Fréttasafn



17. mar. 2020 Almennar fréttir

Aðalfundur SI verður rafrænn

Aðalfundur Samtaka iðnaðarins, Iðnþing, verður haldinn fimmtudaginn 16. apríl næstkomandi. Í ljósi samkomubanns stjórnvalda og þeirra aðstæðna sem eru í samfélaginu verður fyrri hluti Iðnþings, sem eingöngu er fyrir félagsmenn, haldinn með rafrænum hætti. Seinni hluti Iðnþings, sem er opið málþing um hagsmunamál iðnaðarins, færist til haustsins.

Í samræmi við lög Samtaka iðnaðarins fara fram rafrænar kosningar í tengslum við Iðnþing. Í ár verður kosið um formann og fimm almenn stjórnarsæti. Hver félagsaðili hefur atkvæði í hlutfalli við greidd félagsgjöld ársins 2019 og hverjum heilum 1.000 krónum í greiddum félagsgjöldum fylgir eitt atkvæði. Fái félagsaðili afslátt af félagsgjöldum vegna skilvísra greiðslna reiknast fjárhæð afsláttar jafnframt til atkvæðamagns. Tekið skal fram að enn er hægt að öðlast atkvæðisrétt með því að greiða vangoldin félagsgjöld ársins 2019.

Í ár verður kosið í gegnum Þínar síður og verða nánari upplýsingar um fyrirkomulag kosninganna sendar félagsmönnum fljótlega. Eigi síðar en hálfum mánuði fyrir aðalfund verða sendir út atkvæðaseðlar með tölvupósti ásamt leiðbeiningum um tilhögun kosninganna. Sé þess sérstaklega óskað er unnt að senda félagsmanni upplýsingar um kosningu bréflega.

Framboðsfrestur til formanns og stjórnar SI auk fulltrúaráðs SA rann út í gær, 16. mars. Bárust alls tvö framboð til formanns stjórnar og sjö framboð til stjórnar. Hér er hægt að sjá framboðin.