum fyrirtækjum var að meðaltali sá sami frá byrjun ársins fram í október. Þó var árstíðabundin aukning í starfsemi fyrirtækja í jarðvinnu en fyrirtæki í upplýsingatækni minnkuðu við sig vegna samdráttar. Nú, þegar vetur er genginn í garð, ráðgera fyrirtæki í jarðvinnu að fækka starfsfólki töluvert og stöðnun í byggingastarfsemi útskýrir meiri fækkun þar. Nokkru minni samdráttur er í mannahaldi hjá fyrirtækjum í matar- og drykkjariðnaði og í málm- og skipasmíðum. Samanlagt er ráðgert að fækka starfsfólki hjá meðalstórum og stórum iðnfyrirtækjum um þrjú og hálft prósent fram að áramótum.

Á næsta ári er spáð að velta iðnfyrirtækja aukist um fjögur og hálft prósent, eða um tvö prósent að raunvirði. Batahorfurnar eru hvað bjartastar upplýsingatækni og prenti. Þá er lítilsháttar samdráttar að vænta í byggingastarfsemi og jarðvinnu á komandi ári. Taka ber fram að þessi spá gerir ekki ráð fyrir stóriðjuframkvæmdum. Ef af þeim verður munu horfur í þessum greinum, ásamt málm- og skipasmíðum batna hvað mest.

Miðað við að mörg fyrirtæki eru að ljúka ýmsum aðgerðum til að hagræða í rekstri og að samdráttur hefur verið í fjárfestingum í ár er því spáð að fjárfestingar aukist á komandi ári um fjörutíu og sex prósent. Miklar fjárfestingar hjá einu fyrirtæki í prenti hafa talsverð áhrif til hækkunar. Án þeirra hefði samdráttur í fjárfestingum verið meiri í ár og minni uppsveiflu að vænta á næsta ári. Mestri aukningu í fjárfestingu utan prentgeirans er spáð í matvæla- og drykkjariðnaði og plast- og veiðarfæragerð en þar gæti fjárfesting aukist yfir fjörutíu prósent. Horfur eru á að fjárfesting í málm- og skipasmíðaiðnaði aukist um fimmtán prósent en áframhaldandi samdrætti er spáð í fjárfestingum á sviði upplýsingatækni.

Þorsteinn Þorgeirsson