Fréttasafn



23. feb. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi Samtök gagnavera Starfsumhverfi

Áskoranir hér á landi í uppbyggingu gagnavera

Björn Brynjúlfsson forstjóri og einn eigenda Borealis Data Center og formaður Samtaka gagnavera segir í viðtali í ViðskiptaMogganum að í samanburði gagnavera á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum sé umhverfið á Íslandi ekki til þess fallið að styðja nægilega vel við uppbyggingu iðnaðarins. Á sama tíma hafi hin norrænu löndin sest niður og markað sér skýra stefnu um uppbyggingu gagnavera. Þau hafi markvisst laðað til sín gagnaver bæði sem fjárfestingarkosti og sem uppbyggingaraðila í löndunum. „Ekki hafa komið fram jafn markviss áform hérlendis og eru því ákveðnar áskoranir í viðskiptaumhverfinu varðandi frekari uppbyggingu. Hin norrænu löndin hafa þannig náð að styrkja stöðu sína og skapa sér forskot.“ 

Samkeppnishæft skattaumhverfi og fyrirsjáanleiki í orkumálum

Þegar blaðamaður spyr Björn um þær áskoranir sem gagnaver á Íslandi búi við segir hann að þar sé hann fyrst og fremst að tala um samkeppnishæft skattaumhverfi til jafns við hin norrænu löndin ásamt fyrirsjáanleika í orkumálum. „Í Finnlandi er viðskiptaumhverfið með því besta sem gerist í heiminum samkvæmt alþjóðlegum samanburðarskýrslum. Á sama stað og okkar gagnaver er ein stærsta græna ofurtölva heims, LUMI sem rekin er í samstarfi við ofurtölvuverkefni Evrópusambandsins, EuroHPC (The European High Performance Computing Joint Undertaking), og nokkurra þjóða, þ.m.t. Íslands. Hún er leiðandi vettvangur í rannsóknarstarfi og gervigreind í Evrópu. Þarna hefur finnska ríkið komið að borðinu og búið til umgjörð fyrir þessa ofurtölvu sem er fremst í flokki í heiminum hvað grænleika varðar. Hún er knúin áfram af endunýjanlegri orku. Svo er hitinn sem kemur af tölvuvinnslunni endurnýttur inn á hitaveitu Kajaani með verulegum orkusparnaði. Fyrir vikið er ofurtölvan einstaklega umhverfisvæn.“

Ísland hefur alla burði til að vera í fremstu röð fyrir alþjóðlega gagnaversþjónustu

Björn segir í viðtalinu að meðfram starfsemi LUMI hafi verið mikil uppbygging í samfélaginu tengd gagnaverum og til dæmis bjóði háskólinn, Kajaani University of Applied Sciences (KAMK), upp á nám tengt gagnaverum. Björn telur að hægt væri að skapa sams konar samfélag hér á landi. Ísland hafi alla burði til að vera í fremstu röð sem miðstöð fyrir alþjóðlega gagnaversþjónustu. 

Björn segir jafnframt að ráðamenn og aðrir þurfi að átta sig á að íslenski gagnaversgeirinn sé í alþjóðlegri samkeppni. „Þetta er kvikur geiri sem hreyfist hratt. Um þessar mundir eru stór tækifæri að verða til í tengslum við gervigreindarbyltinguna. Við í geiranum viljum sjá Ísland sem lykilstað í uppbyggingu á gagnavinnslu í Evrópu því það er mjög gott að geta staðsett gagnaver nálægt endurnýjanlegum orkuuppsprettum eins og á Íslandi. Vöruna sjálfa er svo hægt að senda hinum megin á hnöttinn á örfáum millisekúndum. Einn af okkar viðskiptavinum er til dæmis að fá þjónustu frá Íslandi afhenta í Japan.“

ViðskiptaMogginn, 21. febrúar 2024.

B2024-02-21