Fréttasafn



12. feb. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Ár hagræðinga hjá framleiðslufyrirtækjum

Á Framleiðsluþingi SI sem fram fer í Norðurljósum í Hörpu í dag kl. 14-16 verða niðurstöður kynntar úr nýrri könnun sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins meðal stjórnenda íslenskra framleiðslufyrirtækja. Niðurstöðurnar gefa til kynna að árið 2020 verði ár hagræðinga þar sem fyrirtækin í greininni bregðast við áskorunum og krefjandi starfsumhverfi. 88% svarenda segja mjög líklegt eða frekar líklegt að þeirra fyrirtæki grípi til hagræðingaraðgerða á þessu ári. Allir stjórnendur stórra og meðalstórra fyrirtækja í greininni segjast ætla að ráðast í slíkar aðgerðir á árinu.

Konnun-mynd1

Niðurstöðurnar benda til þess að framhald verði á þeirri þróun sem þegar er hafin en launþegum í framleiðsluiðnaði hefur fækkað undanfarið. Fækkunin var komin í 4% í október í fyrra. Þetta gæti haft umtalsverð áhrif en í framleiðsluiðnaði starfa rétt tæplega 18 þúsund aðilar sem er um 9% af heildarfjölda starfandi hér á landi. En benda má á að verðmætasköpun fyrirtækja í greininni er einnig umtalsverð eða um 8% af heildarverðmætasköpun hagkerfisins.

Í svörum stjórnendanna kemur m.a. fram þörfin fyrir að bæta starfskilyrði iðnfyrirtækja um þessar mundir. Einn þeirra sagði: Það „verður að bæta starfsskilyrði framleiðslufyrirtækja hér á landi ef einhver iðnaður á að lifa í þessu landi!“.

Launakostnaður íþyngjandi fyrir framleiðsluiðnaðinn

Í könnuninni voru stjórnendur framleiðslufyrirtækjanna beðnir um að meta helstu áskoranir í þeirra rekstri. Spurt var um launakostnað, aðgengi að mannauði, sveiflur í efnahagsmálum og starfsumhverfi, skatta og opinber gjöld, aðgengi að lánsfjármagni og vöxtum, opinbert eftirlit og löggjöf og aukna áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Hver áskorun er metin á skalanum 1 til 5, þar sem 1 er mjög lítil áskorun og 5 er mjög mikil áskorun.  

Konnun-mynd2

Launakostnaður er sú áskorun sem flestir stjórnendanna sögðu vera mjög mikla um þessar mundir. Meðaltal svara við launakostnað hér á landi er 4,55 af 5 og er sá þáttur sem stjórnendur framleiðslufyrirtækja telja mesta áskorun um þessar mundir. Í ábendingum frá stjórnendunum kemur það einnig sterklega í ljós:

  • „Laun og launatengd gjöld eru að ganga mjög nærri litlum og meðalstórum framleiðslufyrirtækjum þar sem erfitt er að koma miklu út í verðlagið.“
  • „Launahækkanir síðustu kjarasamninga eru ekki í neinum takti við getu íslensks framleiðsluiðnaðar. Samkeppnisstaða gagnvart innfluttri vöru versnar enn frekar.“
  • „Launakostnaður mjög þungur. Launahlutfall miðað við veltu orðið hærra en við höfum séð áður. Erfitt að hækka verð til að mæta auknum kostnaði.“

Kemur afstaða stjórnenda heim og saman við tölur um að laun hér á landi á vinnustund séu nú með þeim hæstu innan iðnvæddra ríkja. Raungengi krónunnar á mælikvarða launa stendur sögulega hátt um þessar mundir og hefur hækkað umtalsvert á síðustu árum. Samkeppnisstaða fyrirtækja sem helst eru að keppa við erlend, líkt og fyrirtæki innan framleiðsluiðnaðarins eru að gera, er því veik m.t.t. launakostnaðar. Fyrirtækin eru að takast á við þessa stöðu á sama tíma og samdráttur er víða í eftirspurn, t.d. á innlendum markaði. 

Hér er hægt að nálgast niðurstöður könnunarinnar. 

Fréttablaðið, 12. febrúar 2020.