Flugsamgöngur


Alþjóðaflugvellir á Íslandi eru 4 talsins: Keflavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur. Miðstöð millilandaflugs er í Keflavík en umferð um völlinn hefur verið í stöðugum vexti undanfarin ár. Völlurinn er nú í 5. sæti yfir fjölförnustu flugvelli Norðurlanda en um 7 milljónir farþega fóru um völlinn árið 2016, um þrefalt fleiri en árið 2012. Til viðbótar við Keflavíkurflugvöll hefur verið boðið upp á flug til Grænlands og Færeyja frá Reykjavíkurflugvelli og til Grænlands frá Akureyrarflugvelli. Þá er leiguflug allt árið til og frá Akureyri og Egilsstöðum á ýmsa áfangastaði í Evrópu. Einnig er umferð einkaflugvéla allt árið á alla flugvellina.

Innanlandsflugvellir og lendingarstaðir í umsjá Isavia sem þjóna innanlandsflugumferð eingöngu eru 42 talsins, þar af eru 16 með bundnu slitlagi, 22 með malarslitlagi og 4 með grasbrautum. Flogið er beint frá Reykjavík til Bíldudals, Ísafjarðar, Gjögurs, Akureyrar, Húsavíkur, Egilsstaða, Hafnar í Hornafirði og Vestmannaeyja. Flogið er frá Akureyri til Reykjavíkur, Keflavíkur, Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar.

  • Keflavíkurflugvöllur
    Endurstofnvirði: 190–230
    milljarðar króna
    Uppsöfnuð viðhaldsþörf: 0 krónur
  • Aðrir flugvellir og lendingarstaðir
    Endurstofnvirði: 50–60
    milljarðar króna
    Uppsöfnuð viðhaldsþörf:
    2–3 milljarðar króna
  • 4 KEFLAVÍKURFLUGVÖLLUR
  • 2,5 AÐRIR FLUGVELLIR OG LENDINGARSTAÐIR
  • Grænt KEFLAVÍKURFLUGVÖLLUR
  • Rautt AÐRIR FLUGVELLIR OG LENDINGARSTAÐIR

Ástand

4 KEFLAVÍKURFLUGVÖLLUR

Keflavíkurflugvöllur er fjármagnaður af notendum að því undanskildu að hið opinbera styrkir tiltekna þjónustu í almannaþágu. Endurstofnvirði vallarins er metið á bilinu 190–230 milljarðar króna.

Flugbrautir, flughlöð og akbrautir. Flugbrautum, flughlöðum og akbrautum er gefin hæsta einkunn en Samgöngustofa sér um að gæðakröfum sé framfylgt í rekstri og viðhaldi með reglubundnum úttektum. Flugbrautir og flugstæði uppfylla því að fullu kröfur og gæðastaðla alþjóðlegra flugmálayfirvalda á hverjum tíma.

Byggingar og þjónusta. Flugstöðinni er gefin lægri einkunn en hún samanstendur af nýrri byggingum sem tengjast við eldri. Eðli málsins samkvæmt setur það framtíðarþróun vallarins einhverjar skorður. Margs konar frekari tekjumöguleikar eru þó fyrir hendi tengdir rekstri flugvallarins, gistingu, flughafnarþjónustu og fleiru.

Búnaður og tæki. Úttekt á gæðum flugstjórnar- og öryggistækja eru á forræði Samgöngustofu. Einkunn þeirra er metin 4 en Ísland er skuldbundið til að fara að alþjóðlegum öryggisreglugerðum með tilheyrandi framfylgd gæðakrafna. Öllum umhverfislögum er framfylgt í samræmi við stefnu stjórnvalda og alþjóðlegar samþykktir.

Viðhaldsþörf á vellinum er hér ekki metin, enda ástand hans metið gott og reglubundnu viðhaldi sinnt eftir þörfum.

2,5 AÐRIR FLUGVELLIR OG LENDINGARSTAÐIR

Aðrir flugvellir sem Isavia starfrækir sinna einkum innanlandsflugi en Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur teljast til alþjóðaflugvalla. Endurstofnvirði annarra flugvalla og lendingarstaða er metið 40–50 milljarðar króna. Hér er horft til fasteigna, flugbrauta, flughlaða, akbrauta, öryggissvæða, bílastæða og flugstjórnartækja. Þó er margt annað sem kemur til og erfitt reynist að meta m.a. tækjakost, vélageymslur, o.fl. Í ljósi þessa er endurstofnvirðið sett fram á bili.

Endurstofnvirði flugstjórnarmiðstöðvar í Reykjavík er metið um 7 milljarðar króna en um fjórðungur flugs yfir N-Atlantshafið fer um íslenska flugstjórnarsvæðið.

3 ALÞJÓÐAFLUGVELLIR – REYKJAVÍK, AKUREYRI OG EGILSSTAÐIR

Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur eru skilgreindir sem alþjóðaflugvellir. Ástand þeirra er metið til einkunnarinnar 3, misgott eftir þáttum þó.

Flugbrautir, flughlöð og akbrautir. Ástand flugbrauta á Reykjavíkurflugvelli er ágætt en önnur flugbrautin er þó með of þröngt öryggissvæði miðað við reglugerð Evrópusambandsins sem kemur til innleiðingar á árinu 2017.

Ástand flugbrauta á Akureyrarflugvelli er einnig ágætt en ekki er sömu sögu að segja af Egilsstaðaflugvelli en þar hefur myndast mikil endurnýjunarþörf malbiks á flugbrautinni. Þá þarf að stækka flughlöð á Akureyri og Egilsstöðum og endurnýja flughlað í Reykjavík en á öllum flugvöllum hefur borið á frávikum frá flugvallarreglugerð vegna ófullnægjandi skilyrða. Ef fer fram sem horfir mun flughlaðið á Reykjavíkurflugvelli t.d. ekki uppfylla nýja reglugerð um varnir gegn olíumengun og þá er stækkun flughlaða á Akureyri og Egilsstöðum nauðsynleg vegna hlutverks þeirra sem varaflugvellir.

Byggingar. Húsnæði á Reykjavíkurflugvelli hefur ekki fengið nægjanlegt viðhald, leki hefur myndast í ýmsum byggingum og mygla ógnar starfsemi. Þörf hefur myndast fyrir stækkun flugstöðvar í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum ásamt því að fjölga þarf bílastæðum. Þá þarf nýja vélageymslu á Reykjavíkurflugvelli og færa þarf eldsneytisstöðvar á Akureyrarflugvelli.

Búnaður og tæki. Til að uppfylla nýjustu reglugerðir þarf að endurnýja aðflugsljós á flugbrautum á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík. Hlaðlýsingu og akbrautarljósum á Reykjavíkurflugvelli er ábótavant. Endurnýja þarf sendahús og mastur á Reykjavíkurflugvelli. Á öllum flugvöllum hefur myndast mikil endurnýjunarþörf tækja, m.a. snjóhreinsitækja og snjóblásara, sanddreifara til hálkuvarna, brautarsópa, björgunarbáta og slökkvibifreiða.

2 INNANLANDSFLUGVELLIR OG LENDINGARSTAÐIR

Ástandi vallanna er gefin einkunnin 2, misgott eftir þáttum.

Flugbrautir, flughlöð og akbrautir. Lagfæra þarf yfirborð flugbrauta í Vestmannaeyjum og endurnýja klæðingu á flugbraut í Bíldudal og á Ísafirði. Á Ísafirði þarf til viðbótar að lagfæra sjávargrjóthleðslu til þess að hindra að sjógangur brjóti af öryggissvæði sem myndi leiða til lokunar flugvallarins. Varaflugvöllur Ísafjarðar, Þingeyri, er lokaður á veturna vegna ónýts burðarlags í flugbraut. Endurbyggja þarf bílastæðin á Ísafirði og verulegra lagfæringa er þörf á öryggissvæðum í Vestmannaeyjum. Á Þórshöfn þarf að endurbyggja hluta flugbrautar og komið er að endurnýjun slitlags á Stóra-Kroppi og á Sandskeiði. Stutt er í að endurnýja þurfi slitlag á Bakka og í Reykjahlíð.

Byggingar. Stækka þarf vélageymslu á Hornafirði og tækjaog sandgeymslu vantar á Bíldudal ásamt því að flugstöðin er í mikilli viðhaldsþörf. Flugstöðin á Hornafirði þarfnast einnig viðhalds.

Búnaður og tæki. Endurnýja þarf veðurmælibúnað á nær öllum völlum og komið er að endurnýjun á aðflugsbúnaði fyrir flugvöllinn í Gjögri. Endurnýja þarf ljósabúnað á Hornafirði og tækjakostur Þingeyrarflugvallar er langt frá því viðunandi.


FRAMTÍÐARHORFUR

Grænt KEFLAVÍKURFLUGVÖLLUR

Isavia er með langtímaáætlanir, þarfagreiningar og heildaráætlun fyrir Keflavík „Keflavik Masterplan“. Áætlunin miðar að því að flugvöllurinn geti tekið á móti allt að 25 milljónum farþega árið 2040.

Stækkunin verður framkvæmd í nokkrum áföngum og ræðst stærð þeirra af því hversu mikil og hröð farþegaaukningin verður. Ljóst er að fyrsti áfanginn verður stór vegna mikillar uppsafnaðrar þarfar. Nýjustu áætlanir gera ráð fyrir framkvæmdum upp á 70 til 90 milljarða króna á Keflavíkurflugvelli á næstu fimm til sex árum vegna aukinnar umferðar. Allt að 60 þúsund manns gætu haft vinnu á flugvallarsvæðinu undir lok þróunaráætlunar árið 2040.

IATA spáir því að farþegafjöldi í millilandaflugi á heimsvísu muni tvöfaldast fyrir árið 2035. Keflavíkurflugvöllur getur tekist á við þessar áskoranir að því gefnu að langtímaáætlunin standi undir framtíðareftirspurn. Framtíðarhorfur eru metnar jákvæðar en í því samhengi ber einnig að skoða aðrar óbeinar fjárfestingar, s.s. samgöngur til og frá vellinum. Ekki er ástæða til að ætla annað en að slíkt verði leyst farsællega.

Rautt AÐRIR FLUGVELLIR OG LENDINGARSTAÐIR

Gerð hefur verið áætlun til ársins 2025 um fjármagnsþörf vegna reksturs innanlandsflugvallakerfisins, að frádregnum notendagjöldum. Annars vegar er um að ræða rekstur og hins vegar framkvæmdir, þ.e. nýfjárfestingar og meiri háttar viðhald.

Til grundvallar áætluninni liggur farþegaspá, ástandsmat, núverandi þjónustustig og full framfylgd gildandi laga og reglugerða. Í öllum áætlunum er miðað við ásættanlegt viðhald flugbrauta, bygginga, rafbúnaðar, véla og tækja.

Heildarkostnaður við kerfið að frádregnum notendagjöldum er áætlaður um 40 milljarðar króna fram til ársins 2025 en kostnaður vegna nýfjárfestinga og viðhalds eingöngu er metinn um 17 milljarðar króna. Samkvæmt samgönguáætlun 2015–2026 er áætlað að verja um 14 milljörðum í viðhald og fjárfestingar og um 18 milljörðum í rekstur kerfisins, samtals um 32 milljörðum króna. Það er því ljóst að ekki verður komið til móts við áætlaða viðhalds- og fjárfestingarþörf að óbreyttu og erfitt verður að halda uppi ásættanlegu þjónustustigi. Framtíðarhorfur eru því metnar neikvæðar.

Erfitt reynist að áætla kostnað við að koma kerfinu upp í flokk 4, en kostnaðurinn hleypur líklega á milljörðum króna. Uppsöfnuð þörf á viðhaldi og framkvæmdum á innanlandsflugvöllum er um 850 milljónir króna í mikilvægar aðgerðir og 320 milljónir í brýnar aðgerðir, samtals tæpir 1,2 milljarðar króna. Líklegt er að kostnaður við að koma kerfinu upp í flokk 4 sé ívið meiri eða 2–3 milljarðar króna.

RÁÐLEGGINGAR

FORGANGSRÖÐUN FJÁRFESTINGA

Líklegt er að samkeppnisstaða innanlandsflugs gagnvart samgöngum á landi og sjó sé að mestu skert til frambúðar. Vegabætur, tækniframfarir, fákeppni á flugmarkaði, fámenn byggðarlög, óhagræði stærðar o.m.fl. hafa gert að verkum að innanlandsflug hefur gengið í gegnum mikið hnignunarskeið. Móta þarf stefnu um hvaða flugvöllum og lendingarstöðum skuli viðhalda fyrir áætlunarflug og hvaða flugvöllum beri að viðhalda út frá öryggissjónarmiði. Tryggja verður þá uppbyggingu og viðhald á stærri flugvöllum, sem eru veigamikill hluti af almenningssamgöngukerfi landsmanna.

Aðkoma fleiri aðila. Allar aðgerðir sem lúta að aukinni framleiðni og skilvirkni innan flugvallareksturs eru af hinu góða. Skoða ætti möguleikann á því að fleiri aðilar komi að rekstri innanlandsflugvalla, t.d. einkaaðilar og/eða sveitarfélög sem hafa hagsmuni af uppbyggingu þeirra. Slíkt er fýsilegra á stærri flugvöllum sem eru mikilvægir vegna ferðaþjónustu eða þjóna mikilvægu hlutverki sem varaflugvellir. Til dæmis má nefna að um 41% af evrópskum flugvöllum voru að öllu leyti eða að hluta til í eigu einkaaðila árið 2016.

Skoða mætti kosti og galla þess að einkaaðilar komi að rekstri Keflavíkurflugvallar að hluta eða öllu leyti, m.a. í ljósi þeirrar fjárfestingarþarfar sem fram undan er. Með slíkri aðkomu yrði unnt að tilfæra rekstrar- og framkvæmdaáhættu í meiri mæli frá skattgreiðendum til einkaaðila og stuðla að virkari kostnaðarstýringu, nýsköpun í þjónustu og hagnaðarhámörkun, samfélaginu til hagsbóta.

Sjálfbær þróun og samfélagsábyrgð. Þróun flugvalla og innviðir tengdir þeim verða að taka mið af þeim neikvæðu ytri áhrifum sem flugumferð hefur á umhverfið. Skilgreina þarf formlega verkferla kringum umhverfisaðgerðir og umhverfisvitund með skýrri markmiðasetningu og árangursmælikvörðum.

HVERNIG KOMUM VIÐ Á BREYTINGUM?

EIGNARHALD OG ÁÆTLANAGERÐ

Ríkið greiðir rúmlega 2/3 af kostnaði við flugvelli gegnum þjónustusamning við Isavia sem gerður er til eins árs í senn. Erfitt reynist að gera haldbærar áætlanir um rekstur, viðhald og framkvæmdir af þessum sökum. Mögulegar leiðir í þessu samhengi eru:

  • Að ríkið haldi eignarhaldi sínu óbreyttu en geri lengri þjónustusamninga við Isavia, t.d. til 5 ára í senn, til að treysta áætlanagerð og auka fyrirsjáanleika. Þannig er hægt að tryggja rekstrargrundvöll flugvallanna til lengri tíma, auka skilvirkni og lækka kostnað.
  • Að allt eignarhald innanlandsflugvalla sé fært frá ríki í hendur opinbera hlutafélagsins Isavia og stjórnun og áætlanagerð sé þannig sett á eina hendi. Skoða mætti möguleikann á því að úthýsa rekstri á minni lendingarstöðum og að rekstur flugvalla utan leiðakerfis sé boðinn út.

GJALDTAKA Í INNANLANDSFLUGI OG FARMIÐAVERÐ

Notendagjöld hér á landi eru lág í alþjóðlegum samanburði og standa aðeins undir 1/3 af rekstri innanlandsflugvalla. Stefna ætti að því að notendagjöld á innanlandsflugvöllum endurspegli í meiri mæli kostnað við rekstur og þannig leitast við að gera rekstur þeirra sjálfbæran í auknum mæli. Á minni flugvöllum mætti svo skoða möguleikann á því að beina ríkisstyrkjum sértækt til notenda, annað hvort með því að beina styrkjum beint til íbúa eða óbeint í gegnum styrki til flugrekenda. Leita þarf þá leiða til að auka samkeppni á flugleiðum í innanlandsflugi.

AÐKOMA EINKAAÐILA AÐ REKSTRI KEFLAVÍKURFLUGVALLAR

Sé talið fýsilegt að einkaaðilar komi að rekstri Keflavíkurflugvallar koma ýmsir kostir til greina:

  • Tímabundinn samningur um uppbyggingu og rekstur afmarkaðs hluta flugvallar, t.d. nýrri flugstöð, vöruflutningamiðstöðvar og bílastæðahúss (JFK – Flugstöð 4, Flughafen München – Flugstöð 2).
  • Tímabundinn samningur um uppbyggingu og rekstur flugvallar í heild sinni með einkaréttarsamningi til ákveðins tíma (London Luton, Athens International).
  • Sala á hlutabréfum í eignarhaldsfélagi (Heathrow, Charles De Gaulle, Kastrup, Brussels Airport). Í ofangreindu samhengi þarf að huga að samkeppnissjónarmiðum með verðlagningu þjónustunnar í huga.


RÝNI

Kaflinn gefur gott yfirlit og nokkuð sanngjarnt mat á núverandi ástandi og rekstrarstöðu flugvalla og tengdra mannvirkja. Ástand Keflavíkurflugvallar er metið gott og hefur rekstur hans verið fjárhagslega sjálfbær um árabil. Aðrir flugvellir landsins búa flestir við vanhöld og erfiðan fjárhag, þó þeir stærri séu í þokkalegu ástandi. Uppsöfnuð viðhaldsþörf þeirra flugvalla er metin 2–3 milljarðar. Mikilvægt er að mótuð sé stefna varðandi uppbyggingu og viðhald á flugvöllum, bæði með tilliti til almenningssamgöngukerfisins og öryggis almennings í landinu.

Jónas Þór Snæbjörnsson, prófessor, tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík

HEIMILDIR

  • Samgönguáætlun 2015–2026.
  • Innanlandsflug, umferð, rekstur og sviðsmyndir framtíðar – Isavia.
  • Endurstofnvirði Keflavíkurflugvallar – Isavia.
  • Endurstofnvirði innanlandsflugvalla – Mannvit, fasteignaskrá.
  • Almennar upplýsingar um flugvallakerfið – ýmsir.