Fréttasafn



13. des. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Ánægður með nýtt mælaborð HMS sem beðið hefur verið eftir

 „Við höfum beðið eftir þessum degi í fjölmörg ár,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, á  mbl.is þar sem fjallað er um nýtt mælaborð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem kynnt var á sameiginlegum fundi SI og HMS í dag. Mælaborðið sýnir í rauntíma hvar íbúðir eru í byggingu um land allt, hvers konar húsnæði og framvindu verkefna og leysir þannig af hólmi talningu SI. „Það var af illri nauðsyn sem Samtök iðnaðarins hófu að telja íbúðir í byggingu árið 2010. Við höfum haft það markmið í mörg ár að geta hætt því og síðasta talningin á okkar vegum fór fram og var kynnt fyrr í haust.“ 

Aðferðarfræði sem er til bóta fyrir alla

Sigurður segir í frétt mbl.is að Samtök iðnaðarins séu ánægð með vinnuna á bak við mælingarnar. „Okkur líst mjög vel á það hvernig HMS hefur þróað þetta; þá aðferðafræði sem hefur verið beitt. Þetta fellur algjörlega að hugmyndum iðnaðarins.“ Hann segir jafnframt í fréttinni að niðurstöður mælaborðs HMS kallist á við þær talningar sem að SI hafi staðið fyrir. „Aðferðafræðin er svipuð þeirri sem við höfum sjálf beitt. Almennt séð er þetta til bóta fyrir alla, hvort sem að það er almenningur að átta sig á stöðunni, aðilar sem taka ákvarðanir hvort sem það eru sveitarfélög, stjórnvöld, verktakar og aðrir sem standa að uppbyggingu. Vonandi náum við fram meiri stöðugleika á markaði.“

Hægt að hafa áhrif á framboðshliðina

Þá kemur fram á mbl.is að Sigurður bæti við að þrátt fyrir að eftirspurnarhlið húsnæðismarkaðar sveiflist nokkuð sé með þessu móti hægt að hafa áhrif á framboðshliðina „til viðbótar við ýmsar umbætur sem að gerðar hafa verið og er verið að ráðast í að hálfu innviðaráðherra.“ Þegar Sigurður er spurður út í ágreining sem hefur verið á milli SI og annarra hagaðila í gegnum tíðina um talningu segir hann að þrátt fyrir einstaka ágreining hafi samtökin heilt yfir verið sammála sveitarfélögunum. „Við höfum átt gott samstarf við þau og borið saman bækur okkar. Yfirleitt hefur þetta verið samanburður á eplum og appelsínum.“

Ein lóð í boði hjá Reykjavíkurborg

Í frétt mbl.is er Sigurður spurður miðað við þau gögn sem liggja fyrir núna hvort hann sé á þeirri skoðun að það vanti lóðir í Reykjavík? „Já. Og þá erum við að koma að áhugaverðu umræðuefni. Í skipulagi hefur verið gert ráð fyrir fjölmörgum íbúðum. En síðast þegar ég fór inn á vef Reykjavíkurborgar, sem var nýlega, þá var ein lóð í boði hjá borginni. Þá erum við að vísa í það að þær lóðir sem heimilt er að byggja á samkvæmt skipulaginu eru að langmestu leyti í eigu einkaaðila. Þeir sömu aðilar ráða því náttúrulega hvenær uppbyggingin fer fram. Það getur verið strax og það getur verið eftir tíu eða tuttugu ár. Verktakar hafa fjárfest í búnaði og hafa fjölda manns á launaskrá. Þannig að verktakar vilja náttúrulega hafa næg verkefni fyrir fólkið, sitt starfsfólk, til að vinna að nýta þann búnað sem þau hafa fjárfest í. Leiðin til þess er að fá lóðir. Ef að sveitarfélögin geta ekki boðið upp á lóðir, hvaða sveitarfélag sem það er, þá þarf náttúrulega að leita eitthvað annað.“ Þegar Sigurður er spurður hvar tækifærin liggja í frekari skipulagi og úthlutun af hálfu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu segir hann í frétt mbl.is Keldnaholtið gott dæmi ásamt Úlfarsárdalnum og Blikastaðarlandið.

mbl.is, 13. desember 2022.