Fréttasafn



20. maí 2018 Almennar fréttir Menntun

Auka verður vægi iðngreina í grunnskólunum

„Ég að við verðum að gera gríðarlegar breytingar í grunnskólunum, auka þar vægi iðngreina, bæði með hæfum kennurum en síðan en ekki síst að börnin okkar fái að kynnast mismunandi handverki,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í frétt helgarútgáfu Fréttablaðsins. Hún segir Samtök iðnaðarins vinna stöðugt að eflingu iðnnáms og að samtökin séu með tvo starfsmenn á launum sem séu í samskiptum við grunnskólana, samtökin séu meðeigendur í Tækniskólanum og Háskólanum í Reykjavík, haldi úti vefsíðunni Nema hvað? og sendi öllum börnum á Íslandi í 9. og 10. bekk fræðsluefni um fjölbreyttar iðngreinar. Þá hafi verið gerð upplýsinga- og fræðslumyndbönd fyrir unglinga.

Í fréttinni segir Guðrún að Íslendingar hafi sem þjóð leyft sér að tala niður til iðnaðarins og til iðnnemanna. „Að það sé fólk sem var skussar í námi eða að þeir hafi farið í iðngreinar vegna þess að þeir gátu ekki annað. Þetta er algjör misskilningur og við þurfum á mjög hæfu handverksfólki að halda þannig að þeir sem eru að byggja hús og leysa úrlausnarefni tengd því þurfa að vera mjög klárir einstaklingar.“ 

Á Vísi er hægt að lesa fréttina í heild sinni.