Fréttasafn



17. okt. 2017 Almennar fréttir

Áhugaverðar umræður á fundi SI með forystufólki stjórnmálanna

Það sköpuðust áhugaverðar og líflegar umræður á vel sóttum fundi Samtaka iðnaðarins með forystufólki stjórnmálaflokkanna sem haldinn var í morgun í Kaldalóni í Hörpu. Yfirskrift fundarins var Kjósum betra líf. Á fundinum var rætt um þau málefni sem Samtök iðnaðarins leggja fram í umræðuna í aðdraganda kosninganna. Málefnin sem eru brýnust fyrir samkeppnishæfni íslensks iðnaðar tilheyra fjórum málaflokkum; starfsumhverfi, innviðir, menntun og nýsköpun.

Fundurinn hófst á því að Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, flutti ávarp þar sem kom meðal annars fram að stjórnvöld gegni lykilhlutverki í því að skapa þannig umhverfi að hér á landi megi íslenskur iðnaður starfa við sambærileg skilyrði og þau lönd sem við eigum í samkeppni við. „Nú göngum við Íslendingar að kjörborðinu í annað sinn á innan við ári. Því miður hefur okkur ekki tekist að skapa hér stöðugleika sem bæði heimilin og atvinnulífið þurfa svo sannarlega á að halda. Þegar við göngum til kosninga þann 28. október næstkomandi erum við að kjósa fólk og flokka sem við treystum best til að skapa hér viðunandi starfsumhverfi næstu árin. Við erum í raun að kjósa um samkeppnishæfni sem er forsenda góðs lífs hjá öllum landsmönnum.“
Guðrún sagði það gríðarlega mikilvægt að frambjóðendur allra flokka taki tillit til helstu málefna atvinnulífsins til að hér megi íslenskt atvinnulíf eflast og dafna. „Við viljum að frambjóðendur setji okkar málefni í forgrunn í starfi sínu sem framundan er. Er við göngum til þingkosninga eftir 11 daga viljum við að þeir sem veljast til ábyrgðarstarfa hafi hagsmuni atvinnulífsins að leiðarljósi og þar með hagsmuni landsmanna allra.“

DSC_7191Að loknu ávarpi Guðrúnar tók Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, við og kynnti til leiks níu frambjóðendur sem tóku þátt í pallborðsumræðunum: Lilja Dögg Alfreðsdóttir - Framsóknarflokkur, Sigríður Á. Andersen - Sjálfstæðisflokkur, Katrín Jakobsdóttir - VG, Bergþór Ólason - Miðflokkurinn, Þorsteinn Víglundsson - Viðreisn, Björt Ólafsdóttir - Björt framtíð, Helgi Hrafn Gunnarsson - Píratar, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir - Samfylking og Ólafur Ísleifsson - Flokkur fólksins.

Myndband frá fundinum

Hér er hægt að nálgast upptöku af fundinum:

https://www.youtube.com/watch?v=CpBVsdNft2s#action=share

Myndir frá fundinum

Á Facebook er myndaalbúm frá fundinum í Kaldalóni í Hörpu.

Myndbönd um málefnin

Hér fyrir neðan er hægt að nálgast myndbönd um málefnin fjögur.

INNVIÐIR

STARFSUMHVERFI

MENNTUN

NÝSKÖPUN