Fréttasafn



18. des. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Áhrif af hækkun byggingarvísitölunnar

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, um 4% hækkun á byggingarvísitölunni á síðustu 12 mánuðum. Hann segir horfur á að hún hækki frekar á næsta ári. Það er Baldur Arnarson, blaðamaður sem ræðir við Ingólf sem segir gengisáhrifin á vísitöluna eru umtalsverð. „Stór hluti af byggingarkostnaðinum er innflutt hráefni. Okkur reiknast til að þessi innflutti kostnaður losi um fjórðung af vísitölunni. Þá er horft til beinna og óbeinna áhrifa. Krónan hefur lækkað umtalsvert frá því síðastliðið haust. Sú lækkun mun birtast í hækkunum á vísitölunni að mestu á 4-6 mánuðum en að fullu á lengri tíma. Nákvæmlega hversu hratt þetta gerist fer eftir veltuhraða birgða. Hann hefur hins vegar verið hraður undanfarið en menn hafa verið að byggja nokkuð mikið síðustu misseri. Áhrifin af lækkun krónunnar frá því í haust eru hins vegar ekki komin að fullu fram í vísitölunni.“ 

Óvissa sem fylgir komandi kjarasamningum

Í fréttinni kemur fram að þá sé launaliðurinn á uppleið. „Vísitalan er að stærstum hluta launaliður. Launahækkanir koma því beint inn til hækkunar. Það veltur á niðurstöðum komandi kjarasamninga hvað kemur út úr því en þar er talsverð óvissa,“ segir Ingólfur sem telur aðra liði, þ.e. innlent byggingarefni, ekki munu vega á móti þessu tvennu, genginu og launum. Launahækkanir hafi enda líka áhrif á innlendan kostnað. 

Getur dregið úr fjárfestingum

Ingólfur segir að vegna hækkandi byggingarkostnaðar muni arðsemin af íbúðabyggingum að óbreyttu minnka. „Undanfarið hefur verið byggt talsvert meira af íbúðum en var gert fyrstu ár uppsveiflunnar. Það kemur m.a. til af því að það er bil milli byggingarkostnaðar og íbúðaverðs. Það er eitthvað upp úr því að hafa að byggja. Það skilar sér í því að fleiri eru tilbúnir að byggja. Það er önnur staða en í upphafi uppsveiflunnar, þegar fáir vildu byggja, enda var byggingarkostnaður yfir markaðsverði. Það hefur snúist við. Nú er byggingarkostnaður að hækka töluvert ört, samtímis því sem það hægir á hækkun íbúðarhúsnæðis. Það er að draga saman með þessum stærðum sem hefur áhrif á hvatann.“ Hann segir jafnfram að með því sé áhættan í fjárfestingum í byggingarframkvæmdum að aukast, það geti aftur dregið úr fjárfestingum, m.a. í íbúðum.

Góð skilyrði fyrir hið opinbera að fara í uppbyggingu innviða

Þá kemur fram í fréttinni að Ingólf­ur seg­i þenn­an slaka skapa góð skil­yrði fyr­ir hið op­in­bera til að fara í upp­bygg­ingu innviða, t.d. í sam­göng­um og að þessi staða sé kom­in upp fyrr en áætlað var.

Morgunblaðið / mbl.is , 18. desember 2018.

Morgunbladid-18-12-2018