Fréttasafn



8. maí 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Áhrif hækkana á sjófrakt og hrávörum gætu orðið meiri hér

Í nýrri greiningu SI kemur fram að miklar hækkanir hafi verið á sjóflutningskostnaði og hrávöruverði frá miðju síðasta ári. Efnahagsbati heimsbúskapsins ásamt hnökrum í framleiðslu og flutningum hefur leitt til ójafnvægis á mörkuðum og verðhækkunar flutninga og hrávöru. Þetta hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtæki og heimili víða um heim, þ.m.t. hér á landi sem birtast m.a. í auknum kostnaði, aukinni verðbólgu og lækkun kaupmáttar. 

Í greiningunni kemur fram að reikna megi með að áhrifin af verðhækkun flutningskostnaðar og hrávara verði engu minni á Íslandi en á evrusvæðinu, Bandaríkjunum og Bretlandi en þar sé reiknað með því að þau verði umtalsverð. Þá segir að færa mætti rök fyrir því að þau gætu orðið meiri vegna þess að kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmið Seðlabankans sé ekki jafn sterk hér og á fyrrgreindum svæðum. Verðhækkanirnar eru utan áhrifasviðs stýritækja Seðlabankans. Engu að síður kann bankinn að finna sig knúinn til að bregðast við þeim vegna áhrifa þeirra á verðbólguvæntingar. Að mati Samtaka iðnaðarins væri það mjög slæmt nú þegar þörf er á að stýrivöxtum sé haldið lágum til að örva hagkerfið til vaxtar. Áhrif þessara verðhækkana gætu því leitt til aukinnar verðbólgu, hægari vaxtar kaupmáttar og hærri stýrivaxta. Allt eru það þættir sem munu auka við þá efnahagslegu erfiðleika sem fyrirtæki og heimili í landinu eru nú að glíma við.

Helstu niðurstöður greiningarinnar eru: 

  • Flutningskostnaður hefur margfaldast vegna COVID-19. Kostnaður við flutning 40 feta gáms frá Austur Asíu til Norður Evrópu hefur t.d. fimmfaldast frá upphafi faraldursins. Skipafélög heimsins fækkuðu skipum í umferð og drógu úr umsvifum sem viðbrögð við faraldrinum. Þessi samdráttur í afkastagetu hefur nú leitt til verðhækkunar þegar eftirspurn er vaxandi.
  • Gert er ráð fyrir að hækkun flutningskostnaðar muni hafa nokkur áhrif til aukinnar verðbólgu á næstu mánuðum, eða um 0,3 prósentustig í Bandaríkjunum og 0,4 prósentustig í Bretlandi og á evrusvæðinu.
  • Hækkanir á verði almenns hrávöruverðs hafa síðustu misseri verið þær mestu í heilan áratug. Til að mynda hafa hrávörur á borð við timbur, málma og plastefni hækkað mikið í verði vegna öflugrar eftirspurnar og framleiðsluhnökra sem tilkomnir eru vegna COVID-19. Hrávöruverð án orkuverðs skv. The World Bank hefur hækkað um ríflega 40% á síðustu 12 mánuðum og rúm 11% frá áramótum.
  • Gert er ráð fyrir því að áhrif á verðbólgu verði nokkuð mikil af þessum verðhækkunum hrávöru. Því er spáð að verðhækkanir hrávöru muni stuðla að aukningu í verðbólgu um 0,7 prósentustig í Bandaríkjunum og 1,1 prósentustig í Bretlandi og á evrusvæðinu. Áhrifin eru líklegast tímabundin en munu vara áfram út árið 2021 og líkast til eitthvað inn í árið 2022.
  • Fyrirtæki í framleiðsluiðnaði hér á landi og erlendis hafa fundið talsvert fyrir hækkunum hrávöruverðs undanfarinna mánaða. Auk þess eru þau að finna fyrir hnökrum í aðfangakeðjunni þar sem seinkanir eru algengar og mörg dæmi um að fyrirtæki fái ekki afgreiddar vörur og aðföng.

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.